Já, mér finnst ástæða til að hafa áhyggjur af karlmönnum. Sjálfsmorð eru tíðari meðal þeirra, þeir beita meira ofbeldi og ekki bara sín á milli, þeim gengur verr í skóla og heilsan er ekki eins góð. Að mörgu er að huga. … Hér á landi eru karlmenn stærsti einstaki hópur sem fær félagslega aðstoð frá Reykjavíkurborg.
– Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur og fyrrverandi alþingismaður í viðtali við Morgunblaðið 19. mars 2006.

öngu áður en jafnréttisiðnaðurinn verður hættur að geta réttlætt tilvist sína með vísan til bágrar stöðu konunnar verður hann búinn að dreifa áhættunni og snúa sér að einhverju leyti að vanda karlsins. Þessi þróun er raunar þegar hafin með því að nú hafa verið stofnaðar karlanefndir í jafnréttismálum og nú sjást jafnvel karlar í jafnréttisnefndum og -ráðum en áður voru þar bara konur, væntanlega til að undirstrika kröfuna um jafnan hlut kynjanna á öllum sviðum.

Fyrrverandi þingmaður Kvennalistans Kristín Ástgeirsdóttir víkur að einmitt að vanda karlsins í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Kristín starfar nú á Rannsóknarstofu í kvenna- og já kynjafræði við Háskóla Íslands. Hún bendir á að þeir beiti oftar ofbeldi, svipti sig oftar lífi, séu ekki eins hraustir og gangi verr í skóla en konum.

Kristín er ekki ein um að hafa áhyggjur af karlinum. Lionel Tiger er prófessor í mannfræði við Rutgers háskóla og höfundur bókarinnar The Decline of Males. Eins og titill bókarinnar bendir til fjallar hún um minnkandi vægi karlmannsins sem höfundur rekur meðal annars til framfara í frjóvgunarvísindum. Þessar framfarir hafa að hluta komið í staðinn fyrir samfarir og gert karlmanninn óþarfan þegar stofna þarf fjölskyldu. Í bókinni veltir Tiger því meðal annars fyrir sér hvort hinn gríðarlega aukni áhugi karlmanna á íþróttum og klámi sé ein afleiðing þess að þeir séu að leita nýrra leiða til að fá útrás fyrir karlmennsku sína nú þegar hinar hefðbundnu leiðir eru að hverfa.

Tiger þessi ritaði grein um stöðu karlsins í The Wall Street Journal í desemeber sem leið. Hann segir að nú sjáist loks merki um að menn ætli ekki að láta níða skóinn af karlmönnum öllu lengur. Í nafni pólitísks rétttrúnaðar hafi verið gefið út veiðileyfi á karlmanninn og hann mátt sitja undir látlausum árásum alls kyns samtaka og stjórnmálamanna á undanförnum árum.

Fyrsta kveðjan sem nýstúdentar við háskólann minn og marga aðra skóla fá er boð á nauðgunarnámskeið þar sem farið er í saumana á hættunni sem stafar af karlpeningnum. Í skilnaðarmálum ganga dómstólar að því sem gefnu að karlmenn séu almennt ofbeldishneigðir. Um það eru grátlega mörg dæmi að dómstólar hika ekki við kveða upp úrskurði um nálgunarbann vegna heimilisofbeldis, jafnvel þótt mál fái mjög litla umfjöllun og karlinn sé jafnvel ekki viðstaddur. Þessi niðurstaða hefur svo tilhneigingu til að festast í sessi á síðari stigum með þeim afleiðingum að móðirin fær heimilið, fjárhagsaðstoð og hið mikilvæga forræði yfir börnunum. Mæður fá forræði í 66% þeirra tilvika sem fara ekki fyrir dómstóla en 75% þeirra sem þangað fara. Innan við fjórðungur foreldra fer með sameiginlegt forræði.

Tiger segir að vegna þess hve auðvelt sé að fá karlmann sakfelldan fyrir ofbeldi á grundvelli vitnisburðar konu sé rökstuddur grunur um að ýmis konar miskunnarlausir meðferðarfulltrúar, lögfræðingar og fleiri geri sér mat úr þessu þegar fólk slítur samvistum.

Enginn hefur hins vegar áhyggjur af því að úr opinberum skólum koma að minnsta kosti 20% fleiri góðir kvenkyns nemendur en karlar. Fáir virðast telja það til marks um kynjamisrétti. Það eru viðamikil átaksverkefni í gangi til að jafna hlut karla og kvenna þegar kemur að framúrskarandi árangri í raunvísindum og stærðfræði en enginn álíka áhugi er á því, sem þó hlýtur að hafa mun afdrifaríkari afleiðingar, að karlkyns nemendur standa stúlkum almennt langt að baki í lestri og skrift.
Það eru óteljandi námsbrautir í „kvennafræðum“ en einungis örfár slíkar sem snúast um karlinn. Þeir sem útskrifast úr þessu kvennafræðanámi (en sá hópur stenst auðvitað ekki minnstu kröfur um kynjajafnrétti) fara til starfa hjá hinu opinbera og veita þar stjórnmálamönnum og dómstólum ráðgjöf um nauðsyn þess að þjóðfélagið bæti fyrir aldalöng yfirráð „feðraveldisins“ – svo notuð sé hin útblásna alhæfing.

Tiger segir að afleiðing þess hve hið opinbera hefur kvenlægar áherslur, og karlmenn verði þar með sífellt meira utanveltu í skóla og svo starfi, sé að karlmenn verði „out-laws rather than in-laws“. Konum gangi erfiðlega að finna hinn eina sanna enda sé vart við því að búast eins og búið sé útmála hinn siðblinda og gagnlausa karlmann. Konur kjósi því í auknum mæli að stofna fjölskyldu án karlmanns. Þriðjungur barna fæðist utan hjónabands og 40% barna halli sér á koddann án þess að faðir sé til staðar á heimilinu.

Tiger segir að nú hafi loks verið gerð ítarleg rannsókn á stöðu karlsins í New Hampshire. Það sé ekki falleg lýsing. Hann tekur sem dæmi að 90% þeirra skólabarna sem sett séu á Rítalín og svipuð lyf séu strákar en jafnvel dópaðir standi þeir sig verr en stúlkur. Á leikskóla séu strákar fimm sinnum líklegri til að vera reknir en stelpur.

Vefþjóðviljinn veltir ekki þessum sjónarmiðum Tigers upp til að krefjast átaksverkefna á kostnað skattgreiðenda til að rétta stöðu karlsins eða til að auka líkurnar á því að stofnuð verði Rannsóknastofa í karla- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Hann mundi hins vegar þiggja að hið opinbera hætti að mismuna kynjunum með rekstri jafnréttisráða og -nefnda. Þau eru hluti vandans.

Helgarsprokið 19. mars 2006
78. tbl. 10. árg.

Sjá nánar: http://www.andriki.is/

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0