Dómsmálaráðherra hefur nýverið skipað nefnd um endurskoðun barnalaga. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að nefndin eigi að “fara yfir reglur barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni”.
Sérstaklega er tekið fram að nefndin eigi að taka afstöðu til þess hvort dómarar megi dæma sameiginlega forsjá, en Ísland er trúlega eina ríkið í V-Evrópu þar sem slík heimild er ekki til staðar. Nýleg íslensk rannsókn sýnir að 73% þeirra foreldra sem skilið hafa síðustu 2 árin vilja dómaraheimild.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að nefndin skuli hafa hliðsjón af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og gefa vandlega gaum að reglum annarra norrænna ríkja um forsjá, búsetu og umgengni og þróun þeirra.
Í ljósi þess að það eru sjónarmið feðra sem hafa þrýst á endurskoðun laganna þá vekur sérstaka athygli að nefndin er einungis skipuð konum. Kvennréttindasamtök hafa almennt verið á móti breytingum sem styrkja réttarstöðu þess foreldris sem ekki fer með lögheimili barns, en það eru í yfir 90% tilvika karlmenn sem þannig háttar til um. Umræðan hefur því klárlega verið kynjuð og af mörgum verið talið eitt stærsta og augljósasta jafnréttismál samtímans og grundvöllur árangurs í öðrum jafnréttismálum. Að skipa “kvennanefnd” um málefni sem kalla mætti jafnréttismál karla er því afar sérstakt! Slíkt væri óhugsandi ef þessu væri öfugt farið !

 

Félag um foreldrajafnrétti fagnar því vissulega að Björn Bjarnason hafi ákveðið endurskoðun barnalaga. Félagið hefur komið því rækilega á framfæri að alger stöðnun hafi ríkt í málaflokknum samanborðið við önnur lönd.  Það geti ekki verið eðlilegt að íslenskir foreldrar og börn þeirra búi við aðra og lakari réttarstöðu eftir skilnað en það sem tíðkast í öðrum löndum.
Nauðsynlegt er að umgengnismál verði færð inn í almenna dómskerfið líkt og tíðkast erlendis. Dómarar fái svo heimildir til að dæma umgengni “allt að 7 daga af hverjum 14” en slík heimild er til staðar á öllum hinum Norðurlöndunum. Nefndin mun væntanlega einnig athuga hvort eðlilegt sé að einungis annað foreldrið beri allan kostnað við umgengni – en slíkt tíðkast almennt ekki á Norðurlöndum. Takmörkun á flutningi lögheimilis barns innanlands er tímabær ef umgengni við hitt foreldrið torveldast verulega. Nauðsynlegt er einnig að formfesta viku og viku fyrirkomulagið en 24% foreldra velja í dag það fyrirkomulag og þróunin mun hraðari í þá veruna en nokkurn óraði fyrir – enda besti kostur fyrir skilnaðarbörn samkvæmt nýrri viðamikilli íslenskri rannsókn. Fjölmörg önnur mál þarfnast býnnar endurskoðunar svo sem mun beittari og harðari úrræði við umgengnistálmunum.
Foreldrajafnrétti vonast til þess að Alþingi muni fljótlega fá ýtarlega skýrslu frá nefnd félagsmálaráðherra undir stjórn Ágústs Ólafs og í beinu framhaldi muni koma frumvarp frá Dómsmálaráðherra sem færir málaflokkinn til nútíðar. Þessi mál geta ekki beðið lengur, enda ljóst að hagsmunir þúsunda barna eru í húfi.
Félagið hefur fulla trú á því að mikill þingmeirihluti sé til staðar fyrir lífsnauðsynlegum breytingum á löngu úreltu lagaumhverfi um málefni sem snertir tæplega þriðjung allra barna á Íslandi.
F.h stjórnar

 

Lúðvík Börkur Jónsson

 

Formaður
Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0