Sænska ríkisstjórnin hyggst leggja fram lagafrumvarp sem veitir börnum er verða vitni að ofbeldi á heimilinu réttarstöðu fórnarlambs. Ástæðan fyrir þessari tillögu var dómur í sænska hæstaréttinum sem skar nýlega úr um hið gagnstæða. Barn sem þurfti að horfa upp á ofbeldi föður gegn móður fékk ekki stöðu fórnarlambs glæps.

„Ríkisstjórnin lítur svo á að þau börn, sem lenda í þessari stöðu, séu fórnarlömb og að þau eigi heimtingu á skaðabótum frá ríkinu,” sagði dómsmálaráðherrann, Thomas Bodström, í útvarpsviðtali nýlega.

Samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar mun barnið ekki þurfa að kæra brotlega aðilann, heldur mun barnið fá sínar bætur beint frá ríkinu.

Fréttavefur Dagens Nyheter hefur skýrt frá því að ekki er vitað með vissu hversu mörg sænsk börn búa við ofbeldi á heimilum sínum, en góðgerðarstofnunin Rädda Barnen hefur metið þann fjölda á milli hundrað og tvö hundruð þúsund börn.

Rannsókn, sem gerð var í Gautaborg fyrir nokkrum árum, sýndi, að þessi börn báru margvíslegan sálrænan skaða. Martraðir, hræðsla og skortur á leikgleði voru meðal einkennanna. Aukna ofbeldishneigð var einnig að finna meðal þeirra.

Í tillögu sænsku ríkisstjórnarinnar munu fórnarlömb ofbeldis á heimilunum eiga skýran rétt til aðstoðar hjá félagsmálastofnunum og verður sá réttur skilgreindur betur.

Erlent | mbl.is | 16.3.2006 | 09:38

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0