Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt Ungverjaland til að borga írskum föður 32.000 evrur eða rúmar 5,2 milljónir íslenskra króna vegna úrræðaleysis í umgengnistálmun.

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði nýlega að Ungverjaland yrði að borga 32.000 evrur til írsks föður sem býr í Frakklandi en faðirinn hafði ekki fengið að sjá dóttur sína í þrjú og hálft ár. Dóttirin á ungverska móður.

Hjónin skildu árið 2005 þegar dóttir þeirra var fimm ára og fóru með sameiginlega forsjá samkvæmt dómsorði frá 2007. Í desember 2007 fór móðir með barnið til Ungverjalands í vetrarfrí en innritaði dótturina í ungverskan skóla næsta mánuð og hafði engin áform um að snúa aftur til Frakklands. Faðirinn leitaði til ungverskra dómstóla sem úrskurðuðu sex mánuðum síðar að barnið yrði að fara aftur til Frakklands.

Ungversk yfirvöld hafa árangurslaust reynt að fá móður til að hlýða úrskurði. Móðirin var handtekin í júlí 2009 í samkvæmt franskri handtökuskipun en henni var sleppt lausri daginn eftir. Nokkrum dögum eftir handtökuna, hljópst móðirin á brott með barnið og hefur ungverskum stjórnvöldum ekki tekist að hafa upp á þeim.

Faðirinn snéri sér aftur til ungverska yfirvalda til að fá hjálp við að finna dóttur sína en á sama tíma dæmdi franskur dómstóll föðurnum einum fulla forsjá barnsins. Í janúar 2009 leitaði faðirinn loks til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Mannréttindadómstóllinn telur Ungversk stjórnvöld hafa brotið á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu þar sem faðir og dóttir hafi ekki getað umgengist hvort annað. Dómstóllinn úrskurðaði Ungverjaland til að borga föður 20.000 Evrur sem bætur og endurgreiði honum 12.000 Evrur vegna réttaraðstoðar hans.

Hér er að finna þessa umfjöllun á ungverskum miðli The Hungarian Portal.

Hér er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu.

Ísland hefur fengið ábendingu um að íslensk lög þurfi að taka á umgengnistálmunum þannig að ekki verði brotið á þessari 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Ísland hefur ekki brugðist nægilega við og getur því átt von á skaðabótakröfum líkum þessum. Fjöldi barna og aðstandenda þeirra þjást á Íslandi vegna umgengnistálmana sem stjórnvöld virðast leitast við að horfa framhjá.

8. gr.
Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.
1. Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.
2. Opinber stjórnvöld skulu eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0