Sameiginleg forsjá var lögleyfð á Íslandi 1992. Í nokkur ár á undan hafði forsjá í 88% tilvika gengið til móður en í 12% til föður. Með lögfestingu sameiginlegrar forsjár sköpuðust nýir möguleikar til að skipa forsjármálum og síðan hefur þróunin orðið sú að forsjá fer í tæplega helmingi tilvika (48,4 %) til móður, nánast jafn oft eða í 48,2 % tilvika er hún sameiginleg en aðeins í 3,5 % tilvika fer hún til föður þegar um skilnað er að ræða. Ekki eru til tölur fyrir sambúðarslit.

Hér á eftir fer tafla yfir þessa þróun sem Ingólfur V. Gíslason félagsfræðingur hefur unnið upp úr Landshögum, tímariti Hagstofunnar.

Forsjá barna við skilnað
Ár Börn alls Móðir fær forsjá % Faðir fær forsjá % Sameiginleg forsjá % Aðrir fá forsjá % Lögheimili hjá föður %
1989 564 87,4 12,2 0,4
1990 548 88,9 11,1 0,0
1991 606 88,0 11,1 0,0
1992 583 84,4 4,5 11,1 0,0
1993 580 86,0 7,6 6,2 0,2
1994 523 70,6 6,7 22,8 0,0 9,7
1995 513 61,8 3,5 34,3 0,4 9,9
1996 569 65,9 0,9 33,2 0,0 5,4
1997 545 57,1 3,7 39,3 0,0 9,4
1998 521 53,9 5,2 40,9 0,0 11,9
1999 540 58,0 4,1 38,0 0,0 9,6
2000 636 49,2 3,8 46,9 0,2 11.5
2001 701 48,4 3,4 48,2 0,0 9,7

Búseta er hins vegar allt annað en forsjá og þegar forsjá er sameiginleg (í tæpum helmingi skilnaða) búa börnin hjá föður sínum aðeins í uþb. 10% tilvika (eins og hér sést). Þetta þýðir að aðeins tíunda hvert barn býr hjá föður en níu af hverjum tíu hjá móður jafnvel þótt forsjáin sé sameiginleg eftir tæplega annan hvern skilnað.

Samkvæmt upplýsingum frá Innheimtustofnun sveitarfélaga er enn önnur skipting þegar kemur að meðlagsgreiðslum sem fara yfirleitt eftir lögheimili (og að mati hins opinbera einnig búsetu). Þannig er í heildina greitt með 20.998 börnum innanlands og utan. 11.641 karlar greiða með 19.142 börnum innanlands (97%) en 441 kona með 596 börnum (3%). Þannig virðist sameiginleg forsjá ekki hafa breytt raunverulegri búsetu barna eða kynjaskiptingu varðandi hana.

Athygli vekur annars í töflunni hér fyrir ofan hve sameiginleg forsjá er algeng. Félag ábyrgra feðra hefur lagt fram tillögur til Alþingis þess efnis að við skilnað eða sambúðarslit verði sameiginleg forsjá meginregla og að annar aðilinn geti því aðeins fengið breytingu á því að hann færi fullgild rök fyrir þeirri ósk. Það fyrirkomulag gildir t.d. í Svíþjóð og 30 fylkjum Bandaríkjanna og hefur reynst vel. Í aðdraganda kosninga árið 2003 gaf þáverandi formaður allsherjarnefndar Alþingis, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi menntamálaráðherra, það loforð í sjónvarpi að það væri aðeins tímaspursmál hvenær sameiginleg forsjá sem meginregla verði fest í lög á Íslandi. Bindur Félag ábyrgra feðra miklar vonir við það loforð og mun minna óspart á það.

Félag ábyrgra feðra bendir á þá stefnu sem mörkuð er í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að börn búi sem mest hjá báðum foreldrum sínum, að þau nái að mynda raunveruleg og traust bönd við báða foreldra sína og að bæði ríki og forsjárforeldri eigi að stuðla að sem mestri og heilbrigðastri umgengni milli barns og forsjárlausa foreldrisins – eða þess foreldris sem barnið býr ekki hjá skv. hinu opinbera. Stefna félagsins er skýr: börnin eiga að búa jafnt hjá báðum foreldrum sem ekki búa saman sé hægt að koma því við.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0