Í hádegisfréttum Rúv, laugardaginn 17. júlí síðastliðinn kom fram að 95% þeirra sem þiggja umönnunarbætur frá Tryggingarstofnun ríkisins eru konur. 95% þeirra sem þiggja meðlag eru konur.

Kristín Ásgeirsdóttir segir þetta sláandi tölfræði og segir þetta vekja upp spurningar eins og:

Eru feður ekki að axla ábyrgð?
Eða halda konur svona fast í börnin?
Hvað er best fyrir börnin?

Félag um foreldrajafnrétti hefur bent á þessa staðreynd í mörg ár og við teljum okkur þekkja svarið við spurningum jafnréttisstýru.

Ef eitthvað á Íslandi getur talist alveg sér íslenskt án hliðstæðu í öðrum löndum þá eru það sennilega íslensku barnalögin og meðferð mála samkvæmt þeim hjá sýslumönnum. Foreldrajafnrétti er hvergi minna í V-Evrópu í það minnsta en á Íslandi og þegar leiðir foreldra skylja og leið liggur til sýslumanns til að fá úrlausn mála varðandi hver á að bera ábyrgð á börnunum, þá er móðurrétturinn sterkastur. Móður rétturinn kemur fyrst, næst réttur barnsins og að endingu réttur föðursins.

Sýslumaður kemur því oftast fyrir þannig að móðirin verður skráður ábyrgaraðili barnsins með þeim hlunnindum sem því fylgir. Barnið skal skráð með lögheimili hjá móður og faðir fær þá um það bil eins mikla umgengni og móðirin leyfir.

Faðirinn verður hins vegar skráður hér um bil ábyrgðarlaus, en þó með “sameiginlega forsjá” sem á Íslandi er næstum eingöngu nafn án réttinda en í öðrum löndum hefur slík réttarstaða þó nokkra þýðingu.

Hinn skráði ábyrgðarlausi faðir ber hins vegar fulla fjárrhagslega ábyrgð á barninu og er meðlagsskyldur. Meðlagið getur orðið að þungri greiðslubirgði ef tekjur föður eru sagðar leyfa það eða ef börnin eru fleiri. Engu skiptir þó hversu meðlagsbirgðin verður þung fyrir þennan föður, því kerfið mun aldrei samþykkja það að þessi maður hafi fyrir nokkru öðru en sjálfum sér að sjá.

Feður sem reyna að sækja þann rétt að vera skráðir ábyrgðaraðilar barns, þurfa að vaða eld og brennistein í kynbundnu réttarkerfi. Baráttan er ekki vonlaus en hún er svo torveld að flestir feður sjá ekki fram á að komast í gegnum þá baráttu. Kerfið sér hins vegar að mestu leiti um baráttuna fyrir mæður.

Eru feður ekki að axla ábyrgð?
Svar: Það þarf að festa foreldrajafnrétti í lög þannig að feðrum sé boðið uppá að axla ábyrgð til jafns við mæður. Ef feður axla ekki ábyrgð eftir að þeir hafa fengið jafna möguleika til þess og mæður þá getum við borið upp þessa spurningu.

Eða halda konur svona fast í börnin?
Svar: Kvenréttindasamtök hafa barist gegn breytingum á barnalögum í átt til foreldrajafnréttis. Kvenréttindasamtök standa í vegi fyrir því að á Íslandi séu barnalög eins og í öðrum V-Evrópuríkjum þar sem barnið kemur í fyrsta sæti og foreldrarnir jafnir þar á eftir. Kvenréttindasamtök halda í þá bábilju að réttur móður eigi að ganga fyrir öllum öðrum rétti því að barnið njóti afleidds réttar móður.

Hvað er best fyrir börnin?
Svar: Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að foreldrajafnrétti er best fyrir börnin. Jöfn foreldraábyrgð, jöfn umgengni, jafnvægi og tveir foreldrar til staðar fyrir barið eftir skilnað er það sem barninu er fyrir bestu.

Það liggur í augum uppi að þessi ábyrgð kvenna á börnum hefur áhrif á launamun kynjanna á vinnumarkaði. Starfsmaður með mikla ábyrgð heima fyrir er líklega ekki eins verðmikill á vinnumarkaði og sá starfsmaður sem getur sinnt starfinu án truflunar að heiman. Það er því kaldhæðið að á sama tíma og kvenréttindasamtök krefjast jafnra launa á vinnumarkaði þá ríghalda þau í einkaréttinn yfir ábygð á börnunum.

-HH

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0