Fyrstu niðurstöður íslensku könnunarinnar voru kynntar í gær en tölur utan úr heimi verða ekki birtar fyrr en á næsta ári.
Einelti virðist vera algengara á meðal yngri krakkanna en um 26% í 6. bekk sögðust hafa verið lögð í einelti á undanförnum mánuðum. Það fer svo minnkandi í 8. bekk þar sem um 18% nemenda höfðu verið lögð í einelti og er svo minnst í 10. bekk þar sem um 13% nemenda svöruðu því til að þau hefðu verið lögð í einelti á undanförnum mánuðum.
Hátt hlutfall reykinga
Alls segjast 32% barna af afrískum, asískum eða suður-amerískum uppruna hafa orðið fyrir einelti í vetur, og 27% krakka af austur-evrópskum uppruna en 10% krakka af vestrænum uppruna; það teljast börn frá Vestur-Evrópu, Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Rétt er að geta þess að börn af erlendum uppruna eru talin þau sem eiga að minnsta kosti annað foreldrið erlent.
Samkvæmt könnuninni reykja 38% unglinga í 10. bekk sem eru af afrískum, asískum eða suður-amerískum uppruna, 33% sem eru af austur-evrópskum uppruna og 20% af vestrænum uppruna en 10% íslenskra barna.
Þá vekur athygli að meira en helmingur stúlkna í 10. bekk, alls 57% þeirra, telur sig þurfa að léttast, en þær tölur stangast verulega á við tölur frá heilsugæslunni um heilsufarsupplýsingar. Rannsakendum finnst það líka sláandi að 40% nemenda í 6. bekk skuli vera ósátt við eigin þyngd, en rúmlega 30% beggja kynja telja sig þurfa að þyngjast og tæplega 10% beggja kynja telja sig þurfa að þyngjast.
Samhliða versnandi mataræði minnkar hreyfing nemenda í grunnskóla eftir því sem þeir eldast. Um 22% stelpna í 6. bekk hreyfa sig daglega utan skólatíma svo þær svitni eða mæðist en aðeins ein af hverjum tíu í 10. bekk. Samsvarandi hlutfall stráka er um það bil 30% í 6. bekk og 19% í 10. bekk.
Fjóra tíma á dag við skjá
Mikill meirihluti íslenskra barna og unglinga segir sér líða vel eða frekar vel í skóla. Munur er marktækur í 6. bekk – 74% stráka og 81% stelpna – en tölurnar eru sambærilegar þegar komið er í 10. bekk.
Spurt var hversu mörgum tímum á dag viðkomandi eyddi fyrir framan sjónvarp eða tölvu, annað hvort í tölvuleikjum, til að vafra á netinu, senda tölvupóst, á spjallrásum eða til að sinna heimanámi. Alls 16% stráka segjast horfa á sjónvarp í 4 klukkustundir eða meira á dag en 11% stúlkna. Jafn stórt hlutfall stráka spilar tölvuleiki í 4 klukkustundir á dag eða meira en 16%.
Áberandi kynjaskipting er í þessari spurningu en einungis um 2% stúlkna spila tölvuleiki í meira en 4 klukkustundir á dag. Um 15% stráka nota tölvuna til annars í meira en 4 klukkustundir og um 11% stúlkna.
Samanlagt verja 58% stráka og 43% stelpna 4 tímum eða meira á dag fyrir framan sjónvarps- og tölvuskjá.
mbl.is Miðvikudaginn 26. apríl, 2006 – Innlendar fréttir
Eftir Skapta Hallgrímsson skapti@mbl.is
Sjá nánar: http://www.lydheilsustod.is/media/lydheilsa//kynningin_kea.pdf
Leave A Comment
You must be logged in to post a comment.