Félagi um foreldrajafnrétti hefur borist bréf til Alþingis frá konu sem vill hvetja Alþingismenn til þess að setja sig í spor þeirra sem þurfa að þjást vegna núverandi barnalaga.

Forsaga málsins er sú að á síðasta þingi voru samþykktar breytingar á barnalögum samkvæmt frumvarpi sem lagt var fram af innanríkisráðherra. Í meðförum þingsins var sett aftur inn heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá en innanríkisráðherra hafði tekið út heimildina úr frumvarpinu og lýst andstöðu sinni við þá heimild. Afstaða innanríkisráðherra stríðir gegn afstöðu allra nefnda sem fjallað hafa um málið bæði hér heima á Íslandi um í þeim löndum sem við miðum okkkur við.

Lögin eiga að taka gildi nú um áramótin eða hálfu ári eftir að þau voru samþykkt á Alþingi. Þessi langi tími frá samþykkt og að gildistöku var ætlaður innanríkisráðuneytinu til þess að undirbúa framkvæmd laganna og setja saman reglugerð um framkvæmdina.

 

Innanríkisráðuneytið hefur ekki svo vitað sé byrjað þá vinnu að undirbúa framkvæmd laganna og á síðasta degi sem leyfilegt var að leggja fram frumvarp fyrir áramót, þá leggur innanríkisráðherra fram frumvarp um hálfs árs frestun á gildistöku laganna.

Sögusagnir um fyrirhugaða frestun ráðherra bárust til stjórnar Félags um foreldrajafnrétti tveimur til þremur mánuðum áður en ráðherra lagði fram frumvarp um frestun svo maður spyr sig hvort vanræksla ráðherra hafi verið vísvitandi vegna andstöðu sinnar við dómaraheimild.

 

Eftirfarandi er aðsent bréf konunnar sem við birtum hér.

AÐSENT BRÉF:

Ég vil í byrjun rekja stuttlega sögu manns sem ég þekki til.

Maðurinn eignaðist barn. Stuttu síðar hættu hann og barnsmóðir hans saman. Barnsmóðirin varð ofsareið út í barnsföður sinn vegna sambandsslitanna og tálmaði umgengni hans við barnið. Dómstólar dæmdu móðurinni forsjá barnsins í ljósi þess að tengsl hennar við barnið væru sterkari (sem er svo sem ekki óeðlilegt þar sem hún tálmaði umgengni í tæpt ár eftir að sambandinu lauk). Faðirinn leitaði réttar síns til þess að fá að umgangast son sinn. Honum var dæmdur sá réttur. Þar sem barnsmóðirin sá fram á að vera þvinguð til að veita umgengni tók hún til þess bragðs að flytja erlendis, enda þurfti hún ekki samþykki föðurins til þess, hún hafði jú forræðið. Henni bar þó skylda til að láta vita þegar hún kæmi til landsins. Það hefur hún aldrei gert. Í dag þekkir faðirinn ekki son sinn. Hann er 8 ára. Sonurinn kallar hins vegar afa sinn pabba.

Þetta er sá raunveruleiki sem feður á Íslandi, sem slíta samvistum við barnsmæður sínar, hafa þurft að glíma við um háa herrans tíð í ljósi þess að ekki hefur verið heimild í lögum til að dæma sameiginlega forsjá. Feður hafa ekki getað treyst á íslensk lög til að tryggja jafna stöðu þeirra á við barnsmæður þeirra heldur hafa þeir þurft að treysta á góðmennsku og geð barnsmæðra sinna. Hafa feður þannig verið algjörlega undir náð barnsmæðra sinna komnir. Ef barnsmóðirin er heiftug hefur hún það í hendi sér að beita barnsföður sinn kúgun. Ef ekki með hótunum um að taka forræðið af honum, sem núgildandi lög tryggja beinlínis að gert verði komi til dómsmáls, þá með því að fara einfaldlega í mál þar sem dómari hefur þá enga aðra kosti en að dæma öðru hvori foreldri forsjá, sem er að jafnaði móðir. Núgildandi lög eru kúgunartæki. Kúgunartæki sem of margir feður hafa þurft að kynnast.

Fyrr á árinu voru lög nr. 61/2012 samþykkt. Eru þau lög stór áfangi í réttindabaráttu feðra þar sem í lögunum er kveðið á um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Þessi tilvist heimildarinnar ein og sér bætir stöðu feðra svo um munar. Lögin voru samþykkt af hálfu Alþingis þvert á vilja innanríkisráðherra sem ólíkt öllum Norðurlöndunum og álitsgerðum fagnefnda taldi ,,ekki tímabært“ að lögfesta heimildina.

Fyrir Alþingi liggur nú breytingartillaga innanríkisráðherra á lögum þessum nr. 61/2012 en lögin eiga að taka gildi í janúar 2013 og hafa feður, sumir á barmi örvæntingar, og aðilar sem standa þeim nærri, beðið gildistöku þeirra í hálft ár. Í tillögunni felst að gildistöku laganna verði frestað til 1. júlí 2013. Rökin að baki þessu eru þau að ekki sé unnt að tryggja að lögin komi að fullu til framkvæmda 1. janúar 2013 þar sem nægjanlegt fjármagn liggi ekki fyrir. Er vísað til þess að ráða þurfi fleiri starfsmenn hjá sýslumannsembættum landsins vegna þeirrar breyttu sáttameðferðar sem lögunum fylgja. Tillaga þessi var lögð fram hinn 30. nóvember sl. Samkomulag liggur fyrir á Alþingi um að afgreiða þetta mál fyrir jól, meðal annarra mála. Mikið ósætti er hins vegar um þetta mál á þingi og bera heimildarmenn því við að hluti þingmanna hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að samþykkja enda er gildistaka hinna breyttu laga mörgum þeirra kappsmál. Greinarhöfundur spyr sig, í ljósi fyrri andstöðu innanríkisráðherra við að veita feðrum jafnan rétt á við mæður, hvort hér sé verið að keyra í gegn frestun á gildistöku laganna með fjárlög sem afsökun. Má vekja athygli á því að ráðherra hefur haft hálft ár til að undirbúa gildistökuna.

Sú tillaga um frestun sem liggur frammi fyrir þinginu myndi hafa afar slæmar afleiðingar fyrir þá feður sem standa frammi fyrir því að þurfa að semja um forræði yfir barni sínu enda myndu gömlu lögin þá gilda um þær forræðisdeilur sem rísa fyrir 1. júlí 2013. Núgildandi lög eru vopn í hendi þeirra barnsmæðra sem geta þvingað feður til samþykkja allar þeirra kröfur af ótta við málsókn undir núgildandi lögum. Gæti tillagan jafnvel hvatt mæður, sem íhugað hafa að fara í mál, til að gera það næsta hálfa árið svo að mál þeirra falli ekki undir nýju lögin. Er biðlað til Alþingis að samþykkja ekki þá frestun á hinni nýju réttarstöðu feðra sem í tillögunni felst.

Þau rök sem færð eru fram fyrir frestuninni eru illa rökstudd. Eiga þau jafnframt með engum hætti við um ákvæði laganna sem heimilar dómara að dæma sameiginlega forsjá. Er því biðlað til þingsins að samþykkja ekki frestun á gildistöku ákvæðisins. Það er, telji þingið ekki tækt að hafna tillögunni með öllu að kveða þá á um að frestunin nái ekki yfir ákvæðið sem heimilar dómara að dæma sameiginlega forsjá. Enda eru engin rök sem standa í vegi fyrir því að ákvæðið eitt og sér taki gildi strax þó hin breytta sáttameðferð laganna frestist. Er jafnræði meðal aðila með þessum hætti tryggt.

Er hér biðlað til þingsins að setja sig í spor þeirra aðila sem þurfa virkilega að treysta á sanngirni núgildandi barnalaga. Þeir hagsmunir sem eru í húfi fyrir þá aðila sem lögin hafa bein áhrif á eru mun brýnni en þau ,,praktísku“ og jafnframt ófullnægjandi rök sem hvíla að baki breytingartillögunni um að ráða þurfi starfsmenn til sýslumannsembætta landsins og lögð er fram þrem vikum fyrir þinglok og keyrð í gegn á grundvelli pólitísks samkomulags.

Ég treysti á að brjóstvit þingmanna vegi þyngra en slíkt samkomulag.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0