Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fjallaði nýlega um skýrslur Íslands um framkvæmd bókunar við samninginn um réttindi barna, um þátttöku barna í vopnuðum átökum og framkvæmd bókunar við samninginn um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám.

Vegna fyrirtöku íslensku skýrslnanna fór sendinefnd frá Íslandi fyrir Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Í fréttatilkynningu frá Mannréttindastofu Íslands segir að sérfæðinganefndin hafi óskað eftir frekari upplýsingum m.a. um tíðni kynferðisbrota gegn börnum á Íslandi, bótafjárhæðir í dómsmálum, stuðning við fórnarlömb kynferðisbrota og vopnaðra áttaka og það hvort yfirvöld hygðust gera aðgerðaáætlun til að vinna gegn kynferðisbrotum gegn börnum.

Þá var óskað eftir upplýsingum um þátttöku Íslands í alþjóðastarfi til verndar börnum, einkum gegn sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi og framlög til alþjóðastarfs sem spornar gegn þátttöku barna í vopnuðum átökum.

Á fundinum sem var síðast liðinn föstudag, báðu sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna íslensku sendinefndina m.a. um að skýra gildi alþjóðlegra mannréttindasamninga fyrir íslenskum rétti og hvöttu stjórnvöld til að taka til athugunar að gera herskráningu barna yngri en 15 refsiverða eftir íslenskum hegningarlögum, óháð því hvar brotið er framið eða af hverjum.

Sérfræðingarnir fögnuðu nýlegum lagabreytingum sem miða að aukinni vernd til handa börnum og löggjöf gegn mansali en töldu að enn mætti bæta um betur.

Einn nefndarmanna vakti máls á hugsanlegu afnámi fyrningarfrests í kynferðisbrotamálum gagnvart börnum. Sérfræðingarnir lýstu ánægju sinni með þeir Íslandi væri herlaust land en þeim lék forvitni á að vita hvort börn tækju þátt í vopnuðu friðargæsluliði Íslendinga.

Formaður nefndarinnar fagnaði auknum framlögum Íslands til þróunarsamvinnu en benti jafnframt á að takmarkið 0,35% af landsframleiðslu árið 2009 væri enn langt frá viðmiði Sameinuðu þjóðanna um að aðildarríki veiti 0.7% af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar.

Þá ræddu nefndarmenn forvarnir og stuðning við fórnarlömb kynferðisofbeldis og vopnaðra átaka og óskuðu upplýsinga um fræðslu til fagaðila og barna til að koma í veg fyrir, og bregðast við, kynferðisofbeldi en einnig var fjallað um hlutverk fjölmiðla í þessu sambandi.

Sendinefnd Íslands mun hafa svarað spurningum nefndarinnar skilmerkilega; sendinefndin sagði m.a. frá fyrirhuguðum lagabreytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, þátttöku í alþjóðastarfi gegn mansali og starfsemi Barnahúss, barnaverndarnefnda og styrkra félagasamtaka.

Fram kom einnig að Ísland væri reiðubúið að gera nauðsynlegar breytingar til að fullnægja öllum skyldum sínum vegna viðaukanna tveggja. Nefndarmenn hældu Íslandi fyrir virkt barnaverndarkerfi og hvöttu íslensk stjórnvöld, vegna framúrskarandi stöðu sinnar á sviði barnaverndar, til að beita sér fyrir auknum réttindum barna á alþjóðavettvangi, m.a. með því að stuðla að því að fleiri ríki fullgildi viðaukana við Barnasáttmálann.

Á næstu dögum er að vænta lokaathugasemda nefndarinnar um framfylgd Íslands á skuldbindingum samkvæmt viðaukunum tveimur.

mbl.is
Innlent | mbl.is | 30.5.2006 | 17:36

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0