UMBOÐSMAÐUR Alþingis telur að ekki hafi verið farið að lögum þegar kærunefnd barnaverndarmála staðfesti úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur um aukna umgengni barns hjá fósturforeldrum við kynforeldra sína.
Í gildi var fóstursamningur þar sem fósturforeldrum var falið fóstur barnsins til sjálfræðisaldurs og skyldu þau jafnframt fara með forsjá þess. Umboðsmaður benti á að úrskurður barnaverndarnefndar um umgengni barns í fóstri við kynforeldra sína varðaði fyrst og fremst hagsmuni þess barns sem í hlut ætti enda væru það þeir hagsmunir sem skyldu ráða mestu um niðurstöðu máls. Þá varðaði slíkur úrskurður mikilvæga hagsmuni kynforeldranna af því að fá notið þess réttar sem þeim væri tryggður. Taldi umboðsmaður að þrátt fyrir þetta yrði ekki fram hjá því litið að fósturforeldrar sem færu með forsjá viðkomandi barns kynnu að hafa slíka hagsmuni af úrlausn máls að óhjákvæmilegt væri að játa þeim aðild að því.

Í máli fósturforeldranna væri jafnframt til þess að líta að í úrskurði barnaverndarnefndar fælist jafnframt að umgengnin skyldi fara fram á fósturheimilinu og að fósturforeldrunum viðstöddum. Var það niðurstaða umboðsmanns að fósturforeldrarnir hefðu átt svo einstakra og verulegra hagsmuna að gæta í málinu að rétt hefði verið að játa þeim aðild að því.

Barnaverndarnefnd hefur ákveðið að taka ákvörðun sína um umgengni barnsins við kynforeldra sína til endurskoðunar og taldi því umboðsmaður ekki tilefni til að beina sérstökum tilmælum til kærunefndar um að taka málið til endurskoðunar. Hins vegar voru það tilmæli hans til kærunefndar sem og Barnaverndarstofu að framvegis yrði tekið mið af sjónarmiðum umboðsmanns.

Aðkomuréttur fósturforeldra takmarkaður
UMBOÐSMAÐUR Alþingis segist í áliti sínu hafa ákveðið að vekja athygli félagsmálaráðherra á þeirri afstöðu sinni að orðalag ákvæðis reglugerðar um fóstur frá árinu 2004 kynni að leiða til of mikillar takmörkunar á aðkomurétti fósturforeldra að málum sem lýkur með úrskurði um umgengni. Þar segir að barnaverndarnefnd beri að kanna viðhorf fósturforeldra áður en gengið er frá samningi “eða kveðinn upp úrskurður” um umgengni við kynforeldra. Þegar litið sé til túlkunar barnaverndaryfirvalda á barnaverndarlögum, að mati umboðsmanns, telur hann að orðalag reglugerðarákvæðisins kunni í framkvæmd að fela í sér of mikla takmörkun á aðkomurétti fósturforeldra að málum sem lýkur með úrskurði um umgengni.
Beinir hann þeim tilmælum til félagsmálaráðuneytis að ákvæðið verði tekið til endurskoðunar.

www.mbl.is Laugardaginn 22. apríl, 2006 – Innlendar fréttir

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0