Það þykir ekki lengur karlmannlegt að vera með ístru eða „bjórbumbu“ ef marka má nýja breska könnun. Þar kemur fram að karlmenn séu jafn gagnteknir af líkamanum og konur. Þriðjungur þeirra karla sem tóku þátt í könnuninni segja að þeir hati magann á sér og fjórðungur segist ekki vera ánægðir með líkamann.

Alls tóku 500 menn þátt í könnuninni sem var framkvæmd í gegnum síma. Könnunin, sem ber yfirskriftina „Herra hégómi“, komst að þeirri niðurstöðu að karlmönnum þykir mikil pressa vera á þeim að vaxtarlag þeirra svipi til íþróttahetja þeirra.

Samkvæmt könnuninni þykir ístran ekki vera til fyrirmyndar. Einn af hverjum fjórum svarenda sagði að maki þeirra þrýsti á þá að halda sér í formi. Þá segir að menn langi til þess að líta eins út eins og frægar stjörnur sem prýða forsíður tímarita.

Samkvæmt könnuninni vilja flestir karlmenn vera með líkama ensku knattspyrnuhetjunnar David Beckham. Næstur í röðinni er Brad Pitt og þá ruðningskappinn Gavin Henson.

Könnunin leiðir það í ljós að utanaðkomandi þrýstingur á það að menn eigi að líta vel út geti verið það öfgakenndur að karlmenn byrji á endanum á því að ljúga, bæði að sjálfum sér og að öðrum, varðandi það í hversu góðu líkamlegu formi þeir séu.

Um fjórðungur svarenda hefur logið að mökum sínum og vinum varðandi það hversu oft þeir æfa. Þriðjungur ýkir það hversu mikið þeir geta lyft og einn af hverjum fimm lýgur til um sína eigin líkamsþyngd.

mbl.is | 16.3.2006 | 13:14

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0