Kristín Þorleifsdóttir fjallar um fæðingarorlofsrétt: “Er því ekki eðlilegt að fæðingarorlof sé reiknað miðað við þær tekjur sem einstaklingur hefur rétt fyrir fæðingu barns og á líklega eftir að hafa í framtíðinni…”

Frá blautu barnsbeini stefna flestir að því að mennta sig, koma sér upp heimili, eignast börn, hvítt grindverk og allan pakkann. Þetta er það sem samfélagið ætlast til og ber í raun hag af. En hvernig styður það umhverfi sem við búum við þessa “gullnu” leið? Húsnæðisverð fer hækkandi, en er leyst með hærri lánum sem hægt er að borga af það sem eftir er af lífinu og jafnvel arfleiða börnin sín að. Krafa um menntun er alltaf að aukast og fólk er því lengur en áður að koma sér upp því lífi sem það stefnir að.

Breyting á lögum

Á þessu ári tóku í gildi ný lög um fæðingarorlof sem segja að nú skuli reikna greiðslur orlofsins miðað við laun tilvonandi foreldra tvö ár til baka, í stað eins árs áður.

Þegar fólk er að koma á vinnumarkaðinn eftir langt og strangt framhaldsnám tekur það einhvern tíma að komast í þann launaflokk sem það stefnir að. Fólk á barneignaraldri er það fólk sem hækkar hvað hraðast í launum og stendur auk þess oft á tíðum undir hærri afborgunum en þeir sem náð hafa lengri starfsaldri.

Greiðslur úr Fæðingaorlofssjóði fá foreldrar sem hafa verið samfellt í starfi í a.m.k. sex mánuði fyrir töku fæðingarorlofs. Mánaðarleg greiðsla til foreldra í fullu orlofi nemur 80% af meðallaunum síðustu tveggja ára. Þá skiptir ekki máli hvort viðkomandi er nýkominn á vinnumarkaðinn eða ekki. Þess má einnig geta að ríkisstarfsmenn fá 100% laun greidd í fæðingarorlofi en borga þó hlutfallslega jafnháan skatt og þeir sem vinna hjá einkareknum fyrirtækjum.

Útreikningur orlofsins hjá námsmönnum

Einstaklingur sem er nýkominn úr námi og hefur unnið í eitt ár fær fæðingarorlof samkvæmt þessu eina ári. Auk þess eru reiknaðir með þeir mánuðir sem viðkomandi vann í sumarvinnu meðan á námi stóð, í þessu tilfelli eitt sumar. Þeir mánuðir sem viðkomandi var í skóla eru reyndar frátaldir. Þetta gefur ekki raunverulega mynd af tekjum viðkomandi því sumarvinna gefur í flestum tilfellum lægri laun en framtíðarstarf og oft á tíðum munar þetta drjúgri upphæð. Þegar litið er til þess að viðkomandi á mjög líklega eftir að vera á vinnumarkaðnum í mörg ár og hækka nokkuð hratt í launum, er þetta “léleg tímasetning” til að eignast barn. Við erum jú flest að mennta okkur meðal annars til þess að eiga möguleika á hærri launum.

Við útreikning á fæðingarorlofsgreiðslum er miðað við tvö tekjuár fyrir fæðingu barns sem þýðir að síðasti mánuður sem tekinn er með í reikninginn er desember. Greiðsluviðmiðunin fer því algerlega eftir því hvenær barnið fæðist. Ef það fæðist í janúar eru allir mánuðir teknir með í reikninginn að fæðingu barnsins. Aftur á móti ef barnið fæðist í nóvember skiptir ekki máli hvort laun hafi hækkað síðasta árið. Ef hægt er að horfa til baka tvö ár launalega séð hversvegna er þá ekki hægt að taka tillit til launa síðustu mánuði fyrir fæðingu barns?

Mín skoðun er sú að vinnufært fólk eigi að skila sínu til samfélagsins og uppskera samkvæmt því. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að við borgum öll skatt af laununum okkar. Er því ekki eðlilegt að fæðingarorlof sé reiknað miðað við þær tekjur sem einstaklingur hefur rétt fyrir fæðingu barns og á líklega eftir að hafa í framtíðinni, en ekki miðað við laun löngu fyrir fæðingu barnsins og á námstíma.

Kristín Þorleifsdóttir
Höfundur er varaformaður Bandalags íslenskra námsmanna (BÍSN).

mbl.is 22.08.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0