Sighvatur Karlsson fjallar um velferð barna: “Aðventan er tími vonarinnar og nýrra tækifæra. Nýtum þennan tíma vel til að búa í haginn fyrir börnin okkar og barnið innra með okkur.”

UM DAGINN hlustaði ég á athyglisvert viðtal við fyrrverandi forseta Íslands: Vigdísi Finnbogadóttur. Tilefnið var að Íslensk erfðagreining hefur ákveðið að veita auknu fjármagni í Velferðarsjóð barna. Vigdís nefndi að við ættum að hlusta á börnin okkar í ríkari mæli og gefa þeim tíma og knúsa þau oftar en ekki og láta þau finna að okkur þykir vænt um þau. Þá nefndi hún að við ættum að lesa fyrir þau og kenna þeim að syngja. Síðast en ekki síst ættum við að kenna þeim að meta hvað væri fallegt í veröldinni og umhverfinu þannig að þau gætu nefnt fegurðina að fyrra bragði. Mér þótti þetta góður punktur hjá Vigdísi og ég fór að hugleiða hvað við Íslendingar gætum gert til þess að halda betur utan um börnin okkar að þessu leyti.
“Nei, pabbi, sjáðu birtuna á sjónum”, sagði ungur sonur minn við mig þegar við fórum í bíltúr saman á Húsavík að kvöldlagi á aðventunni. Það stirndi á gárurnar á sjónum vegna birtunnar sem tunglið gaf frá sér. “Hann tekur eftir fegurðinni”, hugsaði ég með mér. “Pabbi, af hverju er bogadreginn skuggi á tunglinu?”. Ég sagði honum að jörðin væri núna að hálfu leyti milli sólarinnar og tunglsins. Þess vegna væri skuggi á tunglinu. “Cool”, sagði hann, “er ekki kalt í skugganum?” Fyrr en varði stóðum við þögulir saman á stirndu hjarninu undir dásamlega fallegri himinhvelfingu alsettri stjörnum sem veittu mismiklu birtumagni til okkar eftir fjarlægð.

Er ekki lífið dásamlegt þegar börnin okkar auðga lífið og tilveruna með þessum hætti og skynja skikkan skaparans? Vissulega! Þau gera það einnig með margvíslegum öðrum hætti hvert með sínum hætti. Börnin okkar eiga allt það besta skilið og okkur ber skylda til að búa þeim öruggt umhverfi og styðja þau eins og best verður á kosið á viðkvæmum uppvaxtarárum. Vissulega mætum við þörfum barna okkar til líkamans en ég hygg að sálarheill barna okkar sé í húfi í þessari víðsjárverðu veröld sem blasir við þeim í þessum heimi. Við eigum að hlusta á börnin okkar og vera þeim samferða þar sem þau eru stödd í sínum hugsanagangi.Við eigum að laða þau og leiða til góðs og gæfu. Áminna þau og hvetja í senn. Við megum ekki gleyma að hrósa þeim. Hrós getur haft undraverð áhrif! Við þurfum að vakna og vera vakandi gagnvart því að benda börnum okkar stöðugt á það sem er gott, fagurt og fullkomið í þessum heimi og minna þau jafnframt á að passa sig á hættunum sem við blasa t.d. á tölvuskjánum, í sjónvarpinu og í dagblöðunum þar sem gert er út á gerviveröldina og skrumskælinguna á mannlífinu. Þar er lítið gert úr manngildinu, umhyggjunni, hjálpseminni, samúðinni, tillitsseminni.

Biskup Íslands og forsætisráðherra gerðu málefnum barna góð skil í áramótaræðum sínum. Í kjölfarið var gefinn út bæklingur sem ber nafnið: “Verndum bernskuna”. Að bæklingnum standa forsætisráðuneytið, þjóðkirkjan, Velferðarsjóður barna, umboðsmaður barna og Heimili og skóli.

Í bæklingnum er að finna tíu góð heilræði. Vonandi vekja heilræðin tíu foreldra og uppalendur til umhugsunar um uppeldi barna sinna og verða mörgum notadrjúg leiðsögn.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur segir í bók sinni Sögu daganna að Sumardagurinn fyrsti hafi verið kallaður yngismanna- og yngismeyjadagur. Til siðs var að gefa börnum á þeim degi góðar gjafir. Væri ekki þjóðráð að taka þennan sið upp aftur á þessum degi þar sem hefð var lengi fyrir honum og helga þennan dag börnum þessa lands sem erfa eiga landið? Látum ekki hagsmunaárekstra koma í veg fyrir það. Vinnum frekar saman til að það megi takast. Ég tel að það sé full þörf á því að einn dagur sé sérstaklega helgaður börnum á Íslandi. Börnin okkar eru vormenn Íslands. Það fer því vel á því að gefa börnum okkar góðar gjafir með hækkandi sól.

Aðventan er tími vonarinnar og nýrra tækifæra. Nýtum þennan tíma vel til að búa í haginn fyrir börnin okkar og barnið innra með okkur.

mbl.is Laugardaginn 17. desember, 2005 – Aðsent efni
Sighvatur Karlsson
Höfundur er kirkjuþingsmaður og sóknarprestur á Húsavík

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0