Óskar F. Jónsson fjallar um forræðismál: “Feðrum dugir ekki að vera jafnhæfir eða hæfari fyrir dómstólum – móðirin þarf að vera óhæf með öllu – til þess að feður standi jafnfætis henni fyrir dómstólum…”

ÞAÐ ER með ólíkindum að framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu skuli draga upp þá brengluðu mynd af niðurstöðum í forsjármálum sem eiga að gefa til kynna að mæður fái forsjá barna sinna í 60% tilfella og feður í 40% eftir skilnað. Ekki er hægt annað en áætla að slíkar blekkingar séu settar fram viljandi, þar sem framkvæmdastjórinn á að vita betur. Lítið sem ekkert hefur Jafnréttisstofa léð máls í baráttu feðra fyrir jöfnum rétti barna sinna við skilnað og sambúðarslit. Auk þess á manneskja í þeirri stöðu sem framkvæmdastjóri tilheyrir að vita betur og koma fram fyrir hönd karla og kvenna að jöfnu.
Hlutföll þau sem framkvæmdastjórinn kýs að nefna aftur og aftur, eru byggð á mjög afmarkaðri rannsókn þar sem einungis er fjallað um þau mál sem fara fyrir dómstóla á árunum 1995-2001. Rannsóknin tók til u.þ.b. 90 dóma í forsjármálum sem teljast aðeins til u.þ.b. 2-3% af skilnaðarmálum á þessu 7 ára tímabili að báðum árum meðtöldum og gefur á engan hátt til kynna þá stöðu sem er í forsjármálum kynjanna á Íslandi. Það segir hverjum heilvita manni að þær tölur sem framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu eru hugleiknar og setur fram í máli sínu eru villandi og ómarktækar með öllu í þessum málaflokki. Á umræddu rannsóknartímabili starfsmanns Jafnréttisstofu hafa líklega verið hátt í 4.000 skilnaðir; sem þýðir að tölur framkvæmdastjóra taka mið af eins og áður segir u.þ.b. 2-3% þeirra mála sem eru í málaflokknum í heild sinni.

Fyrir dómstólum leggur lítill hluti feðra út í þá miklu “helför” að krefjast réttar fyrir börn sín og þeirra sjálfsögðu mannréttinda sem getið er um í Mannréttindasáttmála Evrópu og Barnasáttmála Sameinu þjóðanna er varða okkar rétt og barna okkar. Staðreyndin er sú að á Íslandi er feðrum oftast ráðlagt af fulltrúum sýslumanna og lögmönnum að leita ekki réttar síns og barna sinna fyrir dómstólum vegna þeirra gamaldags viðhorfa, niðurstaðna fyrri dóma og nánast “vonlausra” möguleika sem þeir eiga á þeim bænum. Þar ríkir algert misrétti og að auki vanvirðing og skilningsleysi á stöðu og mikilvægi feðra gagnvart börnum sínum og vart ofsögum sagt að fyrir dómi eigi feður fyrst einhverja möguleika; sé móðir vanheil á geði, eigi við alvarleg áfengisvandamál að stríða, sé ófær um að sinna börnum sínum vegna fíkniefnavanda eða þaðan af verra.

Þetta er sár og ískaldur raunveruleikinn sem blasir við feðrum og börnum þeirra og er það afspyrnuslæmt og til háborinnar skammar fyrir réttarkerfið og samfélagið í heild sinni. Feðrum dugir ekki að vera jafnhæfir eða hæfari fyrir dómstólum – móðirin þarf að vera óhæf með öllu – til þess að feður standi jafnfætis henni fyrir dómstólum í forsjármálum. Dómarar hafa því miður að engu þau viðmið, ef þau koma betur út fyrir föður, viðmið sem ber að huga vel að fyrir niðurstöðu dómsins og hagsmuni barnsins. Heldur er ekkert samræmi í dómum í forsjármálum og virðist fundin eftir hentugleika hvers dómara fyrir sig; “rökleysa” til að verja móðurina og nánast svipta föðurinn rétti sínum til barna sinna eins og fjölmörg dæmi á undarförnum árum og misserum sýna. Því er haldið fram í umræðunni að öll séu þessi mál “einstök” en það eru líka allir einstaklingar.

Sannað er að börn þurfa á báðum foreldrum sínum að halda, ekki síst eftir skilnað. Eins og dómskerfið er í dag tapar annað foreldrið, oftast faðirinn og nánast alltaf börnin. Fyrir dómi er nefnilega ekki hægt að dæma sameiginlega forsjá eins og t.d. í Frakklandi og víðar, íslensku réttarfari til skammar í okkar nútímaþjóðfélagi. Það væri mikil réttarbót ef dómarar fengju heimild til að dæma foreldra í sameiginlega forsjá þar sem foreldrar eru bæði hæf til uppeldis barna sinna.

Samkv. heimildum Hagstofu Íslands eru u.þ.b. 5-600 skilnaðir / sambúðarslit á ári hverju undanfarin ár og ekki ólíklegt að álíka mörg börn séu innvikluð í þau mál. Það eru hins vegar aðrar tölur sem gefa mun gleggri mynd af stöðu mála og eru ekki byggðar á rannsókn starfsmanns Jafnréttisstofu sem þó á allt hrós skilið fyrir gott starf sem eini karlkyns starfsmaður jafnréttisstofu af þeim 6 starfsmönnum sem þar starfa. Staðreynd málsins er sú að á Íslandi lúta börn forsjá móður í yfir 90% tilfella. Meðlagsgreiðendur á Íslandi eru ríflega 12.000, og þar af eru u.þ.b. 96% feður. Þannig er jafnréttið á Íslandi þegar kemur að börnum okkar eftir skilnað.

Framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu er fullkunnugt um öll þessi mál er tilheyra þessum málaflokki. Hafi hún aðra vitneskju um gang mála er skorað á hana kynna sér þessi mál og setja feður einnig á stefnuskrá hjá Jafnréttisstofu. Framkvæmdastjóri getur ekki haldið áfram að skella skollaeyrum við þessum staðreyndum sem fánaberi jafnréttis á Íslandi og í ljósi þess hlýtur Jafnréttisstofa að eiga að vinna að jöfnum rétti karla og kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins.

Óskar F. Jónsson
Höfundur er framkvæmdastjóri og forsjárlaus faðir.
mbl.is Miðvikudaginn 7. desember, 2005 – Aðsent efni

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0