Miðvikudaginn 11. október, 2006 – Aðsent efni

Blessað barnalán - mynd 1  Blessað barnalán - mynd 2 
[ Smelltu til að sjá stærri mynd }

 

Blessað barnalán

Oddný Sturludóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir fjalla um barneignir og fæðingarorlofslögin

Oddný Sturludóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir fjalla um barneignir og fæðingarorlofslögin: “Ráðamenn þjóðarinnar, sama í hvaða flokki þeir standa, ættu að einhenda sér í að gera fæðingarorlofslögin enn betur úr garði, því það skilar arði!”

 

ÞAÐ þykir víst ekki fínt að skrifa um eitthvað sem er augljóst, hvað þá eitthvað sem margir þekkja vel og jafnvel betur en þeir sem hefja pennann á loft. Samt sem áður viljum við vekja máls á því hversu ótrúlegt ævintýri það er að eignast barn. Sumt er kannski ekki eins augljóst og margir vilja halda.

Það er lyginni líkast að ömmur okkar og langömmur skuli hafa alið upp ógrynni af börnum, fyrir tíð einnota bleia, barkalauss þurrkara og barnamatar í krukku. Að hugsa sér að þessar konur séu ekki þjóðhetjur sem fái heiðurslaun samþykkt af Alþingi líkt og fínustu listamenn. Hver einstaklingur sem skilar sér út í atvinnulífið er það dýrmætasta sem þjóðin eignast þrátt fyrir allar útrásir bankanna. Mannauðurinn er og verður alltaf forsenda velsældar á Íslandi.

Skammt á milli barna

Eftir að við gengum í lið með mæðrum landsins hefur okkur ekki staðið á sama um hversu hægt ríkisvaldinu gengur að meta barneignir til fjár. Áhyggjur okkar snúa aðallega að fæðingarorlofslögunum og þeim foreldrum sem eignast tvö börn á stuttum tíma. Fæðingarorlof reiknast sem 80% af meðallaunum tveggja síðustu ára, þremur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. En hafi foreldrið eignast barn stuttu áður og þar af leiðandi tekið fæðingarorlof til að sinna því barni, skerðast tekjur foreldranna sem því nemur, oftast mæðranna því þær taka yfirleitt lengra orlof. Hluti af tekjunum reiknast því sem 80% af 80% launum. Ef viðkomandi foreldrar eru námsmenn og njóta því eingöngu ávaxtanna af svokölluðum fæðingarstyrk (93.000 krónur) er ekki tekið út með sældinni að vera frjósamur á Íslandi í dag. Í hnotskurn letur kerfið þegnana til að eignast börn með stuttu millibili.

Með barn á brjósti

Eitt það albesta við íslensku fæðingaorlofslögin er réttur feðra til töku fæðingarorlofs. Lögin segja til um að samtals megi foreldrar taka níu mánuði í fæðingarorlof, móðir fær þrjá mánuði, feður fá þrjá mánuði og þremur mánuðum mega foreldrar skipta á milli sín. Þessi skipting vefst fyrir mörgum foreldrum vegna brjóstagjafarinnar, allar ljósmæður landsins mæla með því að vera með barn á brjósti í að minnsta kosti sex mánuði og það gerir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, líka. Ef móðirin vill halda því til streitu er snúið að fara út á vinnumarkaðinn eftir þrjá, fjóra eða fimm mánuði, nema með mjög mikilli fyrirhöfn af konunnar hálfu. Í hnotskurn er fæðingarorlofið einfaldlega of stutt.

Gæsla fyrir börn á aldrinum 6 mánaða til 18 mánaða er aðallega í höndum dagforeldra sem starfa sjálfstætt og eru í sumum hverfum borgarinnar af skornum skammti. Þeir örfáu leikskólar sem bjóða upp á vistun fyrir 6-18 mánaða gömul börn eru umsetnir. Flestir foreldrar standa frammi fyrir því að þurfa að “plástra” í nokkra mánuði með tilheyrandi skutli og róti fyrir litla krílið og aðstandendur þess. Þegar níu mánaða fæðingarorlofinu lýkur eru aðrir níu mánuðir framundan og ansi algengt er að móðirin taki árslangt fæðingarorlof á 40% af upprunalegum launum sínum til að sinna barninu. Í hnotskurn þvinga fæðingarorlofslögin foreldra til að sætta sig við þá staðreynd að annað þeirra, oftast móðirin, lifi á 40% af upprunalegum launum sínum. Einstæðar mæður og konur sem eignast barn með útlendingum sem hafa ekki greitt skatta á Íslandi í sex mánuði, fá mest sex mánaða fæðingarorlof. Ef faðir hefur ekki tök á, eða vill ekki nýta sér orlofsrétt sinn, falla þrír mánuðir sem barninu eru ætlaðir til samvista við foreldri sitt, niður. Réttast væri að í tilvikum sem þessum nyti barnið réttindanna, nóg er um álag á einstæðar mæður þó þær þurfi ekki að leita sér að gæsluúrræði við sex mánaða aldur barnsins, úrræði sem eru af skornum skammti. Fæstir smábarnaleikskólanna taka svo ung börn og einstæðir foreldrar fá ekki forgang hjá dagforeldrum en Samfylkingin hefur lagt til að því verði breytt í nýstofnuðu leikskólaráði. Oftast er sex mánaða gamalt barn enn á brjósti og því getur verið snúið að samræma samvistir föðurins og brjóstmylkingsins eftir að móðirin fer að vinna, sérstaklega ef foreldrarnir búa ekki saman. Í hnotskurn fær barn einstæðra foreldra skemmri tíma hjá foreldri á fyrsta æviskeiðinu.

Fjárfesting sem segir sex

Margir þekkja það að eignast barn og hafa áttað sig á mikilvægi foreldrahlutverksins. Það er í þjóðarhag að hlúa vel að barnafólki, börnunum er það fyrir bestu og þau munu erfa landið. Ráðamenn þjóðarinnar, sama í hvaða flokki þeir standa, ættu að einhenda sér í að gera fæðingarorlofslögin enn betur úr garði, því það skilar arði! Ekki nóg með það heldur hefur komið í ljós að með betri lögum um fæðingarorlof eykst frjósemi landans. Góðar fréttir fyrir þjóð sem hefur rúmlega 300.000 þegna. Við þurfum tvímælalaust að fjölga í landsliðinu. Í hnotskurn ættum við öll að fjárfesta í barneignum, það er gríðarlega ábatasöm fjárfesting, svo ekki sé talað um ánægjuna og yndisaukann fyrir land og þjóð.

Höfundar sitja í leikskólaráði fyrir Samfylkinguna.

mbl.is 11.10.06

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0