Félag um foreldrajafnrétti fagnar því þegar Hæstiréttur Íslands úrskurðar að foreldramisrétti í lögum brjóti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála.

Dómur Hæstaréttar nr. 15/2017 sem kveðinn var upp 15. febrúar síðastliðinn sýnir fram á að forsjárlaus faðir hefur aðild að barnaverndarmáli þar sem barn hefur verið vistað utan heimilis.

Hugtakaskýring sbr. Handbók barnaverndar: forsjárlaust foreldri er foreldri sem er forsjárlaust á grundvelli barnalaga; forsjársvipt foreldri er foreldri sem hefur afsalað sér eða verið svipt forsjá á grundvelli barnaverndarlaga.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að takmörkun sú í 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að forsjárlaust foreldri geti ekki krafist endurskoðunar ráðstafana um vistun barns utan heimilis brjóti í bága við 1. mgr. 65. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, svo og réttar foreldris eftir barnalögum nr. 76/2003.

Það standist ekki að forsjársvipt foreldri geti endurtekið farið fram á endurskoðun ráðstöfunar en forsjárlaust foreldri geti það ekki.

Málinu var því vísað aftur til héraðsdóm til efnislegrar meðferðar. Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði áður vísað kröfum föður frá dómi á næstum orðréttum forsendum barnaverndar, að faðir hafði ekki gert grein fyrir því hvernig hagsmunum stúlkunnar væri best borgið með breytingum á högum hennar né hver forsjárhæfni hans væri. Þá hefði faðir ekki lögvarða hagsmuni af ógildingu ákvörðunar um fóstur barns.

Dómur Hæstaréttar Íslands gerir því þær kröfur á Alþingi Íslands að forsjárlausu foreldri verði heimilt rétt eins og forsjársviptu foreldri að fara fram á endurskoðun ráðstafana barns í fóstur skv. 2. mgr. 34. gr. Barnaverndarlaga.

Nú þegar forsjárlausir foreldrar eru komnir með rétt til þess að fara fram á endurskoðun ráðstafana barns í fóstur, þá má búast við því að málsmeðferð um ráðstöfun barns verði vandaðari. Það er nokkuð auðvelt að ganga framhjá rétti forsjárlauss foreldris þegar það foreldri hefur enga möguleika á því að leita réttar síns fyrir dómstólum. Í þessum sama dómi má vel greina að málsmeðferð hafi verið verulega ábótavant af hálfu barnaverndar.

Forsaga máls og barnaverndarvinnsla

Barnaverndarafskipti hófust vegna tilkynningar um aðbúnað barns á heimili þess og móður strax á fyrsta mánuði eftir fæðingu þess.  Áður en stúlkan náði tveggja mánaða aldri samþykkti móðir skriflega að barni yrði ráðstafað í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs. Viku síðar afsalaði móðir sér forsjá stúlkunnar til barnaverndar og óskaði eftir því að barnið yrði fóstrað hjá fósturforeldrum að hennar vali. Faðir stúlkunnar hafði áður staðfest að hann væri faðir stúlkunnar, mótmælt því að barnið færi í fóstur og lýst sig tilbúinn til þess að taka stúlkuna að sér. Hann fór ekki með forsjá stúlkunnar þar sem hann var hvorki í hjúskap né í skráðri sambúð með móður hennar. Faðerni var ekki ljóst við fæðingu barns, sem væntanlega byggir á því að foreldrar hafi ekki verið í föstu sambandi.

Vafasöm ákvörðun um ráðstöfun barns

Tveggja mánaða gömlu barninu var ráðstafað í bráðabirgða fóstur til fósturforeldra sem forsjársvipt móðir óskaði eftir, þrátt fyrir að forsjárlaus faðir hefði lýst sig andvígan því og lýst vilja sínum til þess að taka barnið að sér.

Í þessu samhengi er rétt að vísa í Handbók Barnaverndar sem gefin er út af Barnaverndarstofu. Samkvæmt skýringum í kafla 10.4.2 um samvinnu við forsjárlaust/forsjársvipt foreldri er faðir í þessu máli forsjárlaust foreldri en móðir forsjársvipt foreldri. Forsjársvipt foreldri hefur almennt engan rétt til íhlutunar um málefni barnsins. Það á ekki rétt á að fá aðgang að gögnum og ekki ber að leita eftir samvinnu við það um aðgerðir svo sem um val á fósturforeldrum eða öðrum vistunarstað. Barnavernd á því ekki að vista barn hjá fósturforeldrum að vali móður í þessu máli.

Barnavernd skal hins vegar kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til forsjárlauss foreldris skv. 67. gr. a. barnaverndarlaga.

Barnavernd virðist nokkuð augljóslega hafa horft fram hjá lögum og reglugerðum í viðleitni sinni við að þóknast móður barns. Gengið framhjá rétti barns og föður til þess að mæta vilja forsjársviptar móður.

Barnavernd virðist einnig líta afar frjálslega á skyldu barnaverndar til þess að kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til forsjárlauss föður. Barnavernd segir það byggja á frjálsu mati barnaverndar og það sé ekki hlutverk dómstóla að fjalla um slík mál. Virðast ekki átta sig á að dómstólar geta úrskurðað um hvort barnaverndarnefnd hafi byggt ákvörðun sína á lögmætum grunni.

Þá virðist barnavernd álíta að val forsjársviptar móður á fósturforeldrum hafi lagalegt gildi, þrátt fyrir að barnavernd eigi ekki að fara að slíkum óskum. Þannig segir í málflutningi barnaverndar að faðir hafi ekki krafist ógildingar yfirlýsingar móður um val á fósturforeldrum. Yfirlýsing móður aðeins gild að því leiti að hún afsalar sér forsjá barns.

Vangaveltur um fordóma eða blinda augað á föður

  • Barnið var í tvo mánuði hjá móður sem var ekki tilbúin til þess að vera foreldri!
  • Barnavernd inni í málinu meirihluta þess tíma.
  • Móðir þarf ekki að sýna fram á forsjárhæfi sitt áður en hún fór með barn heim af fæðingardeild.
  • Barnavernd gaf föður engan séns til þess að vera með barnið!
  • Barnavernd kvartar yfir því að faðir hafi ekki komið með gögn til að sýna fram á forsjárhæfi!
  • Á sama tíma heldur barnavernd því fram að hann hafi ekki aðild að málefnum barns, þannig að forsjárhæfi skipti í raun ekki máli.

 

Félag um foreldrajafnrétti skorar á löggjafann að það verði tryggt í barnaverndarlögum að barnavernd verði að láta reyna á vistun barns hjá því foreldri sem barn býr ekki hjá þegar vista þarf barn utan heimilis þess og að það verði óháð því hvort um forsjárforeldri sé að ræða eða forsjárlaust foreldri á grundvelli barnalaga.

Félag um foreldrajafnrétti skorar einnig á löggjafann að tryggt verði í barnalögum að foreldri hafi forsjá barns nema það augljóslega gangi gegn hagsmunum barns eða foreldri afsali sér forsjá þess.

-HH

Styðja málstaðinn

 

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0