Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að tillögur í skýrslu forsjárnefndar verði skoðaðar rækilega í dómsmálaráðuneytinu. Hann segist taka undir það sjónarmið nefndarinnar, að meginreglan í lögum verði sú að forsjá með börnum verði ætíð sameiginleg.
 
Hann vilji láta reyna á það sjónarmið til þrautar, en Alþingi eigi að sjálfsögðu síðasta orð um, hvort og hvernig regla um sameiginlega forsjá verði lögfest. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið eigi á hinn bóginn að hafa frumkvæði við tillögugerðina.

Björn segist hafa hvatt til þess að forsjárnefndin héldi áfram störfum og skilaði lokaskýrslu, en nokkur ár eru síðan áfangaskýrsla var gefin út. Eftir að nefndin skilaði skýrslu sinni hafi verið boðað til málþings með fulltrúum þeirra, sem láti sig þessi mál sérstaklega varða.

Björn segir ráðuneytið hafa fullan hug á að skoða framkvæmd á tillögunum, m.a. um sameiginlega forsjá og aukið kynningarefni.

“Í ráðuneytinu hefur verið gert skipulegt átak á undanförnum misserum í að stytta afgreiðslutíma í forsjár- og umgengnismálum sem til ráðuneytisins koma. Við höfum farið yfir alla þessa verkferla og tökum ábendingar nefndarinnar alvarlega.”

mbl.is 18.05.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0