Nú þegar foreldrar hafa jafnan rétt til töku fæðingarorlofs er forvitnilegt að velta því fyrir sér hvort foreldrar eru til jafns að nýta sér rétt sinn. Til að lög um fæðingarorlof leiði til jafnréttis kynjanna verða báðir foreldrar að nýta sér þennan rétt til jafns.

Í grein í bandarísku tímariti, Time (útg. 10. maí 2004) er að finna umfjöllun um fæðingarorlof feðra í nokkrum Evrópulöndum. Þar kemur fram að í flestum löndum Evrópu virðast karlmenn ekki vera að nýta sér rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Í Danmörku, þar sem foreldrar hafa jafnan rétt til töku fæðingarorlofs í allt að 32 vikur fram til 9 ára aldurs barns, taka karlmenn einungis um 5% af því fæðingarorlofi sem foreldrar taka í landinu.

Í Svíþjóð, þar sem foreldrar geta skipt fæðingarorlofinu jafnt á milli sín, er þetta hlutfall karla um 17%. Í greininni er vitnað til rannsóknar sem gerð var í Þýskalandi árið 1999 þar sem kom fram að 20% feðra sögðust vilja taka fæðingarorlof, en opinberar tölur sýna hins vegar að einungis um 2% feðra eru að nýta sér rétt sinn. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að flestir feður vilja taka sér fæðingarorlof en þeir telja vinnuumhverfi sitt ekki leyfa slíkt. Þeir telja samkeppni á vinnumarkaði vera einfaldlega of mikla til að geta farið í fæðingarorlof.

Það eru því í flestum tilvikum mæður sem taka fæðingarorlof. Samkvæmt könnunum eru konur í flestum tilvikum ánægðar með það tækifæri að fá að vera heima með börnum sínum en þær hafa þó engu að síður áhyggjur af starfsframa sínum að loknu fæðingarorlofi. Þær telja jafnframt að hlutastarf myndi reynast þeim fjölskylduvænna fyrirkomulag en full vinna, en hafa þó efasemdir um það hvort hlutavinna sé heppileg fyrir starfsframa þeirra.

Út frá jafnréttissjónarmiðum er ekki heppilegt að konur séu einar um að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs og einnig getur slíkt talist óheppilegt fyrir samfélagið í heild því ef skoðaður eru fjöldi íslenskra karla og kvenna er stunduðu nám á sérskóla- og háskólastigi árin 1990–2002 eru konur mun fleiri í slíku námi en karlar.

Þar sem konur eru nýta sér betur rétt sinn til töku fæðingarorlofs en karlar má kannski segja að samfélagið hafi ekki fylgt lagasetningu eftir um jafnan rétt kynjanna til töku fæðingarorlofs. Til að svo verði þarf að koma til viðhorfsbreyting bæði karla og kvenna, þar sem konur verða að vera tilbúnar til að láta körlunum eftir að sinna barnauppeldi meðan þær eru útivinnandi og karlar verða að sama skapi vera tilbúnir til að taka á sig ábyrgð á uppeldi barna til jafns á við konur. Síðan þarf vinnustaðurinn að hvetja báða foreldra til að nýta sér til fulls rétt sinn til fæðingarorlofs.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0