Þann 20. nóvember 1989 varð til Samningur sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þremur árum síðar eða 2. nóvember 1992 staðfesti Alþingi Íslendinga þennan samning og þóttust menn meiri að tryggja börnum þessi réttindi. Hins vegar þegar Alþingi staðfestir samninginn, þá er í raun var aðeins verið að staðfesta að þessi samningur sé til en samingurinn hefur ekkert lagalegt gildi á Íslandi.

Nú meira en 20 árum síðar er enn ekki búið að lögfesta þenna mikilvæga samning um réttindi barnsins á Íslandi. Útilokað er því að vísa í þennan samning þegar brotið er á íslenskum börnum.

Félag um foreldrajafnrétti telur að stjórnvöld, þá sérstaklega löggjafinn en einnig framkvæmdar- og dómsvaldið brjóti gegn mörgun ákvæðum Barnasáttmálans þegar kemur að skilnaðarbörnum eða börnum sem eiga foreldra á tveimur heimilum.

Hér má finna Barnasáttmálann á heimasíðu Alþingis.

Barnasáttmálinn og Foreldrajafnrétti:

Barnasáttmálinn, 2. gr. kveður á um að réttur barna samkvæmt samningnum skuli vera án mismununar af nokkru tagi gagnvart barni eða aðstæðum foreldra þess. 2. gr. segir því skýrt að „foreldrajafnrétti“ skuli ríkja í hvívetna.

Barnasáttmálinn, 3. gr. kveður á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang. 3. gr. segir því í raun að „foreldrajafnrétti“ skuli ríkja því um leið og hagsmunir annars foreldris eru teknir fram yfir hagsmuni hins foreldrisins þá verða hagsmunir barna útundan.

Barnasáttmálinn, 4. gr. gerir kröfu á aðildarríki að setja löggjöf til að tryggja réttindi barnsins samkvæmt samningi þessum. Félag um foreldrajafnrétti hefur það hlutverk að hvetja stjórnvöld til að uppfylla þessa grein samningsins með lagasetningu.

Barnasáttmálinn, 5. gr. kveður á um að aðildarríki skuli virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra og stórfjölskyldu. Það er talið börnum gott að njóta stuðnings afa og ömmu ásamt öðrum úr stórfjölskyldunni til viðbótar við foreldra sína. Félag um foreldrajafnrétti hvetur til sem jafnastar umgengni foreldra eftir skilnað til að mynda til þess að ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra og stórfjölskyldunnar séu virtar eins og vera ber samkvæmt þessari grein.

Barnasáttmálinn, 7. gr. kveður á um rétt barns til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. 7. gr. er að fara fram á meira en að barn þekki nafn foreldra sinna. Hér er kveðið á um að barn eigi rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Foreldrajafnrétti stendur upp fyrir hóp skilnaðarbarna þannig að þau megi njóta þess réttar sem hér er kveðið á um. Börn eiga rétt samkvæmt þessari grein á að njóta umönnunar beggja foreldra sinna hvort sem foreldrar búa saman eður ei enda segir 2. gr. sáttmálans að ekki megi mismuna á grundvelli aðstæðna foreldra.

Barnasáttmálinn, 8. gr. kveður á um að aðildarríki eigi að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling og þar með fjölskyldutengslum sínum. Greinin kveður einnig á um að aðildarríki skulu veita viðeigandi aðstoð og vernd í því skyndi að bæta úr því sem fyrst ef barn er svipt einhverju svo sem fjölskyldutengslum með ólögmætum hætti. 8. gr. tekur því á skyldu aðildarríkis til að bregðast við með skjótum hætti þegar umgengnistálmanir eiga sér stað. Stjórnvöld eiga að tryggja það að barn njóti samvista við fjölskyldu sína og að umgengni sé ekki tálmað.

Barnasáttmálinn, 9. gr. kveður á um að aðildarríki eigi að tryggja það að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Jafnvel þegar foreldrar búa ekki saman er aðeins talað um þegar um nauðsynlegan aðskilnað er að ræða. Þegar aðskilnaður er nauðsynlegur vegna þess að foreldrar búa ekki saman þá skal aðildarríki jafnframt virða rétt barns til þess að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti. Við alla málsmeðferð samkvæmt 1. tölul. 9.gr. skal veita öllum aðilum sem hagsmuna hafa að gæta kost á að taka þátt í málsmeðferð og að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum.

Barnasáttmálinn, 12. gr. kveður á um að aðildarríki skuli trygga barni rétt til að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem það varðar og að réttmætt tillit verði tekið til þeirra í samræmi við aldur og þroska. 12. gr. segir því að forsjá skuli ekki flytjast sjálfkrafa til stjúpforeldris og er í samræmi við stefnu Foreldrajafnréttis.

Barnasáttmálinn, 14. gr. segir að ríki skuli virða rétt og skyldur foreldra til að veita barni leiðsögn við að beita rétti sínum.

Barnasáttmálinn, 18. gr. segir að aðildarríki skuli gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns og komi því til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera í fyrsta sæti og aðildarríki skulu veita foreldrum viðeigandi aðstoð til að rækja uppeldisskyldur sínar. Foreldrajafnrétti stendur vörð um 18. gr. sáttmálans.

Barnasáttmálinn, 19. gr. kveður á að ríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni. 19. gr. fjallar einnig um skyldur ríkja til þess að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum þar sem barn hefur sætt illri meðferð. Einnig ber aðildarríkjum að veita barni og foreldri nauðsynlegan stuðning. Foreldrajafnrétti hefur sérstaklega bent á það andlega ofbeldi sem felst í tilefnislausum umgengnistálmunum og fjölskyldusviptingu, en þar eru stjórnvöld að brjóta mjög alvarlega á 19. gr. Barnasáttmálans.

Barnasáttmálinn, 23. gr. kveður á um skyldur aðildarríkja gagnvart fötluðum börnum, meðal annars rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar og að barni og þeim sem sjá um umönnun þess verði veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra. Jafnframt að aðstoð þessi verði veitt ókeypis þegar unnt er með hliðsjón af efnahag foreldra. Foreldrajafnrétti stendur vörð um 23. gr. sáttmálans hvað varðar umönnunarbætur til foreldra sem fara ekki með lögheimili barns en sinna engu að síður umönnun barns. Íslensk stjórnvöld brjóta á 23. gr. sáttmálans hvað það varðar.

Barnasáttmálinn, 27. gr. kveður á um skyldu aðildarríkja til að veita foreldrum aðstoð til að við lífsafkomu barnsins til að ná líkamlegum, sálrænum, andlegum, siðferðislegum og félagslegum þroska. Í því skyni skulu aðildarríki láta í té efnislega aðstoð og sjá fyrir stuðningsúrræðum. Mikill fjöldi barna dvelur langtímum hjá foreldrum sem fara ekki með lögheimili barns. Íslenska ríkið er ekki að uppfylla 27. gr. sáttmálans hvað varðar aðbúnað á þeim heimilum.

 

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0