FEÐUR barna sem fæddust á árinu 2004 taka að jafnaði aðeins fjóra daga í fæðingarorlof umfram þriggja mánaða sjálfstæðan rétt sinn. Það merkir að mæður taka að jafnaði sex mánuði í fæðingarorlof en feður þrjá mánuði. Feður tóku í fyrra að meðaltali 94 daga í fæðingarorlof en mæður að meðtaltali 182 daga. Þetta kemur fram í nýrri töflu í Staðtölum TR fyrir árið 2004.
Í Staðtölum kemur einnig fram að útgjöld vegna fæðingarorlofs og fæðingarstyrks jukust um 19% milli áranna 2003 og 2004. Á síðasta ári voru útgjöldin samtals 6,6 milljarðar króna. Konur fengu greidda 3,7 milljarða en karlar 2,9 milljarða.

85% karla taka fæðingarorlof
Alls fengu 3.699 feður barna fæddra 2004 greiðslur vegna fæðingarorlofs og hefur fjölgað um 11% frá árinu 2001. Fædd börn á árinu voru rúmlega fjögur þúsund og af þessum tölum má því ráða að um 85% feðra þessara barna taki fæðingarorlof.
Samkvæmt lögum á hvort foreldri um sig sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til greiðslna í fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði. Foreldrar eiga þar að auki sameiginlegan rétt til greiðslna í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða þeir skipt á milli sín. Samkvæmt tölum frá árinu 2004 tekur móðirin sameiginlegu mánuðina nánast óskipta.

Fimmtudaginn 1. desember, 2005 – Innlendar fréttir
mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0