Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar segir hiklaust já við þeirri spurningu á Jafnréttisráðstefnu 2009, sem haldin var af félags- og tryggingamálaráðuneytinu og Jafnréttisráði þann 16. janúar sl.

 

 

Ræða Ágústs Ólafs í heild sinni:

 

 

Eru forsjár- og umgengnismál hluti jafnréttisumræðunnar?

 

 

Fundarstjóri, aðrir gestir

 

 

Ég vil byrja að fagna þessu tækifæri að tala á þessu jafnréttisþingi sem ég tel vera afar mikilvægan áfanga í leið okkar að jafnrétti. Mín nálgun hér í dag verður á sifjamálin en ég leiði nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar sem kannar fjárhagslega og félagslega stöðu einstæðra foreldra, forsjárlausra foreldra og stjúpforeldra.

 

 

Verkefni þessarar nefndar er afar viðamikið og höfum við nú fundað í um 50 skipti á því rúma ári sem við höfum unnið að málinu.

 

 

Í nefndina voru skipaðir tólf fulltrúar, auk eins tengiliðs við Hagstofuna og tveggja starfsmanna. Félagsmálaráðherra ásamt dómsmála- og menntamálaráðuneyti tilnefndu sína fulltrúa. Þá skipuðu Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands einn fulltrúa hver. Og að auki eiga fimm félagasamtök fulltrúa í nefndinni, þ.e. Félagsráðgjafafélag Íslands, Heimili og skóli, Félag einstæðra foreldra, Félag stjúpfjölskyldna og Félag um foreldrajafnrétti.

 

 

Eins og má heyra þá liggur mikil fagþekking í nefndinni sem er auðvitað mikill kostur í ljósi þess verkefnis sem beið okkar. Nú má segja að nefndin sé á lokasprettinum og er því skýrslu að vænta nú á vormánuðum, ásamt tillögum.

 

 

Spurningin sem ég velti fyrir mér hér í dag er sú hvort forsjár- og umgengnismál séu hluti jafnréttisumræðunnar? Og til að svara henni þá er vel hægt að efast um að svo sé. Að minnsta kosti hefur þessi hluti jafnréttisbaráttunnar ekki verið mjög ofarlega í umræðunni þótt hann hafi vissulega aukist undanfarin misseri. 

 

 

Barnanefndin hélt þó í haust vel heppnað málþing einmitt um verkefnasvið nefndarinnar og fór mætingin fram úr björtustu vonum. Það er því ljóst að mikill áhugi er á þessu sviði jafnréttisbaráttunnar.

 

 

Umræðan um forsjár- og umgengismál má ekki vera jaðarmál. Stór hluti af jafnrétti er að tryggja jafna stöðu einstaklinga þegar kemur að réttindum þeirra gagnvart sinni fjölskyldu og heimili. Og það eru sláandi upplýsingar að um 90% barna eiga lögheimili hjá móður sinni. Það segir okkur eitthvað um stöðu feðra í þessum málaflokki en að sama skapi mögulega eitthvað um stöðu kvenna einnig t.d. á vinnumarkaði og mögulega um mikla ábyrgð þeirra hvað varðar fjölskyldu, heimili og börn. Ég vil sem minnst fullyrða en bendi á margþætta nálgun á forsjármálunum. Hagsmunir barna og jafnrétti kynjanna geta verið tvær hliðar á sama peningi.

 

 

En það er ekki eingöngu hægt að nálgast forsjár- og umgengismál út frá sjónarhóli jafnréttis milli kynja eða foreldra því í þessum málum er það réttur barnsins sem þarf að vera í forgrunni. Rauði þráðurinn í barnarétti er að ætíð sá að það ber að gera það sem er barninu fyrir bestu þótt hagsmunir foreldra kunni að víkja sakir þessa. Þessa lykilstaðreynd er ekki nóg að viðurkenna bara í orði. Þetta gerir málið flóknara og jafnvel erfiðara viðfangs heldur en mörg önnur mál sem við öllu jafnan ræðum þegar jafnréttismál ber að góma.

 

 

Þessi mál eru eins og mörg spennandi samfélagsmál að við erum eilífilega að fást við sömu spurninguna, en svörin eru ólík eftir tíðaranda. Ekki ýkja langt síðan að það þótti sérstakt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, ef faðir fór einn með forsjá og ekki síður sérstakt ef kona var fyrirvinna fjölskyldu. Og við verðum auðvitað að taka mið af því af þekkingu og læra af reynslunni í þessum efnum eins og öðrum. Enn er svarið þó óskorað það að við viljum velja þá leið sem hentar börnunum best.

 

 

Markmiðið í íslenskum rétti, og reyndar í þeim norræna, hefur verið að tryggja rétt barna til að þekkja og hafa tengsl við báða foreldra sína óháð stöðu foreldranna.

 

 

Alls staðar er lögð rík áhersla á samstöðu og samvinnu foreldra og mikilvægi þess að foreldrar nái sáttum eða semji um forsjá, búsetu og umgengni með hagsmuni barns að leiðarljósi. Jafnframt hafa verið talsverðar umræður um með hvaða hætti skuli leysa úr deilum foreldra, hvaða ágreiningsmál sé unnt að úrskurða eða dæma um og svigrúm úrskurðaraðila til að komast að niðurstöðu.

 

 

Íslendingar hafa hins vegar verið á mörgum sviðum sifjaréttar eftirbátar annarra þjóða. Til dæmis gerðum við sameiginlega forsjá að meginreglu við skilnað talsvert seinna en aðrar þjóðir en sú breyting kom ekki í löggjöf okkar fyrr en árið 2006. En að sumu leyti höfum við gengið lengra en aðrar þjóðir og sker Ísland t.d. sig frá hinum norrænu ríkjunum að því er varðar forsjá þegar um sambúðarfólk er að ræða því aðeins hér á landi fara foreldrar í skráðri sambúð sjálfkrafa sameiginlega með forsjá barna sinna. Fæðingarorlofsgjöfin er líka dæmi um íslenska framsækni. Og við eigum almennt að vera duglegri við að halda því til haga sem við gerum vel.

 

 

En þróunin er hröð í þessum efnum og erum við t.d. í nefndarstarfi okkar að fá mjög sterkar vísbendingar um að æ fleiri foreldrar kjósa jafna eða a.m.k. jafnari umgengni. Það verður sífellt algengara að börn dvelji jöfnum höndum hjá foreldrum, til dæmis viku og viku. Og þá vakna nýjar spurningar, er það barninu til góða að eiga í reynd tvö heimili? Erum við að hverfa frá því að barninu sé fyrir bestu að eiga eitt fast heimili? Erum við að nálgast það að mikilvægara sé að njóta samvista við báða foreldra? Hér þurfum við auðvitað jafnframt að hafa hugfast að það sem hentar einu barni hentar ef til vill ekki öðru.

 

 

Þess vegna skiptir miklu máli að við séum viljug til að endurskoða núverandi löggjöf en álitamálin í þeim efnum eru mörg. Það eru lítil atriði en dagleg sem horfa þarf til, eins og hvað varðar heimavinnu sem send er heim með ungum skólabörnum – þá þarf að koma því við að báðir foreldrar geti tekið þátt í því og axlað þá ábyrgð sem heimavinnu fylgir. Svo eru stór grundvallarmál á borð við spurninguna um hvort dómarar eigi að fá heimild til að dæma sameiginlega forsjá, hvort barn eigi að geta haft tvö lögheimili, viðbrögð við umgengistálmunum, mögulega viðbrögð við vanrækslu á umgengisskyldu, kostnaðarskipting, réttindi stjúpforeldra – og hvað með þátt afa og ömmu sem í íslensku samfélagi taka ríkan þátt í uppeldi barna, og svo aðgangur að upplýsingum um barn sitt, fræðsluskyldu og margt fleira.

 

 

Eins og gefur að skilja þá snýst jafnréttisbaráttan oftast um jafnrétti kynjanna enda fjölmörgu ólokið áður en slíku jafnræði er til að dreifa.

 

 

En það má velta því fyrir sér hvort aukið jafnræði í barna- og sifjamálum gæti ekki leitt til aukins jafnræðis á milli kynjanna. Hvort aukinn þátttaka feðra í umgengi og uppeldi barna sinna leiðir ekki til aukinnar réttinda og jafnvel frelsis fyrir konur. Aukið jafnrétti eins hóps þarf ekki að gerast á kostnað einhvers annars.

 

 

Það eru allir sammála að uppeldi á að vera á herðum beggja foreldra og því er það ekki sanngjarnt út frá sjónarhóli, t.d. móður, að þurfa bera meginþungann af því.

 

 

Forsjármál lúta ekki aðeins að auknum réttindum þess foreldris sem telur sig fara halloka, þau snúast þá að sama skapi að aukinni ábyrgð.

 

 

Hér geta hagsmunir beggja kynja farið saman, feðra sem vilja auknar samvistir við sín eigin börn og síðan mæðra sem vilja frekari þátttöku og ábyrgð feðra á uppeldinu. Jafnari foreldraábyrgð kynjanna gæti aukið jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Og í ofanlag er það barninu fyrir bestu að hafa sem mest samskipti við báða foreldra sína að því gefnu að allt sé í lagi við þær aðstæður og framkomu sem foreldrið býður barninu upp á.

 

 

Í þessu sambandi ber okkur að forðast fordóma og sleggjudóma t.d. gagnvart þeim mæðrum sem hafa ekki sama lögheimili og sitt eigið barn eða hafa minni umgengni við það en faðirinn. Í þessari umræðu er því mjög auðvelt að falla í ýmsa pytti og þurfa allir að horfast í augu við sína eigin fordóma í þessum efnum.

 

 

Ég segi því hiklaust já við þeirri spurningu að forsjármál eru jafnréttismál. En í jafnréttisumræðunni viðurkenni ég fúslega jafnrétti barna í samfélaginu, réttur þeirra til fjölskyldu, heimilis og virðingar í samfélaginu ætti að vera ofar á forgangslista íslensks samfélags – og þar finnst mér t.d. að uppeldis, skólastofnanir og þær stofnanir sem beinlínis verja hag barna, svo sem barnaverndarnefndir, ættu að njóta stuðnings okkar allra í störfum þeirra.

 

 

Við öll eigum ekki bara að vera baráttufólk fyrir auknu jafnarétti heldur einnig baráttufólk fyrir útvíkkun þeirrar baráttu því verkefnin eru næg.

 

 

Takk fyrir.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0