Stefán Guðmundsson svarar grein umboðsmanns barna: “Embætti umboðsmanns barna er gagnslaust ef það telur ekki þörf á því að taka ærlega til höndum í þessum málaflokki…”

 

MÁNUDAGINN 28. nóv. sl. svarar umboðsmaður barna grein undirritaðs frá því í vikunni áður. Ákveðins misskilnings virðist gæta hjá umboðsmanni barna og tekst honum að skauta fimlega frá þeim meginatriðum sem um ræðir þ.e. að umboðsmanni beri að vinna að því; að bæta hag barna og unglinga og gæta þess að tekið sé tillit til réttinda barna, þarfa og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins.
Umboðsmaður telur undirritaðan sleppa því að minnast á 3. mgr. 4.gr. laganna þar sem skýrt sé tekið fram að umboðsmaður barna taki ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga. Undirritaður skilur ekki þá athugasemd umboðsmanns, enda á hún hvergi heima í málinu.

Þessu til áréttingar skal það tekið fram; að Félag ábyrgra feðra telur ekki að umboðsmaður eigi að beita sér í einstökum málum og hefur aldrei talið. Það er hinsvegar orðin áleitin spurning um hvenær einstök mál eru orðin að slíkum fjölda einstakra mála að heildarmyndin krefst þess að umboðsmaður barna bretti upp ermar; sá er boðskapur undirritaðs og félagsins.

Embætti umboðsmanns barna er gagnslaust ef það telur ekki þörf á því að taka ærlega til höndum í þessum málaflokki samkv. þeim starfsskyldum sem gilda um embættið og eru raktar í lögum.

Umboðsmaður víkur í svari sínu að fundi sem forsvarsmenn félagsins sóttu síðasta vetur til embættisins. Staðreyndin um þann fund er sú að tveir af þremur forsvarsmönnum gengu á dyr, þegar þeim ofbauð viðhorf umboðsmanns til þeirra tillagna sem þeir kynntu umboðsmanni um áherslur í réttindum barna til beggja foreldra sinna eftir skilnað. Þess ber að geta að sömu tillögur urðu svo að meginmáli þeirra tillagna sem fram komu í lokaskýrslu Forsjárnefndar; skipuð af dómsmálaráðherra.

Allt marklaust tal umboðsmanns í umræddri grein sinni um dylgjur undirritaðs í sinn garð og þref í fjölmiðlum, eru dæmigerð varnar- og rökþrotaviðbrögð og ber að skoða sem slík.

Undirritaður lætur umboðsmann njóta hins fullkomna vafa og leggur þá til að hún svari eftirfarandi spurningum; stutt og hnitmiðað, svo engum dyljist. Eftirfarandi spurningar byggjast á því normi að báðir foreldrar hafi búið saman og alið upp börnin saman og séu jafnhæfir til foreldrahlutverksins eftir skilnað og aðstæður beggja viðunandi fyrir börnin. En sá er raunveruleikinn í langflestum skilnuðum á Íslandi.

1. Er umboðsmaður þeirrar skoðunar að það séu viðurkenndir og óumdeildir hagsmunir hvers barns að alast upp í faðmi beggja foreldra, sem jafnast; fyrir og eftir skilnað?

2. Telur umboðsmaður að það sé eðlilegt að börn séu svipt forsjá annars foreldris við skilnað og yfirleitt svipt forsjá feðra sinna – fyrir tilstuðlan kerfisins; missi umönnun feðra sinna og njóti samvista við þá 4-6 daga í mánuði eins og venja er?

3. Telur umboðsmaður barna að börn eigi tvö heimili (að lögheimili undanskildu) eftir skilnað, annað hjá móður og hitt hjá föður – eða telur umboðsmaður að börn eigi eitt heimili hjá móður og skuli koma í heimsókn til föður?

4. Telur umboðsmaður það eðlilega “verklagsreglu” hjá yfirvöldum og sérfræðingum að börn dvelji aldrei á aðfangadegi jóla hjá föður/forsjárlausu foreldri og stórfjölskyldu eins og nýlegir dómar og úrskurðir kveða á um?

5. Telur umboðsmaður það þjóna hagsmunum barna að það foreldri sem hefur ekki forsjá þeirra; fái ekki skriflegar upplýsingar um barn sitt frá opinberum stofnunum svo sem skólum, heilsugæslum o.s.frv.?

6. Telur umboðsmaður barna að börn eigi um hvað sárast að binda, þegar foreldrar slíta samvistum og þurfi á þeim tímapunkti hvað mest á báðum foreldrum sínum að halda og sem jafnast?

7. Telur umboðsmaður það viðunandi fyrir hagsmuni barna að umgengnistálmanir fái að viðgangast, vikum, mánuðum, og árum saman án haldbærra ástæðna – viðunandi að engin úrræði skuli vera til hjá yfirvöldum í verki, undir slíkum kringumstæðum og hvaða hugmyndir hefur umboðsmaður til að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi gegn börnum?

8. Er umboðsmaður sammála þeirri grundvallarskoðun Félags ábyrgra feðra og Forsjárnefndar, að það sé brýnt að koma á lögum um sameiginlega forsjá og lögum um sem jafnasta umönnun foreldra við börn sín?

9. Í ljósi umrædds málþings sem haldið var síðastliðið vor til kynningar á skýrslu forsjárnefndar; þar kom m.a. fram að dómarar væru settir í afleita stöðu í forsjármálum af hálfu löggjafans. Þá stöðu að standa frammi fyrir tveimur jafnhæfum foreldrum og þurfa að varpa hlutkesti um hvoru þeirra yrði dæmd forsjá barna – vitandi vits að það væri börnum ekki fyrir bestu að annað foreldrið færi eingöngu með forsjá þeirra. Er umboðsmaður sammála þeirri skoðun dómara að lögum verði að breyta á þann veg að þeim verði heimilt að dæma foreldra í sameiginlega forsjá – sé það barni fyrir bestu?

Undirritaður skorar á umboðsmann barna að svara skýrt og vel. Börn, feður, mæður, ömmur, afar, frænkur og frændur þessarar þjóðar bíða spennt eftir viðhorfum þeirrar manneskju sem veitir forstöðu því embætti sem á að ganga fram fyrir skjöldu og beita sér fyrir því að hagsmunir og réttindi barna séu virt á öllum sviðum samfélagsins.

mbl.is Föstudaginn 9. desember, 2005 – Aðsent efni
Stefán Guiðmundsson er stjórnarmaður í Félagi ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0