Ögmundur Jónasson treysti sér ekki til þess að ræða barnalögin af nokkurri þekkingu eða viti þegar hann mælti fyrir nýju frumvarpi til breytinga á barnalögum og þingmenn hlógu að vanþekkingu ráðherrans.

En nú liggur það fyrir að Ögmundur hefur umturnað allri þeirri vinnu sem lögð hefur verið í þessa frumvarpsgerð. Ísland verður áfram eina landið í V-Evrópu sem treystir ekki dómurum til þess að dæma í sameiginlega forsjá þegar það er barni fyrir bestu ef áform ráðherrans verða að veruleika.

Þingmennirnir Margrét Tryggvadóttir og Guðmundur Steingrímsson lýstu bæðu yfir miklum vonbrigðum með frumvarpið enda búið að taka út megintilgang þess. Guðmundur benti meðal annars á að þó dómaraheimildin hafi verið tekin út úr frumvarpinu þá standa enn inni í frumvarpinu rökin fyrir því af hverju heimila beri dómara að dæma í sameiginlega forsjá. Aðeins niðurstöðunni var breitt. Óhætt er að segja að það bendi til þess að um geðþóttaákvörðun ráðherra hafi verið að ræða.

Tvær nefndir hafa lagt mikla vinnu í að finna hvernig best sé að breyta barnalögunum. Fyrst fjölmenn nefnd um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum á vegum Félagsmálaráðuneytisins en sú nefnd skilaði af sér mörgum góðum tillögum til breytinga á barnalögum árið 2009. Önnur nefnd á vegum Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var sett á til þess að skrifa frumvarp sem tæki meðal annars mið af niðurstöðum fyrri nefndar og sérstök áhersla var lögð á dómaraheimildina. Seinni nefndin skilaði af sér drögum að frumvarpi í ársbyrjun 2010 þar sem lítill hluti þessara góðu tillagna fékk brautargengi. Heimild dómara til þess að dæma í sameiginlega forsjá var þó inni í drögunum og meirihlutinn af frumvarpinu var skrifaður utan um þessa nýju heimild dómara.

Nú hefur Ögmundur ákveðið án nokkurra haldbærra skýringa að fjarlægja dómaraheimildina og stendur þá varla nokkuð eftir nema litlar leifar af góðum ásetningi fyrri ráðherra. Ein mjög svo sérstök röksemd ráðherrans er sú að: “Reynslan sýnir að mat dómarans hefur iðulega verið slæmt fyrir barnið og friðinn sem á að ríkja um það”. Eða með öðrum orðum þá lýsir ráðherra dómsmála algjöru vantrausti á dómstóla og dómara þeirra.

Einnig vísaði ráðherrann í ógerðar en væntanlegar norrænar rannsóknir að órannsökuðu máli sem benda til þess að dómaraheimild sé ekki góð. Hann talaði hins vegar ekkert um þær rannsóknir, reynslu og umræðu sem liggja fyrir og urðu til þess að dómaraheimild er í öllum ríkjum V-Evrópu að Íslandi undanskyldu.

Ögmundur talaði mikið og mest um sáttameðferðina sem lögfesta á með frumvarpi þessu. Honum var hins vegar fátt um svör þegar þingmaðurinn Íris Róberts spurðist fyrir um hvernig ætti að fjármagna og útfæra þessa sáttameðferð. Ekki bar á öðru í umræðunni en að hvorki hafi verið gert ráð fyrir fjármagni til þess að standa straum að sáttameðferðinni né heldur að slík vinna hafi verið útfærð með nokkrum hætti. Ögmundur tók undir með þingmanni að án fjármagns væri þessi breyting ekki til neins.

Þingmaðurinn Jónína Rós Guðmundsdóttir benti ráðherra á að ekki væri tekið á faðernismálum í frumvarpinu. Það er að segja að ef karlmaður telur sig föður barns sem móðir hefur feðrað öðrum manni, þá er þessum karlmanni allar bjargir bannaðar. Hann má ekki höfða mál. Jónína benti á þá staðreynd að með þessu móti þá brjóti barnalögin gegn mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands þar sem allir eiga að geta leitað réttar síns fyrir dómstólum. Ögmundur svaraði með þeim hætti að þetta atriði væri ekki viðfangsefni frumvarpsins.

Ögmundur lét ekki nægja að gefa lítið fyrir þessi mannréttindabrot í barnalögum heldur bætti úr betur og talaði mikið um að hann efaðist um réttmæti þess að koma á umgengni með aðfarargerð. Aðfarargerð er eina haldbæra aðferðin sem barnalögin bjóða uppá í dag til þess að koma á umgengni þegar tálmunarforeldri hefur einbeittan brotavilja. Í greinargerð með barnalögum frá 2003 kemur fram að “af hálfu Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið litið svo á að skortur á að ríki framfylgi lögmætri umgengnisákvörðun yfirvalda á viðeigandi og fullnægjandi hátt geti talist brot gegn 8. gr.mannréttindasáttmála Evrópu”. Aðfaragerð var sett inn í barnalögin sem tilraun til þess að sporna við þessum mannréttindabrotum, en Ögmundur vill taka þetta út, jafnvel án þess að koma með viðunandi lausn. Viðunandi og sjálfsögð lausn væri að viðurkenna tálmun sem ofbeldi á barni enda afleiðingar tálmunar á barn áþekkar afleiðingum af öðru alvarlegu ofbeldi. Barninu væri þá komið til bjargar með því að fjarlægja ofbeldisforeldrið.

Ráðherra virðist vera nokkuð sama um hvort barnalögin innihaldi mannréttindabrot svo framarlega að þau bitni minnst á konum og engu líkara en að hann skilji mannréttindi og kvenréttindi að sem tvö ótengd hugtök. Margrét Tryggvadóttir sagði frumvarpið einskorðast af einstefnujafnrétti og þá sérstaklega 13. gr. um dóma í forsjármálum. Hún bendir á að þegar um ofbeldi er að ræða þá verði að rannsaka málið og það sé alls ekki sjálfgefið að það sé karlmaðurinn sem sé ofbeldis maðurinn í sambandinu, það geti allt eins verið konan og hver eigi þá að sjá til þess að barnið fari til þess foreldris sem ekki beitir ofbeldi. Ráðherra svarar með útúrsnúningi og segir að hér sé um að ræða einstefnuréttlæti en ekki einstefnujafnrétti og bendir á “hagsmuni barns”.

Eftir að ráðherra hafði lokið kynningu sinni á frumvarpi til breytinga á barnalögum þá hóf Guðmundur Steingrímsson umræðu um tvö veigamikil mál sem ættu heima í frumvarpinu. Ræða Guðmundar er góð og ég mæli með að þið hlustið.

Ræða Guðmundar Steingrímssonar.

-HH