Vinkona mín vorkennir mér fyrir að eiga ekki mína eigin fjölskyldu. Samt á ég tvö börn og bý með manni sem á þrjú. Svo er ég í sambandi við uppkomna dóttur fyrrverandi eiginmanns míns. Stjúptengsl af þessu tagi eru orðin svo algeng að það er spurning hvort hugtakið kjarnafjölskylda, eins og það er venjulega skilgreint, eigi lengur við. Alltént er vorkunn óþörf.

Ósýnilegar í hagtölum

Bandarískar rannsóknir sýna að 70 til 75% þeirra sem skilja ganga aftur í hjónaband. Um 60% þeirra eiga börn úr fyrri sambúð.

Hér á landi eru meðlagsgreiðendur um 12 þúsund sem greiða með 15 til 16 þúsund börnum. Þá eru ótaldir þeir sem fá barnalífeyri, en hann er m.a. greiddur með börnum sem misst hafa annað eða báða foreldra sína. Auk þess eru þúsundir einstaklinga yfir 18 ára aldri í stjúptengslum. Þessar upplýsingar ættu að gefa nokkra vísbendingu um fjölda stjúpfjölskyldna hér á landi.

Stjúpfjölskyldan, þar sem annað eða bæði í sambúðinni eiga barn eða börn úr fyrri samböndum, er orðið mjög algengt fjölskylduform á Vesturlöndum. Málefnum stjúpfjölskyldunnar hefur þó hvergi verið veitt fullnægjandi athygli, t.d. er engar upplýsingar að fá um stjúpfjölskyldur í hagtölum Hagstofu Íslands.

Skikkuð og svipt

Tómlæti, þekkingarskortur og óraunhæfar væntingar standa stjúpfjölskyldum fyrir þrifum. Þær eru nánast ósýnilegar í lagasetningu, samfélagslegum aðbúnaði og umfjöllun, nema í sambandi við dóma um misnotkun og ofbeldi.

Stutt er við önnur fjölskylduform og þeim sýndur jákvæður skilningur, s.s. með foreldrafræðslunni og fæðingarorlofi og hugsanlega öðrum fjárhagslegum stuðningi fyrir þá sem ættleiða börn, sem er auðvitað af hinu góða. En réttindi stjúpforeldra eru á hinn bóginn afar takmörkuð. Þeir eru t.a.m. skikkaðir til að veita stjúpbörnum sínum forsjá, en sviptir þeirri forsjá við skilnað án þess að hafa nokkuð um það að segja. Forsjársvipting er trúlega ekki algengari meðal annarra hópa en stjúpforeldra.

Þekkingarskorturinn um stjúpfjölskylduna leiðir til þess að reynt er að líkja eftir fjölskyldum þar sem öll börn eru sameiginleg. En leikreglurnar eru aðrar, vítin til að varast ekki öll hin sömu. Í forrannsókn minni að MSW-verkefni í fjölskyldumeðferð við HÍ kom fram að stjúpforeldrar kalla eftir fordómalausri umræðu, fræðslu og viðurkenningu.

Elska skaltu tengdó eins og mömmu þína

Of algengt er að stjúpforeldrar krefjist skilyrðislausrar ástar og hlýðni stjúpbarna sinna þegar í stað. Svo og að gerð sé krafa um að stjúpforeldrar elski stjúpbörnin sín, jafnvel áður en tóm hefur gefist til að skapa tengsl. Þetta er líkast því að krefjast þess af manninum sínum að hann elski tengdamóðurina jafnheitt og móður sína frá fyrstu kynnum!

Óraunhæfar kröfur af þessum toga geta orðið uppspretta ýmissa vandamál – og ekki síður ef samskipti við fyrrverandi maka valda ágreiningi og togstreitu.

Alvöru fjölskyldur

Engar fjölskyldur eru lausar við vandamál. Hins vegar geta allar fjölskyldugerðir lifað heilbrigðu og innihaldsríku lífi sé tekið mið af réttum forsendum og byggt á styrkleikum og þeir efldir. Í ljósi þess er mikilvægt að viðurkenna stjúpfjölskylduna sem alvöru fjölskyldu en ekki plat – og ekki fara fram á að hún sé nákvæm eftirlíking hinnar hefðbundnu kjarnafjölskyldu.

Skorti viðurkenninguna og sé sjálfsmynd stjúpfjölskyldunnar neikvæð er hætta á því að hún leiti sér ekki aðstoðar eða ræði sín mál af ótta við að vera stimpluð “annars flokks” og misheppnuð. Þá getur vandinn undið upp á sig uns fjölskyldan sér ekki aðra leið úr honum en að leysa sjálfa sig upp.

Fjórar af tíu halda velli

Skilnaður í stjúpfjölskyldum er algengari en í fyrsta hjónabandi. Um 60% endurgiftra skilja innan sex ára samkvæmt bandarískum rannsóknum.

Ætla má að mörg hundruð íslenskra barna upplifi oftar en einu sinni á ævi sinni upplausn fjölskyldunnar.

Bein fræðsla, stuðningur og ekki síst viðurkenning á stjúpfjölskyldunni má telja mikilvægt forvarnarstarf, enda til þess fallið að auka velferð þeirra sem henni tengjast, ekki síst barnanna.

Mikilvægt er að stjúpfjölskyldan sé viðurkennd og henni gert hærra undir höfði í opinberri umræðu og samfélagslegum aðbúnaði.

Víkja þarf fordómum og óraunhæfum væntingum til hliðar, því að stjúpfjölskyldunni verður ekki vikið til hliðar. Í samfélagi þar sem a.m.k. á sjötta hundruð pör skilja árlega er hún föst í sessi.

Góðu fréttirnar fram að þessu eru þær að 40% stjúpfjölskyldna halda velli. Það er því fjarri öllum sanni að þær séu dæmdar til að mistakast.

Fréttablað 21. maí 2004

Höfundur: Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0