Eru barnalögin beinlínis röng og fer meðlagið sem ég borga í eitthvað allt annað en framfærslu á barninu mínu, spyr Baldvin Zarioh, eða vitnar ríkisskattstjóri rangt í lögin?

Ég skrifa þessar línur til að lýsa yfir óánægju minni með skattaskýrsluna. Í leiðbeiningabækling sem gefinn er út í sambandi við skattskýrsluna kemur fram að einstaklingur sjái ekki um framfærslu á barni nema að það eigi lögheimili hjá viðkomandi. Það þykir sjálfsagt að öll réttindi falli til þess foreldris sem barnið hefur lögheimili hjá, þó svo að um sameiginlegt forræði sé að ræða og auðvitað skal meðlag vera borgað. Þetta er allt gott og blessað og lítið um það að segja, en hinsvegar er það forkastanlegt að ríkisskattstjóri skuli ekki viðurkenna að við sem borgum meðlag, séum að uppfylla framfærsluskyldu okkar.

Á blaðsíðu sex í bæklingi þeim sem ríkisskattstjóri gefur út vegna skattaskýrslunnar kemur fram að einstætt foreldri sé sá sem einn sér um framfærslu barns. Með því er ríkisskattstjóri að halda því fram að ég sé ekki að borga með framfærslu barns míns í gegnum meðlagið, þó að það standi í tíundu grein barnalaga frá 1992 að ég sé einmitt að uppfylla framfærsluskyldu mína með því að borga meðlag.

Þá er einungis um tvennt að ræða: að barnalögin séu beinlínis röng og meðlagið sem ég borga fer í eitthvað allt annað en framfærslu á barninu mínu eða þá að ríkisskattstjóri vitnar rangt í lögin. Ef barnalögin eru röng þá vil ég fá að vita í hvað meðlagið mitt fer, en ef ríkisskattstjóri fer með rangt mál, þá óska ég þess að viðkomandi málsgrein í leiðbeiningarbæklingnum verði breytt fyrir næstu skattaskýrslu.

Úr Morgunblaðinu eftir Baldvin Zarioh

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0