Í tilefni af fyrirspurn föður (1) til yfirvalda um rétt sinn til að vera áheyrandi á stöðufundum í skóla séu skólayfirvöld því hlynnt, sendir stjórn Félags ábyrgra feðra frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Nýlega sendi faðir fyrirspurn til sýslumannsins í Reykjavík og dómsmála-ráðuneytisins um rétt sinn til að vera áheyrandi á stöðufundum í skóla barns síns. Tilefnið var að móðir barnsins hafði ákveðið að meina honum að sitja umrædda fundi á þeim forsendum að það væri réttur hennar þar sem hún hefði forsjá barnsins. Svör þau sem hann fékk annars vegar frá sýslumanni og hins vegar dómsmálaráðuneyti, voru mjög ólík. Svörin voru í stuttu máli þau að fulltrúi sýslumannsins kvað móðurina ráða í skjóli forsjár sinnar, en dómsmálaráðuneyti áleit að móðirin gæti ekki meinað föðurnum að sitja fundina á grundvelli ákvæða barnalaga um upplýsingar til forsjárlausra foreldra.

Félag ábyrgra feðra bendir á að réttur foreldris til upplýsinga um barn sitt er ótvíræður og nákvæmlega útlistaður í 52. gr. barnalaga. Svar sýslumannsins í Reykjavík í ljósi 52. gr. og í ljósi svars dómsmálaráðuneytis hlýtur því að vekja upp spurningar um hæfi sýslumannsins í Reykjavík og annarra sýslumannsembætta á Íslandi í málum sem þessum.

Félag ábyrgra feðra verður ítrekað vart við þá skoðun forsjárlausra feðra sem leita til félagsins að sýslumannsembættin leggist á eitt með mæðrum í að tryggja hagsmuni þeirra en líti síður til hagsmuna feðranna og barnanna. Hagsmunir forsjármóður virðast ráða för en þeir hagsmunir fara ekki alltaf saman við hagsmuni barnanna eða feðra þeirra Um það má t.d. lesa í Áfangaskýrslu til dómsmálaráðherra (2) frá forsjárnefnd 1999, bls. 19. Aðrar athugasemdir við framgöngu sýslumannsembættanna og starfshætti þar koma fram í fylgiskjali 2 í sömu skýrslu. Eru þær athugasemdir ekki til þess fallnar að auka tiltrú á málsmeðferð sýslumannsembættanna.

Í ljósi alls ofangreinds vill því Félag ábyrgra feðra beina þeim tilmælum til feðra sem standa í erfiðum umgengnis-, meðlags- eða forsjármálum að horfa til þess að rík ástæða er til þess að efast um hæfi sýslumanns-embættanna og ásetning þeirra þegar kemur að úrlausn umræddra mála sem til þeirra er beint. Vill félagið ennfremur benda á að ágreiningur Sýslu-mannsins í Reykjavík og dómsmálaráðuneytisins gefur til kynna að túlkun barnalaga er misvísandi eftir embættum og stjórnsýslustigum. Hlýtur félagið að óska úttektar á starfsháttum sýslumanna og dómsmálaráðuneytisins, ekki síst í ljósi framkominna krafna Félags ábyrgra feðra um fjölskyldudómstól á héraðsdómstigi.

Að lokum telur Félag ábyrgra feðra rétt að minna feður á að hægt er að leita til umboðsmanns alþingis ef þeir telja að brotið hafi verið á rétti sínum í stjórnkerfinu á síðasta stjórnsýslustigi (t.d. dómsmálaráðuneyti).

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0