Sunnudaginn 31. desember, 2006 – Innlent – greinar

Gísli Gíslason, formaður Félags ábyrgra feðra

Sameiginleg forsjá mikilvægt skref

Þrennt bar hæst á árinu 2006. Í fyrsta lagi var sameiginleg forsjá lögfest frá Alþingi sem meginregla við skilnað foreldra. Það er afskaplega mikilvægt skref á langri leið.

Sameiginleg forsjá mikilvægt skref - mynd
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrennt bar hæst á árinu 2006. Í fyrsta lagi var sameiginleg forsjá lögfest frá Alþingi sem meginregla við skilnað foreldra. Það er afskaplega mikilvægt skref á langri leið. Þá vil ég sérstaklega nefna að Feðradagurinn var haldinn hátíðlegur hér á landi í fyrsta sinn 12. nóvember sl., með glæsilegri ráðstefnu félagsins. Loks vil ég svo nefna útgáfuna á blaðinu okkar, Ábyrgir feður, sem er trúlega fyrsta jafnréttisblað karla á Íslandi,” segir Gísli Gíslason, formaður Félags ábyrgra feðra.
Félag ábyrgra feðra var stofnað fyrir tæpum tíu árum. Það er áhugafélag um foreldrajafnrétti og tilgangur þess er að veita feðrum, forsjárlausum foreldrum og börnum þeirra stuðning. Félagið hefur haldið nokkur málþing, t.d. Eru pabbar óþarfir árið 1999, Jafnrétti til foreldra í apríl 2002 og Feður og börn á nýrri öld í maí 2004.
Á ráðstefnu félagsins á Feðradaginn í nóvember voru flutt erindi, meðal annars um stöðu feðra og barna og hamingju foreldra og barna, félagsmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna og sérstakur gestur, Tom Beardshaw, kom frá enskum feðrasamtökum.
Gísli segir að málstaður félagsins njóti nú aukins skilnings. “Nú er það sjónarmið að öðlast viðurkenningu að börn eigi rétt á að njóta umgengni við báða foreldra sína, óháð hjúskaparstöðu foreldranna. Það sjónarmið átti undir högg að sækja þegar félagið var stofnað, fyrir tíu árum. “Félagið varð til vegna þess að menn voru ósáttir við stöðu sína. Núna hefur félagið sterka málefnalega stöðu og við njótum vaxandi skilnings, jafnt hjá almenningi sem stjórnmálamönnum.”
 

Forsjármál snerta marga

Gísli segir eðlilegt að félagið hafi náð að hasla sér völl, þegar litið sé til þess hve forsjármál snerti marga. “Hér á landi eru um 12 þúsund meðlagsgreiðendur og um 14 þúsund meðlagsþegar og samskipti þeirra snerta 20 þúsund börn. Sú þróun, að feður sækjast æ meira eftir samskiptum við börn sín, líka eftir skilnað við barnsmóðurina, er mjög ánægjuleg. Við feður viljum vera uppalendur, óháð hjúskaparstöðu okkar.”
Gísli segir að ýmis verkefni bíði Félags ábyrgra feðra. “Ég get nefnt þar sem dæmi, að réttindi og skyldur sem tengjast börnum eru mjög bundin við lögheimili barnanna. Hins vegar eiga mörg börn tvö heimili, hjá móður og föður og næsta skref hlýtur að vera opinber viðurkenning á þeirri stöðu. Við þurfum líka að skoða skattareglur og fleira af því tagi. Við eigum alltaf að hafa hagsmuni barnanna okkar í fyrirrúmi og ég er sannfærður um að foreldrajafnrétti kemur börnum okkar best.”
 

Jól með börnunum

Gísli er ánægður með árangurinn í starfi Félags ábyrgra feðra á árinu sem er að líða. Þegar talið berst að einkalífinu er hann heldur ekki í vafa um hvað er minnisstæðast. “Á aðfangadag voru börnin mín, 8 og 10 ára, hjá mér í fyrsta sinn frá því að við móðir þeirra skildum árið 2001. Það var yndislegt að njóta jólanna með þeim og ég er móður þeirra afskaplega þakklátur fyrir að gefa okkur þá samverustund,” segir Gísli Gíslason, formaður Félags ábyrgra feðra.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0