UMBOÐSMAÐUR Alþingis telur að skort hafi á að gjafsóknarnefnd og dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi leyst úr beiðni föður um gjafsókn í forsjármáli með fullnægjandi hætti. Maðurinn kvartaði yfir því við umboðsmanninn að ráðuneytið synjaði umsókn hans en hann hugðist fara í mál fyrir héraðsdómi gegn barnsmóður sinni vegna forsjár tveggja barna þeirra. Ráðuneytið synjaði beiðninni.

Barnalög ganga út frá því að foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, geti krafist forsjárbreytingar fyrir dómi í framhaldi af fyrri dómsúrlausn, enda telji dómur að forsendur hafi breyst frá uppkvaðningu fyrri dóms og að forsjárbreytingin sé til hagsbóta fyrir barnið, að því er fram kemur í áliti umboðsmannsins. Synjun ráðuneytisins á málaleitan mannsins byggðist á því að Hæstiréttur hefði áður dæmt í forsjármáli hans og barnsmóðurinnar og ekki yrði séð af framlögðum gögnum að aðstæður hefðu breyst svo að ætla mætti að niðurstaða málsins yrði önnur.

Taki málið til meðferðar að nýju ef maðurinn óskar þess
Umboðsmaður benti m.a. á að gjafsóknarnefnd hefði ekki talið ástæðu til að draga í efa staðhæfingar mannsins um breyttar aðstæður hans og að hæstaréttardómurinn fjallaði einungis um forsjá dótturinnar en ekki sonarins. Því hefði ekki verið hægt að ganga út frá því að dómurinn hefði skorið úr öllum álitaefnum sem uppi væru í málinu sem maðurinn hugðist höfða, enda varðaði það forsjá beggja barnanna.
Þá benti umboðsmaður á að í gjafsóknarbeiðni mannsins hefði komið fram að barnsmóðirin hefði tálmað umgengni hans við börnin. Umboðsmaður kvaðst ekki sjá, í ljósi ákvæðis barnalaga, með hvaða rökum gjafsóknarnefnd og ráðuneytið gætu fullyrt að slík tálmun á umgengni myndi ekki skipta sköpum um niðurstöðu í dómsmáli um forsjá barnanna.

Það var einnig niðurstaða umboðsmanns að dráttur á meðferð málsins hefði ekki verið skýrður með fullnægjandi hætti. Beindi hann þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það tæki mál mannsins til meðferðar að nýju, ef hann óskaði þess, og leysti þá úr því í samræmi við sjónarmið sem fram koma í áliti umboðsmanns.

mbl.is Miðvikudaginn 11. janúar, 2006 – Innlendar fréttir
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0