Félag ábyrgra feðra var stofnað fyrir um átta árum, eða árið 1997, í þeim yfirlýsta tilgangi að vinna að bættum samskiptum feðra við börn sín. Félagið vill auka umræðu í samfélaginu um stöðu feðra og hefur meðal annars staðið fyrir nokkrum málþingum um þessi mál.

 

 

Félag ábyrgra feðra vill auk þess efla skilning á því að feður standi höllum fæti gangvart umgengnisrétti við börn sín þegar kemur að skilnaði eða sambúðarslitum. Þeir eru því að mörgu leyti hin sýnilegu lóð karlmanna á vogaskálar jafnréttisumleitanna. Blaðið ræddi við Gísla Gíslason, formann í Félagi ábyrgra feðra, um starfsemina, stöðu Íslands í forsjármálum og hvað þurfi að breytast.

Gamaldags hefðir og úrelt sjónarmið
Aðspurður segir Gísli að hlutverk félagsins sé fyrst og fremst að halda utan um allt sem viðkemur forsjármálum og réttindum feðra eftir skilnað. „Við erum þau samtök sem að látum í okkur heyra því að okkur finnst jafnréttið vera mjög lítið þegar að kemur að forsjármálum. Yfir 90% barna hafa lögheimili hjá móður eftir skilnað. 96% meðlagsgreiðenda eru feður. Það segir meira en margt annað um stöðuna,“ segir Gísli bætir við að móðirin þurfi að eiga við einhverskonar stórkostleg vandamál að stríða eins og fíkniefnaneyslu eða geðveiki til þess að feðrum sé falið forræði barna. „Það þarf að sannast að konan sé með öllu óhæf. Það er bara þannig, því miður, að kerfið er mjög hliðhollt konum. Það er gamaldags hefð og úrelt sjónarmið sem ráða för í dómum um forsjármál á Íslandi.”
Gísli segir að karlmenn séu greinilega útundan í þeirri umræðu sem hefur verið í gangi undanfarin ár og hefur meðal annars bætt réttindarstöðu kvenna og samkynhneigðra gífurlega mikið. „Það er náttúrulega engin spurning. Það er ekki gert ráð fyrir því að karlar séu hæfir til þess að sinna börnum sínum eftir skilnað en að sama skapi er farið fram á að þeir taki jafnan þátt í uppeldi barnanna í hjónabandi eða sambúðum sem þeir eru í langflestum tilfellum,“ segir Gísli.

Sniðgengnir af ríkisvaldinu
Gísli segir að félagið reyni eftir besta megni að veita faglega aðstoð þeim sem eftir slíku sækjast, það sé þó erfitt enda ekki úr miklu að spila. „ Alþingi, stjórnvöld og ráðuneyti hafa sýnt þessum málum takmarkaðan skilning. Sem dæmi fá Ábyrgir Feður um þriðjung á fjárlögum ávið Félag Einstæðra foreldra. Félagið hefur verið að beita sér fyrir því við dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið að jafna forsjárrétt. Við erum stöðugt að skoða mjög grant alla dóma í þessu samhengi og aðstoða feður sem lenda í hremmingum innan kerfisins.“
Gísli segir að um 500 menn séu skráðir meðlimir í Félagi ábyrgra feðra. „Þeir eru þó mismunandi virkir. Það virðist oft vera þannig að menn gangi í samtökin á meðan að á málum þeirra stendur. Síðan ná margir samningum við fyrrverandi maka um umgengnisrétt. En margir eru dyggir félagsmenn.“ Gísli segir ennfremur að spjallrásir á netinu og símaráðgjöf sem Félag ábyrgra feðra býður upp á sé mjög mikið notað. „Það eru oft 2-4 símtöl sem eru að berast á dag. Það fer reyndar svolítið eftir árstíðum. Það er mest í janúar og febrúar, eftir hátíðarnar, en svo kemur lægð yfir sumartímann,“ segir Gísli og bætir við að svo virðist vera að það sé tilhneiging hjá fólki að halda málum góðum yfir jólin áður en að skilnaðarferlið hefst.

Aukin vakning og meiri skilningur
Félag ábyrgra feðra er í samstarfi við önnur sambærileg samtök, meðal annars í Noregi,Svíþjóð, Danmörku og Englandi og hafa verið að skoða baráttu feðra í öðrum löndum afar gaumgæfilega. Honum finnst greinilega vera mikil vakning og meiri skilningur á þessum málum en áður var og nefnir sérstaklega nýtt frumvarp til laga um breytingar á barnalögum sem var lagt fyrir í október síðastliðnum og er í málsmeðferð á Alþingi. Frumvarpið er mikilvægt skref en gegnur samt ekki nógu langt, m.a. munu dómarar ekki fá heimild til að dæma fólk í sameiginlega forsjá, heldur verða þeir ávallt að svipta annað foreldrið forsjá. „Dögg Pálsdóttir, lögmaður, og fleiri hafa unnið að þessu í forsjárnefnd. Þannig að það er klárlega vakning, það er að aukast skilningur á því að börn þurfa jafn mikið á feðrum sínum að halda og mæðrum. Ég held þó að við séum frekar eftir á heldur en hitt hér á landi. Í Frakklandi, Sviþjóð og Bretlandi er dómurum gefin heimild til þess að dæma foreldrum sameiginlega forsjá, sem er einmitt undirstöðukrafan í okkar boðskap. Þar segir að tímabundið ósamkomulag foreldra er ekki nógu góð ástæða til að svipta hæft foreldri forsjá. Á Ísland geta dómarar hins vegar ekki dæmt sameiginlega forsjá þrátt fyrir að foreldrarnir séu báðir jafn hæfir né að það sé sannað að börnunum sé best borgið hjá báðum foreldrum. Það er því alltaf þannig hér á landi að annað foreldrið tapar, oftast barnsfaðirinn, móðirin vinnur en börnin tapa alltaf.“

t.juliusson@vbl.is
Blaðið 13. des 2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0