Af kristilegu fjölskyldustarfi í Suður-Þýskalandi

 

Pabbi hefur þú tíma fyrir mig? Þessa spurningu þekkja flestir feður og margir þeirra líða fyrir það að þurfa oft að svara þessari spurningu neitandi. Spurningar eins og ,,Er ég börnunum mínum góður faðir?” eða ,,Hvaða þýðingu hef ég fyrir börnin mín?” fylgja oft í kjölfarið en svörin liggja ekki í augum uppi. Þessi óvissa veldur oft ,,sambandstruflunum” sem gera samskipti barna við föður erfiðari. Hér væri hægt að tala um ,,æfingaleysi”.

Flestir feður eru allan daginn og mörg kvöld að heiman og því eru stundirnar sem þeir hafa til samskipta við börnin sín fáar. Til þess að ,,æfa” þessi samskipti og gefa sambandi feðra við börnin sín nýtt líf bjóða kirkjur og félagasamtök í auknum mæli upp á alls konar uppákomur fyrir feður og börn. Þar má til dæmis nefna helgarnámskeið Æskulýðsstarfs evangelísku kirkjunnar í Württemberg fyrir feður og syni. Ég var svo heppinn að fá að vera starfsmaður á þessu námskeiði og langar að gera örlitla grein fyrir námskeiðinu hér.

Námskeiðið hófst á föstudagskvöldi og stóð fram yfir hádegi á sunnudag. Alls mættu 35 feður og 50 átta til þrettán ára synir á mótið. Flestir synirnir höfðu aldrei áður sofið í tjaldi með pabba sínum og rúmur helmingur þeirra var að fara í fyrsta sinn í burtu að heiman án þess að taka mömmu með.

Úr gráma hversdagsins í leikgleðina
Dagskráin hófst með leikjakvöldi. Við gerð leikjanna var þess gætt að synir jafnt sem feður ættu auðvelt með að leysa verkefnin. Þessi verkefni kröfðust margháttaðrar samvinnu innan hverrar fjölskyldu fyrir sig, grámi hversdagsins hvarf og í leikgleðinni urðu allir jafningjar. Að leikstundinni lokinni sendum við hverja fjölskyldu út af fyrir sig með kyndla út í náttmyrkrið. Þessi stutta gönguferð í myrkrinu var fyrir synina ævintýri líkust og feðurnir upplifðu nýjar hliðar sona sinna. Kvöldinu lauk með kvöldsögu við varðeldinn. Það voru lúnir synir og hugsandi feður sem fóru að sofa í tjöldunum þetta kvöldið.

Týndi sonurinn – indíánar og kúrekar
Laugardagurinn var blandaður leikjum og fræðslu. Fyrri hluti laugardagsins var helgaður sögu úr biblíunni. Á meðan að synirnir léku söguna um týnda soninn sem ,,póstaleik” sátu feðurnir og veltu vöngum yfir miskunnsama föðurnum. Við matarborðin í hádeginu mátti svo heyra líflegar umræður milli feðra og sona um söguna. Fyrir marga þeirra var þessi umræða fyrsta samtalið milli föður og sonar í tengslum við trúmál.

Eftir að hafa legið stutta stund á meltunni hófst mikill leikur þar sem reyndi á vit og krafta leikmanna. Við starfsmennirnir höfðum blandað póstaleik, útileik og ,,löggu og bófa” í einn pott og allan seinnipartinn þeyttust feður og synir sem indíánar, kúrekar eða löggur vopnaðir tengingum út um allan skóg. Hér var hin barnslega leikgleði í fyrirrúmi og erfitt að dæma hvort feður eða synir skemmtu sér betur. Að leikslokum settust hinir þreyttu stríðsmenn niður við varðeldinn, grillmaturinn var fljótur að hverfa og að lokinni söngríkri kvöldvöku hvarf hver fjölskyldan á fætur annarri í sitt tjald.

Sólskinsguðsþjónusta
Á sunnudeginum var glampandi sól og því tilvalið að halda guðsþjónustu dagsins undir berum himni. Efni dagsins var helgað sambandi okkar við hinn himneska Föður sem og hinn jarðneska föður. Þessum hápunkti helgarinnar lauk með því að einn starfsmaðurinn söng (rappaði) eigið lag um týnda soninn við mikla hrifningu. Það var erfitt að kveðjast að loknum hádegisverðinum. Framundan var grámi hversdagsins, en í brjóstum margra bærðist sú von að sá grámi yrði öðru hvoru litaður með brosi sonar til föður eða hughreystandi orði föður til sonar.

Þörfin er mikil
Nú, þegar þessi grein er skrifuð, er liðinn nokkur tími frá þessari helgi. Af samtölum við og bréfum frá feðrum og sonum höfum við starfsmennirnir reynt að gera okkur grein fyrir því hvaða þýðingu þessi helgi hafði fyrir þátttakendur. Ljóst er að þörfin er mikil fyrir námskeið sem þessi. Um leið er það hart að þurfa að viðurkenna að feður nú til dags virðast ekki hafa tíma til að fara í helgarútilegu með syninum nema að slíkt sé gert í formi námskeiðs þar sem þeir þurfa að skrá sig með góðum fyrirvara og þar með er viðkomandi helgi tekin frá fyrir námskeiðið. Ljóst er að eitt af markmiðum þessa þáttar fjölskyldustarfsins hlýtur að vera að hvetja feður til að taka helgar ,,frá” í dagatalinu fyrir fjölskylduna án þess að hafa eitthvað ákveðið fyrir stafni.

Máttlausir foreldrar
Það þjóðfélagsform sem við búum nú við breytist stöðugt. Sem dæmi um þessar breytingar má nefna að sérhæfing verður sífellt meiri og þær stofnanir sem fólk þarfnast mest verða sífellt stærri. Og einmitt þetta virðist valda óöryggi hjá mörgum foreldrum.

Margir sem eru í foreldrahlutverkinu ólust upp við allt aðrar aðstæður. Foreldrar þeirra höfðu samband við fóstruna á leikskólanum ef eitthvað var og við kennarann í skólanum. Nú eru dæmi um foreldra sem verða að vera í sambandi við allt upp í tíu persónur í for- og grunnskólum vegna þriggja barna. Í forskólanum er leikskólakennari sem sér um hreyfiþroska barnanna, sálfræðingur sem fylgist með andlegum þroska barnanna og uppeldisfræðingur sem fylgist með félagstengslum barnanna svo eitthvað sé nefnt. Er nema von að foreldrarnir standi máttlausir og segi: ,,Ef það þarf svona margt fagfólk til að ala upp börnin mín, þá getur ekki verið að ég geti hjálpað því.” Og í rökréttu framhaldi af því halda foreldrarnir áfram á þessari braut og senda börnin til fleira fagfólks.

Börnin hafa ekki tíma til að leika sér
Hér í Württemberg búa börn við skipt skólakerfi, sem þýðir að foreldrar verða að ákveða í samráði við kennara í lok fjórða bekkjar hvort barnið ætlar að taka stúdentspróf eða ekki. Hér hafa einkunnir úr þriðja og fjórða bekk mikið að segja sem þýðir að sá sem getur ekki sýnt góðar einkunnir verður að fara lengri leið til stúdentsprófsins. Margir foreldrar velja því nauðugir viljugir þá leið að byrja snemma að senda börn til ,,fagfólks” í utanskólakennslu, ballett og tónlistartíma, heimspeki-, rökræðu- og leiklistarnámskeið svo eitthvað sé nefnt. Allt er lagt undir til að barnið komist eftir réttri leið að stúdentsprófi. Og margt níu ára barnið stynur þungan undan kröfunum hér og þar. Fyrir frjálsan leik er vonandi tími um helgar! Hér verður einnig ljóst að það eru ekki bara foreldrarnir sem hafa engan tíma fyrir börnin, börnin hafa engan tíma fyrir foreldrana.

Kirkjan styðji fjölskylduna
Hér hef ég stiklað á stóru í því sem ég uppgötvaði þessa helgi. Fyrir mér er það augljóst að kirkjan verður að koma inn í þessar aðstæður og stöðva þessa þróun. Guð gaf okkur öllum hæfileika til mannlegra samskipta, Guð gaf foreldrum hæfileika til að ala börnin sín upp. Einmitt þetta verðum við í kirkjunni að gera okkur og öðrum ljóst. Það getur enginn fagmaður komið í stað foreldris, ekkert undirbýr barnið betur fyrir lífsbrautina eins og gott fjölskyldulíf. En aðstæðurnar vilja oft leiða fólk á aðrar brautir. Hér verður kirkjan að taka sér tak og gerast skiljanlegur leiðarvísir. Til dæmis með því að bjóða fólki upp á helgarnámskeið þar sem tengsl foreldra við börnin eru æfð. Slíkt gerist ekki með fyrirlestrum eingöngu, heldur miklu fremur í gegnum upplifun!

Pétur Björgvin 11.55 30/12/2005

Grein eftir Pétur Björgvin Þorsteinsson djákna.
Greinin birtist fyrst í Víðförla í desember 1994.

Sjá nánar: http://www.kirkjan.is/annall/di/2005-12-30/11.55.28

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0