Guðmundur Pálsson fjallar um tæknifrjóvganir með nafnlausu gjafasæði: Með skipulögðum hætti ætlar ríkið að búa þannig í haginn, að til verða börn sem ekki þekkja foreldri sitt, í þessu tilfelli föður, og geta aldrei komist að því hver hann er.

I
Það er afar meinlegt að sjá Alþingi ætla að lögleiða tæknifrjóvganir samkynhneigðra kvenna með nafnlausu gjafasæði.
Með skipulögðum hætti ætlar ríkið að búa þannig í haginn, að til verða börn sem ekki þekkja foreldri sitt, í þessu tilfelli föður, og geta aldrei komist að því hver hann er.

Þó er hann valinn af gaumgæfni úr sæðisbanka eins og hrútur: Menntunarstig, hæð, litarháttur, sjúkdómar og arfgengir þættir ákveða valið og verður þetta gert á þar til gerðum stofnunum með leyfi ríkisvaldsins.

Snúið við þessari hryggðarmynd lesendur góðir, og sjáið karlmann velja níu mánaða staðgöngumóður og tryggja svo, með hjálp ríkisins, að barnið sem hann elur upp sjálfur fái aldrei að vita nein deili á móðurinni. Hvernig líst mönnum á?

Minnir slíkt á verklag og drauma sem tíðkuðust í Þýskalandi á fyrri hluta síðustu aldar: “Lífið skal beygja undir vilja manneskjunnar, sama hvað það kostar.” Þetta er að mínu mati afar gagnrýnivert.

Réttur barna er þarna skertur með nefndu frumvarpi og samband barns við föður og móður ekki virt. Ég minni á að samkvæmt upphafsgrein Barnalaganna, nr. 76/2003, á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína.

Stendur einnig til með þessu frumvarpi að veita lesbískum konum greiðari aðgang að tæknifrjóvgunum en öðrum konum t.d. í sambúð eða giftum. Kona í sambúð fær aðeins sæði ef eiginmaður er með skerta frjósemi eða vegna sjúkdóms. Þetta skýtur skökku við.

II
Um ættleiðingar samkynhneigðra eru skiptar skoðanir og lítið eru ræddar hér á landi, kannski vegna almennrar skoðanabælingar á þessu málefni. Staðreyndin er samt sú að sambönd mjög stórs hluta samkynhneigðra eru óstöðug og stutt. Tíðni vissra smitsjúkdóma er há og lífaldur nokkuð styttur m.a. vegna áhættuhegðunar. Á þetta sérlega við um fjöllynda unga karlmenn í þessum hópi.
Hér er vert að bæta við að hópurinn er alls ekki einsleitur – og sjálf hneigðin líklega ekki heldur. Í þessu felst ekki áfellisdómur heldur er þetta ábending. Eru þetta staðreyndir studdar alþjóðlegum rannsóknum sem eru aðgengilegar almenningi.

Það sem að ofan er rakið bitnar á ættleiddum börnum samkynhneigðra. Ætti a.m.k. að gera það ef haldið er þræði í röksemdafærslunni. Og gefur það tilefni til að ætla að við séum að fara út í tilraunastarfsemi með þessari heimild. En þetta virðist ekki mega nefna eða menn horfa framhjá þessu.

III
Varðandi kirkjulega hjónavígslu stendur samkynhneigðum það til boða, að fá blessun kristinna presta í kirkjum sem viðurkenna samlíf og ástir þeirra. Samkynhneigðir eru almennt viðurkenndir í þjóðfélagi okkar og er það vel. Það er engin spurning að þeir sæta almennt ekki áreitni – og væri svo, teldist það að sjálfsögðu óþolandi.
Fjöldi presta hefur komið til móts við þessa einstaklinga og velvild þeirra margra er óumdeild.

Biskup Íslands hefur unnið að því að laga kirkjulegar athafnir að óskum samkynhneigðra – en hann er úthrópaður sem fordómafullur af samkynhneigðum eins og nánast sérhver sem ekki er sammála skipulögðum málflutningi þeirra.

Þeim stendur einnig til boða að stofna sínar eigin fríkirkjur með ríkisstyrk og hafa alla sína hentisemi. Íslenska stjórnarskráin hvetur reyndar til þeirrar lausnar í 63. gr. sem segir að allir hafi rétt til að stofna eigið trúfélag og iðka trú sína eftir eigin sannfæringu. En lítill áhugi virðist fyrir því.

Leið samkynhneigðra til að leysa eigin vanda og lifa sem fullgildir borgarar er greið og opin. En það virðist duga skammt.

Þröngva skal lífssýn þessa hóps inn í stofnanir þjóðfélagsins. Svo langt er seilst í þeim efnum að löggjafinn endurskilgreinir hugtakið hjónaband og strikar út “karl og konu” víðast hvar í eldri lagatextum. Textinn með athugasemdum er á http://www.althingi.is/altext/132/s/0374.html.

IV
Kirkjan byggir kenningu sína á tveimur meginþáttum; trúarhefð og texta ritningarinnar og verða menn að gera upp hug sinn hvort fylgja eigi þessari kenningu Krists eða ekki. Engin af stærri kirkjudeildum heimsins endurritar trúarhefð sína vegna kynhneigðar svo mér sé kunnugt. Það er ekki tilviljun að kirkjan skuli heyja hér mestu glímuna og hika við að breyta grundvallargildum sínum.
Þar kemur m.a. til saga hinnar gyðing-kristnu arfleifðar. Sú trúarhefð setti kynhvötina í farveg innan hjónabandsins fyrir meira en 3500 árum. Sá farvegur markaði tímamót í sögu Vesturlanda og hefur kannski haft meiri áhrif á menningu okkar en almennt er viðurkennt.

Fyrir þann tíma var kynhvötin – sérlega hvöt karlmanna – óheft og sótti sér farveg eftir geðþótta. Var fjöllyndi almennt samþykkt enda ríkur partur af kúgunartæki þeirra sem réðu. Er enginn taumur á því hrossi eins og menn þekkja.

Hin byltingarkennda kristna hefð hafnaði þessu ákveðið og þar með einnig hómósexúalisma sem lífsstíl til eftirbreytni.

Var þess í stað lagður grunnur að sambandi milli karls og konu sem ramma utan um æxlunarhlutverk mannsins og hefur þetta markað menningu okkar æ síðan.

V
Getur það talist mannréttindamál að sveigja kenningu kirkjunnar til lags við óskir sérstakra hópa?
Verður kirkjan í kjarna sínum ekki að geta staðið óhögguð, óháð sveiflum tímans og tískustraumum?

Er viðunandi fyrir heila þjóð að breyta tvö þúsund ára gömlum siðum kristinnar kirkju vegna kynhneigðar?

Finnst mér það sérkennileg sjálfshyggja – en að sumu leyti tímanna tákn í kynvæðingu nútímans.

Frekar finnst mér þörf á að styrkja þessa stofnun – hjónabandið og fjölskylduna – fjársjóð menningar okkar. Einnig fara gætilega í tæknivæðingu getnaðar og barneigna.

Guðmundur Pálsson
Höfundur er sérfræðingur í heimilislækningum.
mbl.is Miðvikudaginn 8. febrúar, 2006 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0