Stefán Guðmundsson fjallar um jafnréttismál: “Það er mat undirritaðs að Jafnréttisstofa standi ekki undir nafni þegar kemur að foreldrajafnræði og rétti barna til beggja foreldra sinna.”

ÉG VIL byrja á því að óska konum til hamingju með árangur þeirra í jafnréttisbaráttunni og Jafnréttisstofu með sinn hlut í jafnréttisbaráttu kvenna. En víða er pottur brotinn og betur má ef duga skal. Það er mat undirritaðs að Jafnréttisstofa standi ekki undir nafni þegar kemur að foreldrajafnræði og rétti barna til beggja foreldra sinna.
Í lögum um Jafnréttisstofu nr. 96/2000 segir í 1. gr.: Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.

Í greinargerð með lögum um starfsemi Jafnréttisstofu segir í 3. gr.: Jafnréttisstofa skal hafa eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þegar ætla má að ákvæði laganna hafi verið brotin skal framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu senda rökstudd tilmæli til hlutaðeigandi þar sem hvatt er til að ákvæði laganna verði virt.

Þótt einkennilegt megi virðast þá lítur út fyrir að Jafnréttisstofa starfi að megninu til aðeins á tveimur sviðum samfélagsins; sviðum sem lúta að launamun og stöðuveitingum, og þar með að megninu til að leiðrétta hlut kvenna. Það er göfugt verkefni að leiðrétta hlut kvenna. En það er dapurt að stofnun sem kennir sig við jafnrétti skuli ekki starfa eftir þeim skyldum sem á hana eru lagðar. Að leiðrétta hlut beggja kynja á öllum sviðum samfélagsins.

Þó fyrst tekur steininn úr þegar kynjaskipting starfsfólks Jafnréttisstofu er skoðuð. Þar telst til að 6 starfsmenn sinni verkum. Sjálfur hornsteinn jafnréttis á Íslandi kýs að hafa hlutföllin 5 konur á móti einum karlmanni. Leikmaður myndi ætla að þar fyrst væri að leita jafnréttis á vinnustað; öðrum fremur. Ekki síst í ljósi þess að Jafnréttisstofa á að vera fánaberi kynjajafnræðis í þjóðfélaginu og hvetur landsmenn, stofnanir og stjórnmálaflokka til að skipa málum á réttan hátt; óspart og iðulega.

Nú, á því herrans ári 2005, er málum þannig háttað í landi “lýðræðis og jafnréttis” að feður eiga litla sem enga möguleika til að fá forsjá barnanna sinna við skilnað eða sambúðarslit ef til ágreinings kemur um forsjá þeirra. Virðist þá einu gilda á hvaða stjórnsýslustigi og dómstigi menn leita réttar síns. Hjá sýslumönnum ríkir enn það fornaldarviðhorf að mæður eigi að vera uppalendur og feður fyrirvinnur, og í það mesta, “skemmtanastjórar” aðra hvora helgi.

Með öðrum orðum, þá er feðrum yfirleitt úrskurðuð takmörkuð umgengni við börnin sín; klassískt svona 4-6 dagar í mánuði, og þeim jafnvel ráðlagt að fara ekki með málið fyrir dómstóla – vegna þess að þar muni þeir tapa því hvort sem er vegna kynferðis; sem aftur lýsir undarlegum og úreltum viðhorfum margra dómara til jafnræðis kynjanna. Ráðuneyti dómsmála fær svo af og til kærur á úrskurðum sýslumanna, en þar á bæ hefur starfsfólk einkamáladeildar komist að þeirri skrítnu “reglu” að ekki sé hollt fyrir börn að umgangast feður sína meira en að hámarki u.þ.b. 10 daga í mánuði (ef þau eru heppin) og muni ALDREI fá jafna umgengni við þá; séu þau ekki undir þeirra forsjá. Þrátt fyrir að feður þeirra hafi verið metnir fullkomlega jafnhæfir til að annast þau og geti búið þeim fyrsta flokks aðstæður á sínu heimili. Engin rök – af því bara. Slíkir umgengnisúrskurðir eiga sér gjarnan stað og stund á þeim tímapunkti þegar börn þurfa hvað mest á báðum foreldrum sínum að halda; þeim tímapunkti þegar fjölskyldan brotnar og börnin með. En kerfið þverskallast við að átta sig á þeirri augljósu staðreynd og vinnur samkvæmt því.

Þetta er framkvæmdastýru Jafnréttisstofu fullkunnugt um, en aðhefst lítið sem ekkert.

Tölurnar tala sínu máli og ljóst að jafnrétti og jöfn staða kynjanna í þessum málaflokki eru orðin tóm. Börn lúta t.a.m. forsjá móður í yfir 90% tilfella eftir að parasambandi lýkur og karlar eru 97% meðlagsgreiðenda. Þessar staðreyndir um jafnrétti eru bagalegar og ættu sannarlega að kveikja eldmóð hjá Jafnréttisstofu frekar en tómlæti. Því brettir jafnréttisstýra ekki upp ermarnar og segir “Hér er verk að vinna”? Það er skoðun Félags ábyrgra feðra (FÁF) að þessar tölur endurspegli engan veginn áhuga feðra til að taka ríkan þátt í umönnun barna sinna. Þær endurspegla alvarlegt kynjamisrétti.

Undirritaður veltir því fyrir sér, hvort framkvæmdastýru Jafnréttisstofu sé nokk sama um stöðu þessa sviðs samfélagsins, eftir að hafa verið upplýst um það margoft og hún hvött til að gera gangskör í að leiðrétta mesta kynjamisrétti á landinu. Telji hún sbr. greinarkorn sem hún skrifaði í Mbl. hinn 4. maí 2004 undir fyrirsögninni “Nú er nauðsyn” – að það sé í raun nauðsyn – þá er skorað á hana að taka málin föstum tökum upp á sínar eigin spýtur og frumkvæði og beita sér fyrir leiðréttingu opinberlega á þessari vanvirðingu innan kerfisins á réttindum feðra og barna til að eiga sér fjölskyldulíf – eftir að parasambandi lýkur – til jafns við mæður og börn.

Það hefur ekki skort frumkvæði af hennar hálfu þegar launamunur og stöðuveitingar kvenna eru til umræðu og því ber að fagna. Vonast er til að hið sama gildi héðan í frá á öllum sviðum samfélagsins, líka á sviðum karla í leit að samvistum og forsjá barna sinna.

Foreldrajafnrétti leiðir til launajafnréttis.

Stefán Guðmundsson er stjórnarmaður í Félagi ábyrgra feðra.

mbl.is Sunnudaginn 23. október, 2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0