Því miður eru feður sviptir börnum sínum með ýmsu móti og af margvíslegum ástæðum. Feður eru að sjálfsögðu misjafnir eins og mæður. En í forsjármálum er langalgengast að mæðrum sé fengin forsjáin. Frá því að sameiginleg forsjá var leidd í lög hér á landi árið 1992 hefur henni vaxið mjög ásmegin og er nú svo komið að í helmingi skilnaða er valin sameiginleg forsjá, en í hinum helmingnum fær móðir forsjána. Aðeins í 3% skilnaða fær faðirinn forsjána. Hins vegar bregður svo við að eftir skilnað eða sambúðarslit foreldranna hafa yfir 90% barna lögheimili hjá móður!

Því miður heyrum við í félaginu allt of oft sögur frá félagsmönnum og öðrum um að mæður setji feðrum alls konar skilyrði fyrir umgengni við börnin sín. Hér á ég ekki við skilyrði eins og að klæða þau á vissan hátt, að láta þau ekki borða mikið nammi eða eitthvað svoleiðis. Heldur að ef þeir biðjist ekki afsökunar á að hafa farið frá móðurinni, ef þeir borga ekki nýjar mublur fyrir þær, ef þeir borga ekki tvöfalt meðlag, ef þeir kaupa ekki nýtt sjónvarp, kaupa ekki ný föt á barnið, borga ekki leikskólann að fullu ÞÁ FÁ ÞEIR EKKI AÐ SJÁ BÖRNIN SÍN. Jafnvel svo árum skiptir.

Það er auðvitað útilokað fyrir félagsskap eins og Félag ábayrgra feðra að fullyrða um ástæður þessa hjá hverjum og einum. En það læðist vitanlega að manni sá grunur í mörgum þessara tilvika að mæður svipti feður umgengni við börnin sín einungis af hefndarástæðum.

Þessi föðursvipting er sett fram sem ofbeldi gagnvart föðurnum en er fyrst og fremst andlegt ofbeldi gagnvart barninu. Hvað á barn að hugsa sem fær ekki að hitta föður sinn af því hann vill ekki borga nýtt sjónvarp? Af því hann vill ekki kaupa föt á það? Getur slíkt barn talað fallega um pabba sinn hjá móðurinni? Getur það hugsað hlýlega til hans? Nei, barnið er ekki aðeins svipt umgengni við föður sinn heldur jákvæðri mynd af honum og þarmeð er sjálfsmynd þess bjöguð. Það fær jafnvel sektarkennd af öllu saman. Og gegn slíku vill Félag ábyrgra feðra vinna af öllum mætti. Ráðgjöf félagsins í síma 691-8644 er einn liður í slíkri andspyrnu. Vefur félagsins er annar liður.

Félagið hefur lagt til að löggjafinn reyni að koma í veg fyrir þessa föðursviptingu eins og hægt er. M.a. með því að festa í lög ákveðna lágmarksumgengni sem við lögðum til síðasta haust að yrði 118 dagar á ári. Það er nálægt þriðjungi ársins. Við teljum að löggjafinn geti með slíkri aðgerð lagt fram ákveðna stefnu sem allir yrðu með einhverju móti að miða við. Sumir hafa andmælt þessu m.a. með því að vísa í þá óábyrgu feður sem neita að umgangast börnin sín, eða jafnvel glæpamenn sem misnota börnin sín. Fyrir mér og Félagi ábyrgra feðra eru slíkt ekki rök fyrir því að hafa ekkert viðmið í lögum. Lög um viðskipti eru t.d. í mörgu tilliti afskaplega og jafnvel óþarflega nákvæm um ýmislegt þótt til séu svindlarar.

T.d. er ekki bannað að starfrækja olíufélög þótt þau virðist hafa stundað ólöglegt samráð heldur er einmitt sett löggjöf til að koma í veg fyrir samráðið. Lögin eru þannig auðvitað fyrst og fremst rammi, lögfesting ákveðinna gilda sem löggjafinn skikkar borgarana til að miða hegðun sína við. Ef lögfest yrði lágmarksumgengni myndi slíkt tryggja betur en nú er að börn fengju að umgangast báða foreldra sína. Því miður held ég að slík löggjöf kæmi aldrei í veg fyrir glæpi og afbrot, ekkert frekar en á sviði annarrar hegðunar mannfólksins þar sem lög hindra ekki glæpi, amk. ekki að verulegu marki. Hins vegar er ég sannfærður um að slík lögfesting yrði bæði til að draga úr föðursviptingunni og líka til að gera hina óábyrgu ábyrgari.

Garðar Baldvinsson