Í samskiptum kynjanna og ekki síst foreldra eftir skilnað birtist skringileg mynd af þeirri breytingu sem orðin er á hlutverkaskiptingu kynjanna en þessi breyting felst ekki síst í þeirri staðreynd að konur vinna utan heimilis og karlar taka þátt í rekstri og starfsemi heimilisins. Karlar og konur taka þessa dagana þátt í því sem áður fyrr var helgað hinu kyninu.
 
Í þessu felst sú meginbreyting sem orðið hefur á samfélagsháttum okkar Vesturlandabúa síðustu þrjá áratugina eða svo. Þessi breyting er ekki síst árangur jafnréttisbaráttu kvenna og kannski eru karlar jafn ánægðir með þennan árangur og konurnar. Eftir skilnað virðast konur hins vegar kasta þessum árangri fyrir róða: Eftir skilnað líta konur gjarnan á svið barnanna, uppeldisins og jafnvel heimilisins í sjálfu sér sem svið konunnar. Að sama skapi kemur þá fram sú hugsun að karlinn sé óþarfur, bæði í lífi konunnar og ekki síður óþarfur í lífi barnsins.

Eftir skilnað virðist taka við hugmyndaheimur sem tilheyrir þeim tíma þegar konur sinntu heimili og börnum en karlar fóru út að skaffa. Hluti þessa hugmyndaheims er að konan sitji uppi með börnin, karlinn sé frír og frjáls þegar að skilnaði kemur. Í þessum hugmyndaheimi er móðirin ungamamman sem verndar börnin og karlinn á endalausu lóðaríi. Í þessum aldagamla heimi eru konur þrælar karla og múlbundnar við börnin. Og það þarf að koma þeim til verndar, kerfið þarf að passa að þeim vegni vel, að þær fái stuðning til að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Kerfið á Íslandi hefur í þeim sporum gjörsamlega sniðgengið árangur kvennabaráttu síðustu áratuga. Að mati Félags ábyrgra feðra þarf samfélagið að skoða einmitt þetta atriði og breyta viðhorfum sínum um stöðu kynjanna þegar til skilnaðar kemur. Karlar sjá um börnin, karlar sinna heimilishaldinu, karlar annast umönnun fjölskyldunnar. Ekki síður en konur.

Þessi hugmyndaheimur sem kvennabaráttan hefur stutt okkur í að skapa gerir það að verkum að eftir skilnað eða sambúðarslit er hugmyndin um eina fyrirvinnu, eitt lífsakkeri, eitt heimili sem festu og reglu, út í hött og tilheyrir þessum gamla tíma sem er liðinn og kemur vonandi aldrei aftur. Þess vegna er það beinlínis rangt sem íslensk lög gera að megingildi í forsjármálum: að eins-foreldris-forsjá sé barninu fyrir bestu. Það á ekki við nema í þeim fáu tilvikum að annað foreldrið sé beinlínis óhæft vegna sjúkdóms, ofbeldis eða annars ámóta.

Eftir skilnað er barninu fyrir bestu að hafa sem best og nánast samband við þá sem standa því næst: foreldra þess. Þar sem slíkt samband getur ekki orðið innan veggja eins heimilis er barninu fyrir bestu að alast upp til jafns á heimilum beggja foreldra sinna. Þótt sameiginleg forsjá þurfi ekki að þýða að samvera barnanna við foreldrana sé jöfn er ljóst af rannsóknum t.d. í Bandaríkjunum og Ástralíu að tíðari samvistir við föðurinn en aðra hverja helgi eins og algengast er hér á landi auðvelda barninu mjög að aðlagast nýjum aðstæðum og ekki síður við að byggja upp heilsteypta og heilbrigða sjálfsmynd. Einnig má benda á að samkvæmt sömu rannsóknum eru drengir sem alast upp hjá fráskildum feðrum sínum í betri tengslum við umhverfi sitt, hvort heldur er átt við fjölskyldu, skóla eða samfélag.

Það er barninu mikið áfall að vera alltaf hjá öðru foreldrinu og hitta hitt foreldrið aðeins aðra hverja helgi – við annarlegar aðstæður oft á tíðum en aldrei í hversdagslegu umhverfi. Eins-foreldris-forsjá magnar áfallið af skilnaðinum og vinnur beinlínis gegn hagsmunum barnanna. Barnið elskar tvær manneskjur umfram allt annað fólk, þ.e. pabba og mömmu. Þessar tvær manneskjur skipta barnið langmestu máli, ekki aðeins á meðan það er barn heldur ekki síður alla ævi. Um þetta er hver manneskja besta vitnið. Ef hallar á samskipti barnsins við þessar tvær manneskjur þá bjagast sjálfsmynd þess að sama skapi.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0