“Það getur hver sem er verið faðir, en til að verðskulda tignarheitið pabbi þarf maður að hafa eitthvað sérstakt í viðbót.” Þannig segir bandarískt máltæki. Sigurður Ægisson nefnir það hér vegna þess, að í dag er feðradagurinn haldinn um gjörvöll Bandaríkin og víðar.

Hinn 9. maí árið 1905 missti bandarísk kona, Anna M. Jarvis að nafni, móður sína. Í kjölfar þess tók hún upp á að minnast ártíðar hennar á næstu árum, og hvatti aðra til að gera svipað. Árið 1908 ritaði hún þúsundir bréfa til áhrifamanna um gjörvöll Bandaríkin, og hvatti til þess að annar sunnudagur í maí yrði helgaður öllum mæðrum. Árangurinn varð sá, að árið eftir var haldið upp á daginn í 45 fylkjum landsins, á einhvern hátt. Þetta var upphafið að mæðradeginum.

Sonora Louise Smart, ung kona úr austanverðu Washington-ríki í Bandaríkjunum, var einmitt að hlusta á ræðu á umræddum degi 1909, þegar hugmynd um samsvarandi “feðradag” vaknaði með henni. Þar var hún með föður sinn í huga, William Jackson Smart, fyrrum hermann úr borgarastríðinu, en hann var þá ekkjumaður, því eiginkonan hafði látist þegar hún var að fæða sjötta barn þeirra hjóna.

Þegar Sonora var komin á fullorðinsár og leit til baka, til áranna þegar faðir hennar var einn að berjast með ungahópinn sinn, fylltist hún þeirri aðdáun yfir fórnfýsi hans, sem leiddi til áðurnefndrar niðurstöðu. Ákvað þessi dóttir hans, sem þá var orðin gift kona og hét frú John Bruce Dodd, að feðradagurinn skyldi haldinn í afmælismánuði Williams Smart, og í fyrsta sinn var dagsins minnst 19. júní 1910, í Spokane í Washington-ríki. Inn í þetta allt spilaði, að hún var sjálf orðin móðir, eignaðist son árið 1909, og kom eiginmaður hennar að uppeldi hans, rétt eins og hún sjálf. Og þegar hún fór að líta í kringum sig, varð henni ljóst að þetta var ekkert einsdæmi, heldur tíðkaðist víða.

Einhverjar heimildir fullyrða reyndar, að frú Charles Clayton úr Vestur-Virginíu-ríki hafi verið upphafsmanneskja feðradagsins. En það er önnur saga. Calvin Coolidge Bandaríkjaforseti hvatti til þess árið 1924, að dagurinn yrði haldinn um öll Bandaríkin, og árið 1966 gaf Lyndon Johnson forseti út yfirlýsingu þess efnis, að upp frá því skyldi þriðji sunnudagur í júní verða kallaður feðradagur og hans minnst á tilheyrandi hátt um öll Bandaríkin. Árið 1972 festi Richard Nixon það enn frekar í sessi.

Ekki veit ég til þess, að feðradagsins hafi verið minnst hér á landi, sem er dálítið undarlegt, því hann er eiginlega frá sama tíma og mæðradagurinn. E.t.v. er skýringarinnar að leita í hinu lokaða fasi íslenskra karlmanna, og að þetta hafi aldrei verið raunhæfur möguleiki af þeim sökum. En nú eru breyttir tímar, og hinn mjúki karlmaður á hverju strái. Og því ekki eftir neinu að bíða.

Það er alltaf sárt upp á að horfa þegar pör fara í sundur, hvort sem það er gift fólk eða hefur einasta verið í sambúð. Og ömurlegt, þegar börn eru til staðar í þeim kringumstæðum. Þá gerist margur harmleikurinn. Mig langar til að helga þessi orð mín í dag einstæðum feðrum, sem oftar en ekki eiga undir högg að sækja í félagsmála- og réttarkerfi okkar, þegar kemur að forsjármálum; eru þar gjarnan lítils virtir og metnir, og yfir þá keyrt eða valtað. Ég veit um mörg slík dæmi.

Sumpart er vandann að rekja til þess, að löglærðir fulltrúar sýslumannsembættanna (en þau hafa úrskurðarvald í umgengnismálum) eru flestir kvenkyns, og sumpart til gamals og úrelts hugsunarháttar, sem byggist á heimavinnandi móður annars vegar og svo föður bundnum úti hins vegar, til að afla tekna og viðurværis, og sem “getur” því ekki eðli málsins samkvæmt eins vel hugsað um afkvæmi sín. Í nútímasamfélagi á slík forneskja ekki að þekkjast, hvað þá að líðast. Ábyrgir feður taka orðið jafnmikinn þátt í uppeldi og umönnun barnanna sinna og mæðurnar, eftir því sem aðstæður leyfa. Um það verður ekki deilt.

Að vísu er það rétt og satt, að konurnar hafi ákveðna forgjöf, sem er meðgangan, og jafnvel lengri tími ef um brjóstagjöf er að ræða. En á hitt skal jafnframt minnt, að föðurímyndin er barninu líka afar mikilvæg, og ekki síður, eins og heyra mátti og sjá í fjölmiðlum á dögunum, þar sem kynntar voru niðurstöður rannsókna úr skólastofum. Þar var bent á nauðsyn þess, að drengir hefðu ekki bara konur þar um sig innan veggjanna, heldur einhvern karlmann nærri, til að koma í veg fyrir sálrænt ójafnvægi.

Í þessu, eins og öðru, þarf sumsé að ganga meðalveginn, til að allt sé gott, en ekki hafa einstefnu þar sem móðirin er látin njóta kyns síns og vafans. Árið 2002 voru u.þ.b. 12.000 meðlagsgreiðendur á Íslandi, og þar af voru um 11.600 feður. Þetta er auðvitað fáránlegt, og á meðan hægt er að benda á slíkt er það konum allt annað en til framdráttar í jafnréttisbaráttunni. Það verður einfaldlega ekki bæði sleppt og haldið.

Um leið og ég bið og vona, að á öllu þessu verði senn breyting í rétta átt, óska ég feðrum um land allt til hamingju með daginn; hinum fótumtroðnu og kúguðu sendi ég aukinheldur baráttukveðjur.

sigurdur.aegisson@kirkjan.is
Morgunblaðið, sunnudaginn 20. júní, 2004

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0