Samningu Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálinn) á 28 ára afmæli í dag á alþjóðlegum degi barnsins og í tilefni af því verður hér fjallað um tengsl Félags um foreldrajafnrétti við Barnasáttmálann.

Megin markmið Félags um foreldrajafnrétti er að krefja og hvetja stjórnvöld til að setja löggjöf til að tryggja réttindi barnsins samkvæmt Barnasáttmálanum sbr. 4. gr. sáttmálans og öll málefni félagsins eiga sér stoð í sáttmálanum. Ef íslensk stjórnvöld væru búin að innleiða að fullu ákvæði Barnasáttmálans í íslenska löggjöf og stjórnsýslu þá væri ekki lengur þörf fyrir þá baráttu sem félagið beitir sér fyrir.

Nafn Félags um foreldrajafnrétti vísar til 2., 5., 14., og 18. gr. Barnasáttmálans. Í 2. gr. er kveðið á um að réttur barns samkvæmt samningnum skuli vera án mismununar af nokkru tagi gagnvart barni eða aðstæðum foreldra þess. Í 5. gr. er kveðið á um að virða skuli ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra og stórfjölskyldu. Í 14. gr. segir að ríki skuli virða rétt og skyldur foreldra til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar á þann hátt sem samræmist vaxandi þroska þess. Í 18. gr. er gerð krafa á stjórnvöld að þau geri það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska og veiti foreldrum viðeigandi aðstoð til að rækja uppeldisskyldur sínar.

Félag um foreldrajafnrétti berst fyrir rétti barns til að þekkja og njóta umönnunar beggja líffræðilegu foreldra sinna í samræmi við 7. og 8. gr. Barnasáttmálans. Í 7. gr. segir að barn skal skráð þegar eftir fæðingu, og á það frá fæðingu rétt til nafns, rétt til að öðlast ríkisfang, og eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Í 8. gr. segir að stjórnvöld skuli virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum.

Eitt af helstu baráttumálum félagsins hefur verið að löggjafinn setji á virk úrræði til að stöðva ólögmætar umgengnistálmanir. Fjölskyldutengsl er eitt af því sem auðkennir barn sem einstakling sbr. 7. gr. Barnasáttmálans. Þar segir einnig að sé barn ólöglega svipt einhverju eða öllu því sem auðkennir það sem einstakling skuli stjórnvöld veita viðeigandi aðstoð og vernd í því skyni að bæta úr því sem fyrst.

Foreldrajafnrétti hefur sérstaklega bent á það andlega ofbeldi gegn barni sem felst í umgengnistálmunum eða takmörkun á umgengni. Í 19. gr. Barnasáttmálans er fjallað um skyldur stjórnvalda til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum þar sem barn hefur sætt illri meðferð. Í 1. mgr. 19. gr. er kveðið á um að stjórnvöld skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan þar er í umsjá annars eða beggja foreldra, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.

Foreldrajafnrétti hefur lagst gegn því að annað foreldrið geti flutt búferlum um langan veg með barn án þess að fyrir liggi samþykki frá hinu foreldrinu og komið þannig í veg fyrir eðlilegar samvistir með báðum foreldrum. Í 9. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um að stjórnvöld eigi að tryggja það að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Þegar aðskilnaður er nauðsynlegur þá skulu stjórnvöld jafnframt virða rétt barns til þess að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti.

Foreldrajafnrétti hefur bent á þann mikla aðstöðu mun sem foreldrum er búið þegar foreldrar búa ekki saman. Stjórnvöldum ber að styðja með sama hætti við bæði heimili barns sbr. 2. og 27. gr. Barnasáttmálans. Í 27. gr. viðurkenna stjórnvöld rétt hvers barns til lífsafkomu sem nægir því til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðilegum og félagslegum þroska. Foreldrar eða aðrir sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns, bera höfuðábyrgð á því í samræmi við getu sína og fjárhagsaðstæður að sjá barni fyrir þeim lífsskilyrðum sem eru því nauðsynleg til að komast til þroska. Stjórnvöld skulu í samræmi við aðstæður sínar og efni gera viðeigandi ráðstafanir til að veita foreldrum og öðrum sem ábyrgir eru fyrir uppeldi barns aðstoð til að neyta þessa réttar, og skulu þegar þörf krefur láta í té efnislega aðstoð og sjá fyrir stuðningsúrræðum, einkum að því er fæði, klæðnað og húsnæði snertir.

Í 3. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. Rannsóknir á líðan barna gefa sterka vísbendingu um að það er börnum fyrir bestu að vera sem mest með báðum foreldrum. Ef foreldrar búa ekki saman að börn séu þá til jafns á báðum heimilum. Afgerandi neikvæður munur mælist á líðan barna sem dveljast mest eða alveg hjá öðru foreldri sínu.

-HH

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0