Fyrir helgi kom fram í fjölmiðum að Andri Teitsson hefði sagt starfi sínu lausu sem forstjóri KEA vegna þess að stjórn KEA hefði þótt óheppilegt að hann tæki fæðingarorlof í níu mánuði. Félag ábyrgra feðra fagnar ákvörðun Andra um að taka sér svo langt fæðingarorlof en harmar að hann skuli hafa verið knúinn til að segja upp starfi sínu.

Félag ábyrgra feðra telur mjög brýnt að íslenskt samfélag viðurkenni jafna ábyrgð beggja foreldra á börnum sínum. Mjög mikilvægt skref í átt að slíkri viðurkenningu eru lög um fæðingarorlof frá 2000. Á síðasta ári var þessum lögum breytt þannig að réttur fólks með miklar tekjur til að taka fæðingarorlof var skertur, eða öllu heldur rétturinn til svipaðra launa og áður.

Lagðist Félag ábyrgra feðra eindregið gegn slíkri breytingu, ekki síst á þeim forsendum að breytingin fæli í sér skertan rétt feðra og að með breytingunni væri komið í veg fyrir að ábyrgðarmiklir stjórnendur gætu verið lægra settum starfsmönnum fyrirmynd í jafnréttismálum. Taldi félagið að jafn réttur allra til fæðingarorlofs myndi stuðla „að jafnri ábyrgð feðra og mæðra á umönnum barna sinna og að jafnri þátttöku kvenna og karla á vinnumarkaði.“

Félag ábyrgra feðra telur því stjórn KEA hafa gengið þvert gegn lögum um fæðingarorlof og að uppsögn Andra Teitssonar sé lögbrot, jafnvel og ekki síst vegna þess að hún er þvinguð fram með afarkostum. Félag ábyrgra feðra telur feður óþægilega oft vera þvingaða til samninga varðandi börn sín, jafnvel að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Harmar félagið og mótmælir harðlega þessum þvingaða samningi sem forstjóri KEA hefur verið neyddur til.

Hvetur Félag ábyrgra feðra alla feður til að taka sér fullt fæðingarorlof og hlusta ekki á blygðunarlausar fortölur Benedikts Sigurðssonar stjórnarformanns KEA um að fæðingarorlof sé bara fyrir venjulega feður. Allir feður eru venjulegir feður.

Reykjavík 6. ágúst 2005.

F.h. stjórnar Félags ábyrgra feðra
Garðar Baldvinsson formaður

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0