Gísli Gíslason
SKATTALÖGGJÖFIN: Í barnalögum (nr 76/2003) er kveðið á um framfærsluskyldu foreldra. Þar segir í 53. gr. “Skylt er foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, að framfæra barn sitt. Framfærslu barns skal haga af hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns.”
Þegar foreldrar búa ekki saman sinna báðir foreldrar daglegri framfærslu þann tíma sem barnið er hjá þeim. Barnið hefur lögheimili hjá öðru foreldrinu. Meðlag er millifært til lögheimilisforeldrisins frá því foreldri sem barn hefur ekki lögheimili hjá. Lögheimilisforeldrið getur krafið hitt foreldrið um greiðslu vegna ýmissa stærri útgjalda. Lögheimilisforeldrið getur einnig sótt aukið meðlag, séu tekjur hins foreldrisins yfir viðmiðunartöflu sem búin var til í dómsmálaráðuneytinu árið 1992 og hefur verið uppfærð síðan.
Báðir foreldrar hafa því ávallt nákvæmlega sömu framfærsluskyldu gagnvart barni sínu.
Ef hvorugt foreldri er í sambúð með nýjum maka, flokkast lögheimilisforeldrið skattalega sem einstætt foreldri en hitt foreldrið sem barnlaus einstaklingur. Einnig í sameiginlegri forsjá hefur lögheimilisforeldrið ávallt skattalega og að flestu leyti stöðu einstæðs foreldris. Lögheimilisforeldrið nýtur barnabóta, vaxtabóta eða húsaleigubóta ásamt því að fá mæðra/feðralaun sem einstætt foreldri. Hitt foreldrið skattleggst aftur á móti eins og barnlaus einstaklingur. Þrátt fyrir að báðir foreldrar beri alltaf sömu framfærsluskyldu er skattaleg staða þeirra mjög ólík eftir því hvar barnið hefur lögheimili.
Í 65. gr stjórnarskrárinnar, er kveðið á um að allir skulu jafnir vera fyrir lögum. Skattaleg mismunun á milli lögheimilis og ekki lögheimilis foreldra, þar sem báðir foreldrar hafa ávallt sömu framfærsluskyldu, hlýtur að vera brot á 65. gr stjórnarskrárinnar.
Staða forsárlausra (=ekki lögheimilis) foreldra væri betri, bæði félagslega og fjárhagslega ef þeir nytu réttlætis í skattalegu tilliti og ef núverandi meðlagskerfi væri í einhverju takti við nútímann. Bæði löggjafinn og framkvæmdavaldið þurfa að taka til í eigin ranni.

 

Höfundur er formaður Félags ábyrgra feðra og barnlaus faðir tveggja barna skv. íslenskum skattalögum.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0