Karlar sem taka feðraorlof eiga síður á hættu að deyja áður en þeir komast yfir fimmtugt, en þeir sem ekki taka feðraorlof. Á vef Svenska Dagbladet kom fram að þeir feður sem bindast börnum sínum snemma tilfinningaböndum, taki nefnilega síður áhættu í lífinu. Rannsókn við Umeå háskólann leiddi þetta í ljós en nokkrum sænskum pörum sem eignuðust fyrsta barn 1978 var fylgt eftir. Feður sem tóku 30-60 daga feðraorlof áttu 25% síður á hættu að deyja fyrir fimmtugt en hinir.

Forsvarsmaður rannsóknarinnar, Anna Månsdotter, segir að áður hafi verið vitað að konur lifi almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður en ekki hafi verið sýnt fram á sömu þróun hvað karla varðar. Rannsóknin hafi leitt í ljós að eitthvað gerist þegar þeir bindast börnum sínum tilfinningaböndum.

Almennt hefur verið sýnt fram á að karlar taka meiri áhættu en konur, t.d. í umferðinni, og að þeir drekka meira að meðaltali. Rannsóknin leiddi í ljós að feðraorlof hafði góð áhrif á heilsu karla. Ástæðurnar eru taldar tvær: Karlarnir taka síður áhættu í lífinu eftir að þeir bindast afkvæmum sínum og þeir taka meiri þátt í hefðbundnum hlutverkum kvenna. Niðurstöður rannsóknarinnar benda ennfremur til þess að heilsufar beggja kynja njóti góðs af jafnrétti innan veggja heimilisins. Fyrri rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á að heilsu kvenna getur hrakað þegar þær taka yfir hefðbundin hlutverk karla, t.d. sem stjórnendur í fyrirtækjum. Það helgast t.d. af því að þær bera enn meginábyrgðina á heimili og fjölskyldu.

mbl.is Miðvikudaginn 26. apríl, 2006

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0