Guðrún Guðlaugsdóttir fjallar um forsjármál: “Börn eiga ekki að þurfa að gangast undir tilfinningalega tilraunastarfsemi til þess að konur fái rétt á við karla til starfa og launa í þessu samfélagi.”

TÖLUVERÐAR umræður hafa að undanförnu verið um dóm héraðsdóms þar sem móður var dæmd forsjá tveggja barna sem eru 3 og 5 ára gömul.
Ein röksemd þar til bærra manna í máli þessu var að börnin væru ung og þyrftu því meira á móður sinni að halda en föður.

Ummælum þessum hafa sumir orðið langleitir yfir.

Þetta þarf þó ekki að koma á óvart, ung börn hafa fram undir þetta fylgt móður sinni, hafi hún á annað borð verið lifandi og til þess fær að annast börn sín. Fullur skilningur hefur ríkt í samfélaginu á gildi þess fyrir börn að njóta móður sinnar.

Þetta fyrirkomulag hefur enda gefist vel svo sem aldalöng dæmi sanna. Meira að segja hinir herskáu og hörðu Spartverjar létu mæður um uppeldi sona sinna til 7 ára aldurs þeirra, er tekið var til að þjálfa þá til hernaðar.

Í máli lögmanna sem um fyrrnefndan dóm héraðsdóms hafa rætt opinberlega hefur m.a. heyrst það nefnt að frá sjónarmiði jafnréttis séu þau ummæli, að ung börn séu best komin hjá móður, ekki réttlætanleg.

Þarna er mínu mati verið að rugla saman tveimur óskyldum málum. Annars vegar tilfinningatengslum barns við móður sem borið hefur það undir belti og alið það á brjóstamjólk sinni og hins vegar réttindabaráttu í samfélaginu.

Það er staðreynd að konur ganga með og ala börn, þessu er ekki hægt að breyta og það er heldur engin þörf á því. Þessi staðreynd er handan og ofan við alla réttindabaráttu og það ætti sambandið sem kemst á milli móður og barns strax í meðgöngu að vera líka. Það samband er nánara en öll önnur mannleg samskipti.

Það ætti því ekki að skilja barn frá móður nema í algjörri neyð.

Að nefna í sömu andrá það að konur hafi leitað eftir réttindum á við karla í húshaldi og á vinnumarkaði og því hvar börn eiga að búa ef foreldrar þeirra telja sig ekki geta búið saman er óeðlileg málsmeðferð. Um er að ræða tvö algerlega aðskilin mál. Annars vegar er um að ræða jafnan rétt kvenna og karla til starfa og launa og hins vegar er um að ræða líkamlega gerð mannfólks og tengsl barns við móður sem bar það í þennan heim. Börn eiga ekki að þurfa að gangast undir tilfinningalega tilraunstarfsemi til þess að konur fái rétt á við karla til starfa og launa í þessu samfélagi.

Ýmislegt annað hefur flotið með í þessari umræðu við lögmenn. Svo sem það að algengast sé að barn sé falið forsjá þess aðila sem það er hjá þegar skilnaður verður.

Ég veit dæmi þess að lögmenn bendi skjólstæðingum á þetta. Afleiðingarnar geta orðið háskalegar barninu. Ég þekki dæmi um að karlar hafi tekið börn og falið um tíma til að þeir standi betur að vígi ef til forsjárdeilu kæmi.

Slíkar aðgerðir geta varla verið börnum gott tilfinningalegt veganesti, að ekki sé minnst á þá hættu sem það skapar á verulega slæmum samskiptum foreldranna og fjölskyldna þeirra þaðan í frá. Séu þau samskipti kulda og hatri mörkuð er það viðvarandi harmleikur fyrir barnið.

Nú er talað um að lögleiða sameiginlega forsjá. Ég sé ekki að þörf sé á því. Það nægir alveg að hafa þennan valkost, hann er kynntur fyrir fólki og kostirnir sem honum eiga að vera samfara. Æskilegt væri líka að einhver eða einhverjir í þeim hópi sem fjallar af opinberri hálfu um skipan þessara mála hafi sjálfir persónulega reynslu af skilnuðum, enginn skilningur er á við reynsluskilninginn.

Ég tel það mikilvægt, ekki síður fyrir börn en fullorðna, að eiga eitt heimili, annað fyrirkomulag getur auðveldlega skapað mikla innri togstreitu. Afleiðingar hennar hvað börnum við kemur koma kannski ekki fram strax en sýna sig gjarnan á unglingsárunum og geta svo mótað verulega lífshlaup viðkomandi einstaklings og tengsl hans við fólk á fullorðinsárum. Það fyrirkomulag að hafa börn á barnaheimilum og skólum og skikka þau svo til að flakka á milli heimila hinn tíma sólarhringsins er mikið álag fyrir ungar sálir. Talað er um vaxandi agaleysi og afbrot meðal hinna yngri.

Það ætti að vera bæði foreldrum og þeim sem ráða í samfélaginu keppikefli að færa börnum sálarró, fátt er mikilvægara fyrir góðan þroska persónuleikans. Valdabarátta foreldra er barni ekki til hagsbóta, sameiginleg forsjá eykur á hættu á slíku nema vandlega sé um hnúta búið hvað snertir umgengnismál og annað sem fólki getur orðið að ágreiningsefni. Þess ber að gæta að fólk skilur ekki síst af því að því kemur ekki vel saman.

Raunar er það mín skoðun að börnum aðskilinna foreldra sé að jafnaði best borgið þannig að þau eigi heimili hjá móður sinni en hafi sem frjálsastan samgang við föður sinn.

Höfundur er blaðamaður.
Guðrún Guðlaugsdóttir
Mbl. Fimmtudaginn 10. nóvember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0