Alþingi hefur þannig eytt þeirri réttaróvissu sem ríkt hefur um réttindi barna og foreldra þeirra frá því það spurðist út að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hygðist fresta gildistöku breytinganna um hálft ár.

Lögin voru samþykkt á Alþingi 25. júní 2012 en frumvarp þess efnis hafði legið á borðum ráðherra dómamála1 frá 12. janúar 2010 eftir að hafa verið í smíðum frá árslokum 2008. Fljótlega eftir að lögin voru samþykkt á Alþingi eða í lok ágúst 2012 fór sá orðrómur að berast út að ráðherra hygðist fresta gildistöku laganna. Formaður Félags um foreldrajafnrétti sendi fyrirspurn á innanríkisráðherra í september og spurðist fyrir um hvort þessi orðrómur ætti við rök að styðjast. Fyrri ráðherrar dómsmála hafa jafnan brugðist fljótt við fyrirspurnum félagsins og svarað um hæl, en í ráðherratíð Ögmundar hefur það verið regla frekar en undantekning að svara ekki og átti það við um þessa fyrirspurn.

Þann 8. nóvember 2012 á ráðstefnu um breytingar á barnalögum tilkynnti innanríkisráðherra svo áætlun sína um að fresta gildistöku laganna. Ástæðu frestunarinnar sagði hann vera að fjárveiting sú sem ætluð væri til þess að koma lögunum í framkvæmd hvað varðar sáttameðferð nægði ekki. Ráðherra dróg þó fram á síðasta dag útbýtinga þingskjala, þann 30. nóvember, að leggja fram frumvarp þess efnis á Alþingi að fresta gildistöku breytinganna. Þar með gaf ráðherra velferðarnefnd nánast engan tíma til þess að fjalla efnislega um frumvarpið. Velferðarnefnd náði aðeins að kalla til sín tvo aðila í stutt viðtöl vegna frumvarpsins, annars vegar fulltrúa ráðuneytisins, Jóhönnu Gunnarsdóttur, og hins vegar sérfræðing sem fór fyrir nefndinni, Hrefnu Friðriksdóttir,sem skrifaði frumvarpið sem samþykkt var í sumar.

Það virðist sem útfærsla sáttameðferðar sé á byrjunarstigi hjá ráðuneytinu og var það megin forsenda þess að ráðherra lagði til þessa frestun. Í því sambandi ber að nefna að fulltrúi ráðuneytisins, Jóhanna Gunnarsdóttir, sem mætti á fund velferðarnefndar hefur haft töluvert lengri tíma til þess að kynna sér svokallaða sáttameðferð en það hálfa ár frá því lögin voru samþykkt. Þannig vann Jóhanna frá 22. desember 2008 með nefnd undir formennsku Hrefnu Friðriksdóttur að því að skrifa frumvarpið sem samþykkt var í júní 2012. Frumvarpið sem innihélt sáttameðferð þá er ráðuneytið telur sig nú þurfa nokkra mánuði til viðbótar til þess að útfæra.

Þá ber að gera þá kröfu til nefndar sérfræðinga í málefnum barna að fjallað sé af faglegri ígrundun um nýmæli á borð við sáttameðferð áður en slíkt er lagt fram sem breytingartillaga í formi frumvarps. Því má ætla að fulltrúi ráðuneytisins hafi þannig tekið þátt í grundaðri umræðu um útfærslu sáttmeðferðar allt frá árinu 2008. Nú fjórum árum eftir þessa vinnu kemur hún fram og telur ráðuneytið þurfa sex mánuði til þess að útfæra sáttameðferðina. Vinna ráðuneytisins sé á byrjunarstigi og því ekki hægt að taka lögin í gildi. Ef útfærslan er á byrjunarstigi eftir fjögur ár, hvar verður hún þá eftir fjögur og hálft?

Hjá ráðherra sjálfum, Ögmundi Jónassyni, var sáttameðferðin aðalmálið þegar hann lagði frumvarið fram í lok árs 2011 og aftur um vorið 2012. Talaði Ögmundur þá um sáttameðferð af mikilli sannfæringu og engu líkara en að hann hefði góða mynd af því hvernig slík sáttameðferð færi fram og kosti hennar. Útfærsla sáttameðferðar var svo langt komin að fyrir lá hver kostnaður vegna hennar yrði og ríkisstjórnin var búin að tryggja nægt fjármagn til þess að hrinda henni í framkvæmd.

Vegna þess hversu stuttur tími leið frá því frumvarp innanríkisráðherra var samþykkt á Alþingi og þar til sögusagnir fóru að berast um að Ögmundur hygðist fresta gildistöku þeira er ekki hægt að horfa framhjá því að Ögmundur er harður andstæðingur heimildar dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá. Ögmundur er einangraður í afstöðu sinni og talar gegn öllum nefndum sem fjallað hafa um málið auk þess sem hann talar í andstöðu við stefnu allra landa sem Íslendingar bera sig saman við. Getur það verið að Ögmundur vanræki vísvitandi að útfæra sáttameðferð vegna andstöðu sinnar við dómaraheimildina? Ef frestunin er einungis vegna sáttameðferðar, af hverju þá að fresta rétti barna til þess að tjá sig um mál sem þau varða? Af hverju að fresta því að forsjá hætti að flytjast sjálfkrafa til stjúp – og sambúðarforeldris, eða um rétt forsjárlausra til upplýsinga um barn? Af hverju að fresta því að hægt sé að úrskurða um umgengni 7 daga af 14 eða umgengni við aðra nákomna þegar foreldri nýtur ekki við? Af hverju að fresta gildistöku á heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá?

Stjórnarandstaðan á heiður skilinn fyrir samstöðu sína gegn frestun gildistöku laganna. Að öðrum ólöstuðum þá bar Guðmundur Steingrímsson af eins og áður hvað varðar málflutning um réttindi barna og foreldra þeirra í þingsal. Guðmundur flytur mál sitt af mikilli rökfestu og er gagnrýnin á ómálefnalegan málflutning þeirra sem halda uppi röklausum umræðum um þessi mál.

Félag um foreldrajafnrétti fagnar þeirri umræðu sem málið fékk í þingsal og ekki síst niðurstöðunni um að lögin taki gildi nú um áramót.

–Heimir Hilmarsson

 

 

 1 Vegna samruna og breytinga á meðal annars heitum ráðuneyta þá hefur verkefnið verið á höndum Dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Dóms- og mannréttindaráðuneytis og nú Innanríkisráðuneytis (Þingskjal 362, 2009; Þingskjal 1498, 2010).