Karlar sem hafa háskólagráðu eignast færri börn en þeir sem ekki hafa framhaldsskólamenntun, en þeir fyrrnefndu sinna börnunum sínum meira en þeir síðarnefndu. Er þetta meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum.

Menn sem eru með háskólagráðu ætla sér að meðaltali að eignast tvö börn, en þeir sem ekki hafa framhaldsskólamenntun ætla að meðaltali að eignast þrjú, segir í niðurstöðum rannsóknarinnar sem gerð var á vegum Heilbrigðismálahagstofu Bandaríkjanna.

Er þetta í fyrsta sinn sem stofnunin beinir sjónum sínum að feðrum, hingað til hafa mæður verið viðfangsefni allra rannsókna sem gerðar hafa verið á foreldrum.

Meðal þess sem fram kom, var að meðal bandarískra karla á aldrinum 22 til 44 ára áttu 47% þeirra sem höfðu minna en framhaldsskólamenntun barn utan hjónabands, en sex prósent þeirra sem hafa háskólagráðu eiga barn utan hjónabands.

Þá kemur fram, að feður með háskólagráðu séu ennfremur líklegri til að leika við börn sín og baða þau. Einnig kom í ljós að feður eru alveg jafn líklegir og mæður til að njóta foreldrahlutverksins, þrátt fyrir að það kosti fórnir.

Um 98% feðra og 97% mæðra voru sammála þeirri fullyrðingu að „umbunin sem barneignir veita bætir fyllilega upp kostnaðinn og fyrirhöfnina sem fylgir þeim“.

mbl.is, Tækni & vísindi | AP | 1.6.2006 | 10:48

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0