Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna, eins og við þekkjum hana, hefur staðið í rúma öld. Þetta hefur fyrst og fremst verið barátta kvenna fyrir réttindum sínum; að brjótast út úr hefðbundnu kynhlutverki inni á heimilinu; að ná völdum og áhrifum í samfélaginu til jafns við karla; að fá að hugsa og gera það sem þeim sýnist.

 

 

Áratugum saman snerist jafnréttisbaráttan ekki sízt um það hvað konur mættu eða mættu ekki gera. Máttu þær ganga í menntaskóla eða háskóla eins og karlar? Máttu þær fá kosningarétt og kjörgengi? Máttu þær verða prestar, lögregluþjónar, forseti? Máttu þær ganga í buxum? Máttu þær reykja? Í sumum tilfellum fólust svörin í formlegum réttindum eða lagasetningu, í öðrum fyrst og fremst í samfélagslegri viðurkenningu. Þær, sem tóku að sér hlutverk brautryðjendanna, þurftu iðulega bæði að berjast fyrir viðurkenningu karla og annarra kvenna á því að fá að stíga inn á yfirráðasvæði karla.
Á hundrað árum hefur hlutverk kvenna í samfélaginu breytzt gífurlega. Og konur hafa breytzt; ungar konur hafa allt aðrar hugmyndir um stöðu sína og hlutverk en ömmur þeirra eða langömmur. Konur hafa sótt inn á hér um bil öll svið, sem áður voru frátekin fyrir karla, þótt þær standi þeim hreint ekki alls staðar jafnfætis.

En hvað með karlana? Hafa þeir breytzt? Hefur hlutverk karlmannsins, eða hugmyndir okkar um það, tekið breytingum? Hafa karlar sótt inn á svið, sem áður voru frátekin fyrir konur? Þurfa þeir þess yfirleitt? Vilja þeir það? Það verður að segjast eins og er, að þessum spurningum hefur verið miklu minni gaumur gefinn. Karlar hafa sjálfir ekki spurt þeirra að ráði í opinberum umræðum, nema þá alveg nýlega. Þátttaka þeirra í umræðum um jafnréttismál hefur meira og minna takmarkazt við svörin við spurningunum um það hvað konur megi eða megi ekki. Það hefur verið miklu minna um að karlar spyrji hvort þeir megi sjálfir sækja á ný mið og skilgreina eigin hlutverk upp á nýtt, eins og konur hafa gert.

Oft eru gerðar kröfur til kvenna um að þær þurfi að breytast ennþá meira til að raunverulegt jafnrétti náist fram; verða t.d. kröfuharðari og áræðnari á vinnumarkaðnum og í kröfum sínum um sömu laun og sömu stöðu og karlar. En eru gerðar kröfur til karla um að þeir breytist? Þarf samfélagið á því að halda að þeir breytist, eins og konurnar hafa breytzt?

Hinn úrelti karl iðnbyltingarinnar

Spurningum af þessu tagi var velt upp á einkar forvitnilegri ráðstefnu, sem haldin var í Tallinn í Eistlandi í síðasta mánuði, undir yfirskriftinni New Masculinity, eða ný karlmennska. Ráðstefnan var haldin á vegum eistneska félagsmálaráðuneytisins og norrænu ráðherranefndarinnar og fyrirlesararnir komu frá Eystrasaltsríkjunum, Norðurlöndum og Norður-Ameríku. Tilgangurinn var að beina sjónum að karlmennsku og karlhlutverkinu og hvernig það væri að þróast.

Einn af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar var Ingemar Gens, sænskur atferlisfræðingur, sem meðal annars hefur lagt sitt af mörkum til hugmynda um uppeldisstefnu í skólum, sem felst í því að kenna strákum það sem stelpur kunna betur en þeir, t.d. samskipti og tilfinningatjáningu, og stelpum það sem strákar kunna betur, t.d. frumkvæði, áræði og hreyfingu. Gens er þar á sömu slóðum og t.d. Margrét Pála Ólafsdóttir og Hjallastefna hennar. Gens dró upp harla neikvæða mynd af stöðu karlmannsins í vestrænum samfélögum. Málflutningur hans var eitthvað á þessa leið: Karlhlutverkið, sem ennþá nýtur viðurkenningar, þ.e. fyrirvinnuhlutverkið, er afsprengi iðnbyltingarinnar. Konur þurftu að vera heima, fæða börn og ala þau upp. Karlarnir þurftu að sjá fyrir heimilinu og stjórnun og völd í stjórnmálum og efnahagslífi voru þeirra svið. Stelpur voru aldar upp undir pilsfaldi móður sinnar og búnar undir eigið móðurhlutverk, strákar ólu sig upp að verulegu leyti sjálfir, í hópi annarra stráka, þar sem allt gengur út á að reyna að ná völdum og klifra sem hæst í valdapýramídanum – og tala ekki við stelpur fyrr en kynþroskaaldri er náð og þeir fara að leita sér að maka.

Þessi kynhlutverk eru úrelt, segir Gens. Konur hafa lagað sig að breytingum í efnahagslífinu. Ein ástæðan fyrir sókn þeirra inn á vinnumarkaðinn er að dregið hefur úr erfiðisvinnu og til hafa orðið ótal störf, sem konur geta unnið ekkert síður en karlar. Þær eru meirihluti stúdenta í háskólum, þær hafa hæfileikana til tjáskipta og að setja sig í spor annarra, sem nýtast í upplýsingaþjóðfélagi nútímans. Karlarnir eru staðnaðir í innantómri eftirsókn eftir stöðu og valdi. Kynhlutverk kvenna hefur breikkað; þær halda áfram að hafa hlutverki að gegna á heimilinu og í barnauppeldi, auk þess sem þær hafa gert sig gildandi á sviðum, sem áður tilheyrðu körlunum eingöngu. Hlutverk karlanna hefur hins vegar þrengzt; þeir tapa hverju víginu á fætur öðru í hendur konum, en hafa ekki unnið nein ný lönd sjálfir.

Gens segir að konum gangi þannig betur og betur, en körlum verr og verr. Þeir séu að verða undir í menntakerfinu og verði fyrir vikið undir á vinnumarkaðnum þegar fram líða stundir. Þeir lenda fremur í glæpum og eiturlyfjaneyzlu, eru ofbeldishneigðari og ástunda alls konar óskynsamlega áhættuhegðun og óhollt líferni. Við þetta bætist sú þversögn, að þótt konum gangi alltaf betur og betur og þær öðlist meiri völd og hærri tekjur, leita þær enn að maka, sem hefur meiri völd og tekjur en þær sjálfar. Niðurstaðan verður sú, segir Gens, að hinn gamli karlmaður iðnaðarsamfélagsins mun hvorki finna sér konu né vinnu. Eftir fáeina áratugi munu konur hafa völdin í samfélaginu, í stað karla.

Ingemar Gens segir að til að forðast að þetta verði niðurstaðan, þurfi að ala börn öðruvísi upp en við gerum í dag. Það þurfi að breyta væntingunum til stráka og stelpna og leyfa báðum kynjum að þróa með sér fleiri hæfileika, sem mannkynið búi yfir, í stað þess að ætlast til að kynin búi yfir gjörólíkum eiginleikum. Þetta sé ekki sízt hlutverk skólans; að styrkja strákana t.d. á tilfinninga- og samskiptasviðinu, en stelpur í frumkvæði, kjarki og sjálfstæði.

Viðhorfið

til föðurhlutverksins

Eins og áður sagði, dregur Ingemar Gens upp harla dökka mynd af framtíðarhorfum karlkynsins. Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni voru ekki eins svartsýnir. Duncan Fisher, framkvæmdastjóri Fathers Direct í Bretlandi, samtaka sem berjast fyrir tækifærum feðra til að sinna börnum sínum betur, lagði þannig áherzlu á þær breytingar, sem hefðu orðið á viðhorfi karla til eigin föðurhlutverks. Fisher dró fram niðurstöður vísindarannsókna, sem sýna fram á að feður, ekki síður en mæður, eru “líffræðilega forritaðir” til að sjá um börn, og niðurstöður úr könnunum, sem sýna að jafnvel í Bretlandi, þar sem kynhlutverkin virðast í mun fastari skorðum en á Norðurlöndum, vildu tveir þriðjuhlutar nýbakaðra feðra að þeir hefðu tækifæri til að vera virkari í uppeldi barna sinna.

Fisher bendir á að þessi breyting sé bæði sprottin af innri hvötum karla og af þjóðfélagslegri nauðsyn. “Undanfarin 100 ár hafa konur barizt fyrir breytingu á hlutverki sínu. Þær hafa sagt að þær kæri sig ekki um það hlutverk, sem hafði verið þröngvað upp á þær,” segir hann. “Konur hafa menntað sig og hagkerfið þarfnast þeirra. Fyrir vikið þarf hagkerfið líka á því að halda að karlar verði virkari í umönnun barna. Efnahagslífið virkar ekki ef konur eiga að vinna, en karlar halda áfram að skipta sér ekki af börnunum. Eina lausnin er þá að fá láglaunakonur til að sjá um börnin fyrir hálaunakonur, á meðan karlarnir halda sínu striki.”

En Fisher segir að hér sé ekki eingöngu um einhvers konar efnahagslega nauðhyggju að ræða; að konur hafi breytzt og þess vegna verði karlar að breytast, í þágu atvinnulífsins. “Margir karlar bera í brjósti von um eitthvað betra en það sem þeir hafa nú. Þeir vilja breytast. Af hverju? Af því að það fylgir því mikill kostnaður að vera aðskilinn frá börnunum sínum – að vera sendur niður í námu eða burt í stríð. Viðkvæðið að menn vilji ekki vera eins fjarlægir börnunum sínum og feður þeirra voru þeim, er orðið mjög algengt.”

Fisher bendir á að viðhorfsbreytingin hvað varðar þátt karla í umönnun barna á sér ekki aðeins stað hjá þeim sjálfum, heldur ekki síður hjá konum. Þannig hafna um 60% nýbakaðra foreldra í Bretlandi, jafnt karla sem kvenna, þeirri hugmynd að meginhlutverk föðurins sé að vinna fyrir fjölskyldunni. Þetta er mikil breyting frá niðurstöðum kannana, sem voru gerðar fyrir aðeins 20 árum.

Það vill svo til að viku áður en ráðstefnan í Tallinn var haldin, gekkst Árni Magnússon félagsmálaráðherra fyrir karlaráðstefnu í Salnum í Kópavogi, sem var eingöngu opin körlum. Tilefni ráðstefnunnar var hvatning Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, til karla að taka þátt í umræðum um jafnréttismál. Það, sem vakti mesta athygli á þeirri ráðstefnu, var að frummælendurnir ræddu ekki fyrst og fremst um það hvernig mætti greiða götu kvenna í atvinnulífinu eða í valdastöðum í þjóðfélaginu. Rauði þráðurinn í öllum umræðum á ráðstefnunni var skýr krafa um að karlar fengju betri tækifæri til að sinna heimili og börnum. Það sást vel á þessari ráðstefnu að karlar eru byrjaðir að hugsa og tala um jafnréttismál, ekki aðeins út frá kröfum kvenna, heldur út frá sínum eigin kröfum um breytingar.

Duncan Fisher lýsir mikilli aðdáun á því kerfi fæðingarorlofs, sem komið hefur verið á hér á landi; segir raunar að miðað við brezkan raunveruleika sé það “frá öðru sólkerfi”. Hann segir að Bretar eigi afar langt í land með að tryggja körlum tækifæri til að sinna börnunum sínum. Þar í landi eiga feður ekki kost á neinu greiddu fæðingarorlofi. Fisher segir öflugt bandalag standa í vegi fyrir öllum breytingum í málinu; bandalag atvinnurekenda, sem ekki vilji að karlar breytist og fari að sinna börnunum sínum meira en þeir gerðu, og kvenréttindakvenna, sem hafi enga trú á að karlar geti breytzt; vantreysti þeim einfaldlega til að sjá um umönnun barna og vilji opinber dagvistarúrræði fremur en að trúa feðrum fyrir barnauppeldi. “Hvers vegna eru svona margar kvenréttindakonur tregar til [að samþykkja fæðingarorlof feðra], þegar kvennabaráttan á svona mikið undir því að karlar axli aukna ábyrgð sem feður?” sagði Fisher. Hann vísaði meðal annars til skrifa Polly Toynbee, hins þekkta dálkahöfundar í The Guardian, sem skrifaði eitt sinn að í Svíþjóð tækju feður ýmist ekki fæðingarorlofið sitt eða notuðu það til að skjóta elgi.

Karlar, völd

og ofbeldi

Þriðji aðalfyrirlesarinn á ráðstefnunni var Kanadamaðurinn Michael Kaufman, stofnandi hinnar alþjóðlegu hreyfingar hvíta borðans (White Ribbon) gegn kynbundnu ofbeldi – og reyndar ofbeldi yfirleitt. Hann fjallaði ekki sízt um þátt valds og yfirráða í hinni hefðbundnu karlmennskuímynd. Samkvæmt þessari ímynd eiga karlar ekki aðeins að ráða yfir konum, heldur eiga líka sumir karlar að ráða yfir öðrum og ofbeldi er oft aðferðin til að tryggja þau yfirráð. Ofbeldi er jafnvel viðurkennt sem samskiptaaðferð meðal karlmanna og hafið til skýjanna í íþróttum, bíómyndum, bókmenntum og hernaði. Karlmenn hafa í rauninni haft leyfi samfélagsins til að leysa mál með ofbeldi og það er ástæðan fyrir því að kynbundið ofbeldi er stundum kallað “heimilisófriður” og talið einkamál viðkomandi fjölskyldu.

Kaufman fjallaði um það, sem hann kallaði þversögn valds karlsins og hann lýsir með eftirfarandi hætti: Í menningu karla er lögð gríðarleg áherzla á að karlinn ráði; í samfélaginu, í vinnunni, á heimilinu. Karlar koma sér upp brynju gagnvart tilfinningum til að tryggja yfirráð sín, eru uppteknir af alls konar ytri táknum valdsins; titlum, peningum o.s.frv. Ef karlinn á að vera alvöru karlmaður má hann heldur ekki sýna á sér veikar hliðar eins og þær að hann kunni að sjá um smábörn. En þessi áherzla á hinn sterka, valdamikla karlmann er jafnframt undirrót ótta og óöryggis, einangrunar, sjálfshaturs og árásargirni. Margir karlmenn geta nefnilega aldrei orðið sterkir og valdamiklir. Það hefur út af fyrir sig alltaf verið þannig, segir Kaufman, en vandamálið verður ennþá flóknara í samfélögum Vesturlanda, þar sem hin hefðbundnu landamæri á milli kynhlutverka eru byrjuð að færast til. Margir karlar geta t.d. ekki með nokkru móti tekizt á við þá staðreynd að maki þeirra hafi hærri laun en þeir sjálfir eða beri flottari titil. Og niðurstaðan, segir Kaufman, er því miður oft að karlar reyna að bæta sér upp raunverulegan eða ímyndaðan missi valda og áhrifa með því að beita aðra ofbeldi. Það getur beinzt að börnum, konum, minnihlutahópum eða einhverjum öðrum, sem virðist liggja vel við höggi.

Kaufman bendir ennfremur á þau vandamál, sem liggi í hinni hefðbundnu skilgreiningu á karlmennsku sem andstæðu hins kvenlega. Hæfileikar til að annast um aðra, lesa í tilfinningar og sýna umhyggju, eru tengdir konum og þar af leiðandi eitthvað, sem “alvöru karlmenn” þurfa ekki á að halda. Þetta leiðir af sér að sumir karlar eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og tengja við tilfinningar þeirra. Þetta eykur líka á hættuna á að karlar beiti aðra ofbeldi, ekki sízt kynferðislegu ofbeldi, segir Kaufman.

Áleitnar

spurningar

Það ber að sjálfsögðu að varast að alhæfa út frá umræðum af þessu tagi. Það kom skýrt fram á ráðstefnunni í Tallinn að í mismunandi þjóðfélagshópum er hin hefðbundna karlmennskuímynd mismunandi sterk. Líklega er hún lífseigust í efsta og neðsta lagi þjóðfélagsins; hjá þeim, sem hafa mikil völd, peninga og áhrif og hjá þeim sem eiga lítið af þessu öllu.

Jafnframt er það mjög mismunandi á milli landa hvað karlar teljast mega gera og hvað ekki. Í Daglegu lífi hér í Morgunblaðinu var fyrir réttri viku rætt við Ingólf V. Gíslason, sviðsstjóra á Jafnréttisstofu, um nýútkomna bók með reynslusögum af fæðingarorlofi feðra í fjórum löndum. “Þeir lýsa þessu sem jákvæðri reynslu og mjög gefandi tímabili. Þeir uppgötvuðu nýjar hliðar á sjálfum sér og áttuðu sig betur á því hvað heimilis- og umönnunarstörf eru gríðarlega tímafrek. Íslensku og dönsku feðurnir upplifðu jákvæð viðbrögð samfélagsins við því að þeir fóru í feðraorlof en á Möltu og í Litháen þá þurftu menn bæði að takast á við mjög neikvæð viðbrögð atvinnulífsins og taka við þeim skilaboðum í kringum sig að þeir væru nú ekki merkilegir karlar að vera heima og skipta um bleiur,” segir Ingólfur.

En þótt ekki beri að alhæfa, felast ýmsar áleitnar spurningar í þeim umræðum, sem fram fóru á ráðstefnunni í Tallinn. Það er t.d. engin ástæða til þess fyrir karlkynið sem heild að axla einhvers konar sameiginlega sekt á kynbundnu ofbeldi. En getur verið að í hinni hefðbundnu karlmennskuímynd felist viðurkenning á ofbeldi sem samskiptaleið, sem ýtir undir slík afbrot og veitir þeim jafnvel ákveðna réttlætingu? Er ekki löngu kominn tími til að karlmenn taki sig saman og hafni ofbeldi sem leið í mannlegum samskiptum, með skýrum og afdráttarlausum hætti?

Má ekki ætla að efling föðurhlutverksins og umönnunarþáttarins í ímynd karlmennskunnar stuðli ekki aðeins að betri tengslum feðra og barna, meira jafnvægi á vinnumarkaðnum og á heimilunum, heldur líka friðsamlegri samskiptum og minna ofbeldi gagnvart konum og börnum? Menn, sem hafa orðið að axla ábyrgð á umönnun kornabarns, uppgötva gjarnan á sér nýja og tilfinninganæmari hlið. Eru þeir líklegir til að kyssa börnin sín og leggja þau í vögguna og fara svo að berja mömmu þeirra?

Rétt eins og samfélagið hefur auðgazt á því að konur skáru upp herör gegn hefðbundnu kynhlutverki fyrir hundrað árum og hófu sókn inn á svið, sem karlar höfðu áður átt einir, munum við græða á því að karlar brjótist út úr gömlum staðalmyndum og kanni nýjar veiðilendur. Og það er raunar ein meginforsenda þess að sú vegferð, sem konur hófu fyrir rúmri öld, nái takmarki sínu, eins og Morgunblaðið hefur margoft fjallað um; að karlar og konur séu raunverulega þátttakendur í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Konur ná ekki að standa jafnfætis körlum hvað laun, völd, forréttindi og áhrif varðar nema karlar fórni einhverjum af þessum hefðbundnu mælikvörðum karlmennskunnar fyrir innihaldsríkari samskipti við fjölskyldu sína, fjölbreyttara tilfinningalíf og þau forréttindi að fá að vera heima og sinna búi og börnum.

Það er auðvitað frumskilyrði að karlar vilji þetta sjálfir – og æ fleiri vilja það. Það hlýtur að segja sína sögu að á undanförnum sex árum hafa um 18.000 feður nýtt sér nýfenginn rétt sinn til fæðingarorlofs. Tekið sér hlutverk, sem feður þeirra litu líklega aldrei á sem sitt. Breytt lífi sínu að einhverju leyti.

Og það er líka skilyrði, eigi árangur að nást, að konur treysti körlum til að taka við verkefnum, sem þær hafa sinnt að mestu leyti einar, rétt eins og karlar þurfa að treysta konum fyrir störfum, sem þeir unnu áður einir.

Karlar eiga, ekkert síður en konur, að vera óhræddir við að gera hluti, sem þeir máttu áður ekki gera. Að fara inn á svið, sem konur áttu einar. Að þessu leyti má segja sem svo að það séu miklu meira spennandi tímar framundan hjá körlum en hjá konum, sem hafa nú þegar breytt svo miklu.

21. janúar

www.mbl.is

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0