„Sumar reiðar konur reyndu því miður að nota sjúklega hegðun barnsins sem sönnun þess að heimsóknir [til föðurins] væru skaðlegar velferð barnsins og þess vegna ætti að hætta þeim og valda barninu þarmeð enn meiri vansæld“. Joan Berlin Kelly og Judith S. Wallerstein, Surviving the Breakup.

Það er því miður of oft sem forsjármæður finna að því að börnin verði óróleg daginn sem þau eiga að hitta pabba, eða jafnvel daginn áður, svo ekki sé minnst á það hvað börnunum líður illa þegar þau koma aftur frá pabba til móður sinnar. Þetta telja slíkar mæður vera til merkis um það hvað samveran með föðurnum valdi þeim miklu uppnámi og sé ekki gott fyrir velferð barnanna. Það er hárrétt að barninu líður illa. Rétt er að endurtaka: BARNINU LÍÐUR ILLA.

En það er nauðsynlegt að árétta að barninu líður illa af því að foreldrarnir skildu og togast á um barnið. Barninu líður ekki illa af því það heimsótti pabba sinn. Heimur þess og líf eru tvískipt. Manneskjurnar tvær sem það elskar öllum öðrum fremur eru ekki lengur saman. Þetta er að slíta það í sundur. En hvernig líður mæðrunum? Eða feðrunum? Finna börnin kannski að foreldrunum líður illa? Allt bendir til að þetta sé ekki sísta ástæðan fyrir vanlíðan barnsins: það finnur vansæld foreldranna. Pabbinn er grútspældur og gráti nær að börnin skuli alltaf vera hjá mömmu; mömmu líður eins að missa börnin í nokkra daga; og pabba líður líka þannig þegar börnin fara aftur til mömmu.

Hvaða fráskilið foreldri þekkir ekki þennan aðskilnaðarkvíða? Auðvitað þekkja börnin hann, jafnvel betur en foreldrarnir. Þau hafa bara ekki orð yfir þetta. „Ég hlakka til að fara til mömmu, en leiðist að vera að fara frá þér, pabbi.“ Þannig birtist togstreitan beint í orðum (og sál) barnsins.

Þennan aðskilnaðarkvíða er nauðsynlegt að ræða við forsjárforeldrið (móðurina), þó ekki væri nema til að nefna hann og gefa honum orð. Það er líka sjálfsagt að ræða þetta við barnið, hvernig því líði með að fara svona á milli. Ef foreldrarnir eiga erfitt með þessi samskipti vegna umgegninnar þá ættu þeir að velta fyrir sér hvernig þetta slítur líf barnsins og sál í sundur. Barnið vill ekki taka afstöðu með öðru og á móti hinu, heldur einmitt elska bæði af öllu hjarta. Foreldrarnir eiga að hjálpa barninu að gera einmitt það, og hvorki innræta því hatur á hinu né að veran hjá hinu sé slæm heldur einmitt að það sé gott fyrir barnið að umgangast báða foreldra sína því engar tvær manneskjur í veröldinni elskar það eins mikið.

Félag ábyrgra feðra vill eindregið mæla með því að feður hlúi vel að börnum sínum í þessum aðskilnaðarkvíða. Gott er að faðma barnið að sér og tjá því væntumþykju sína, skýra málið fyrir því eða ræða við það um stöðuna. Sú hlýja sem barnið finnur með þessu móti er besta vörnin sem hugsast getur því hún bindur barnið foreldri sínu (föður) og styrkir það til frekari átaka við lífið. Þannig er hægt að snúa áfallinu sem skilnaðurinn er upp í styrk sem barnið býr að alla ævi.

Garðar Baldvinsson

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0