“SÁ MÁLSMEÐFERÐARTÍMI sem þarna kom fram er of langur, á það ber að fallast,” segir Rúnar Guðjónsson, sýslumaður í Reykjavík, þegar leitað var viðbragða hans við gagnrýninni á langa málsmeðferð í umgengnismálum sem fram kemur í kanditatsritgerð Helga Áss Grétarssonar í lögfræði. Þar kom fram að á árunum 2002-2003 tók það að meðaltali níu mánuði hjá sýslumanni að úrskurða í umgengnismálum.

Aðspurður segir Rúnar ástæður þess að mál taka of langan tíma hjá sýslumanni geta verið margvíslegar. “Við meðferð umgengnismáls þarf að hafa í heiðri málsmeðferðarreglur, s.s. andmælareglur og rannsóknarreglu. Það að þær málsmeðferðarreglur eru virtar til hins ýtrasta, getur komið niður á málshraðanum,” segir Rúnar, en bendir þó á að að óbreyttum lögum sé hægt að endurskoða verkferla og verklag við vinnslu málanna. “Með það að markmiði að gera hana skilvirkari, en eðlilegur málshraði er mikilvægt atriði þegar lagt er mat á gæði málsmeðferðarinnar. Ég tel rétt að leggja áherslu á sáttastarf með foreldrum, þrátt fyrir að oft geti töluverður tími farið í það. Það var mikilvægt skref til úrbóta að setja í barnalögin úrræðið um sáttameðferð hjá sérfræðingi.

Áherslan á að ljúka máli með samkomulagi er í samræmi við það viðhorf að ábyrgðin á því að vel fari liggi hjá foreldrunum,” segir Rúnar og telur að unnt sé að gera breytingar á barnalögunum sem miði að skilvirkari og árangursríkari meðferð málanna.

“Það verður þó að horfast í augu við að í ákveðnum tilvikum eru mál það erfið að sáttameðferð, rannsókn og uppkvaðning úrskurðar tekur að samanlögðu langan tíma sem erfitt er að stytta svo nokkru nemi,” segir Rúnar og tekur fram að full ástæða sé að taka til athugunar þær tillögur til úrbóta sem fram koma í ritgerð Helga Áss. Segist hann í því sambandi vera sammála athugasemd Helga Áss um að kærufrestur sé of langur. “Ég tel að foreldri ætti ekki að þurfa tvo mánuði til að gera upp við sig hvort úrskurði sé unað.”

Meðal þess sem Helgi Áss leggur til í ritgerð sinni sem leið til úrbóta væri að sýslumaður fái almenna lagaheimild til að kveða á um umgengnisrétt til bráðabirgða, sem ekki væri kæranlegur til dómsmálaráðuneytisins.

Umsögn barnaverndar-nefndar tekur of langan tíma

Aðspurður segir sýslumaður þennan möguleika vel geta nýst til að koma af stað umgengni þegar inn koma mál þar sem engin umgengni er og ekki tekst að koma henni af stað í gegnum sáttameðferð. “En eftir sem áður yrði að leggja áherslu á sáttameðferð við upphaf máls. Full ástæða til að skoða þessa leið, en þarna þyrfti að breyta lögunum.”

Helgi Áss leggur í ritgerð sinni mikla áherslu á mikilvægi þess að umgengnismál fari ekki út úr starfsstöð sýslumanns. Hann vill að hætt verði að senda mál til barnaverndarnefndar og í staðinn verði ráðnir sálfræðingar og félagsráðgjafar til sýslumannsembættisins sem álitsgjafar. Þegar þetta er borið undir sýslumann segir hann ljóst að það úrræði til rannsóknar máls að leita umsagnar barnaverndarnefndar hafi tekið of langan tíma. “Mikilvægt er að umsagnaraðili, hvort sem það er barnaverndarnefnd eða fagaðili sem sýslumaður hefur ráðið í þjónustu sína, skili umsögn sinni svo fljótt sem auðið er.” Spurður um tillögu Helga Áss að aukinni samvinnu fagstétta segir Rúnar það án efa árangursríka leið til umbóta í meðferð umgengnismála. “Sýslumenn þyrftu að fá aukið fjármagn í málaflokkinn til að geta keypt þjónustu, eða ráðið til sín sálfræðinga og félagsráðgjafa eða aðra fagmenn.”

“Hraði má ekki vera á kostnað vandaðrar málsmeðferðar”

“ÉG ER sammála Helga Áss um að þessi tími sé of langur,” segir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, þegar gagnrýni Helga Áss Grétarssonar, á langan málsmeðferðartíma ráðuneytisins í umgengnismálum, er borin undir hann. Aðspurður um skýringar á löngum málsmeðferðartíma vísar Björn til kandídatsritgerðar Helga Áss í lögfræði sem til umfjöllunar var í Morgunblaðinu í gær. “Skipulagt átak hefur verið gert innan ráðuneytisins undanfarin misseri til að stytta hann og hefur það tekist. Hraði má hins vegar ekki verða til þess að draga úr vandaðri málsmeðferð, embættismenn stjórna ekki einir hraðanum vegna þess að aðilar máls fá tíma til að segja álit sitt og hafa uppi andmæli,” segir Björn og tekur undir það að ein leið til að stytta tímann væri að stytta fresti fyrir aðila máls. “En innan ráðuneytisins hníga hugmyndir um breytingar ekki í þá átt,” bætir Björn við.

Í ritgerð sinni gagnrýnir Helgi Áss að farið sé með umgengnismál eins og önnur stjórnsýslumál. Þegar þetta er borið undir Björn og hann inntur eftir því hvort hann muni beita sér fyrir breytingum þar á bendir Björn á að hann hafi efnt til fundar í ráðuneytinu með Helga Áss og þeim embættismönnum, sem helst koma að þessum málaflokki þar sem ræddar voru hugmyndir Helga Áss um breytingar. “Ég hef ekki tekið afstöðu til þeirra allra en tel til dæmis koma til álita að breyta lögum á þann veg, að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki heimild sýslumanns til að þrýsta á framkvæmd úrskurðar um umgengni með dagsektum.”

Eitt af því sem Helgi Áss leggur til í ritgerð sinni er að úrskurðir ráðuneytisins í umgengnismálum verði birtir opinberlega þar sem það sé, að hans mati, áhrifaríkasta leiðin til að auka þekkingu og skilning fagaðila á eðli þessa málaflokks. Aðspurður segir Björn það vera til skoðunar hjá ráðuneytinu hvort ekki sé hægt að birta úrskurði ráðuneytisins með sama hætti og Hæstiréttur birtir dóma sína í forsjármál á Netinu, en þar er hafður sá háttur á að hylja nöfn aðila. “En þó held ég að miðlun upplýsinga á annan hátt en með því að birta einstaka úrskurði gæti ekki síður verið áhrifarík. Útgáfa á leiðbeiningum í hvaða formi sem er mun skila árangri á þessu sviði eins og öðrum.”

Í ritgerð sinni segir Helgi Áss að draga megi verulega í efa að íslensk stjórnvöld hafi virt mannréttindi umgengnisforeldra. Þegar þetta er borið undir Björn segist hann þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld virði mannréttindi á þessu sviði eins og öðrum.

Eftir Silju Björk Huldudóttur
mbl.is 01.10.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0