FÉLAG ábyrgra feðra hefur sent frá sér ályktun þar sem allir feður eru hvattir til að nýta sér lögbundin réttindi til fæðingarorlofs, óháð stöðu þeirra og stétt.

FÉLAG ábyrgra feðra hefur sent frá sér ályktun þar sem allir feður eru hvattir til að nýta sér lögbundin réttindi til fæðingarorlofs, óháð stöðu þeirra og stétt.
Félagið hvetur Alþingi til að breyta barnalögum þannig að sameiginleg forsjá verði sjálfkrafa áfram eftir skilnað foreldra, líkt og er í ýmsum nágrannalöndum og Forsjárnefnd lagði til í lokaskýrslu sinni til dómsmálaráðherra. Uppeldisskyldum beggja foreldra ljúki ekki þó parasambandi þeirra ljúki.

“Félagið fagnar þeirri umræðu sem hefur verið undanfarið um framkvæmd og úrlausn umgengnismála. Úrlausnartími umgengnismála er of langur og of margar stofnanir koma að málum. Félagið hvetur Alþingi og stjórnsýslu sifjamála á Íslandi til að taka höndum saman og finna leiðir til að gera meðferð þessara mála hraðvirkari og skilvirkari.

Félagið hvetur Alþingi til skoða stöðu meðlagsgreiðenda og koma með tillögur til úrbóta. Það er alvarlegt mál þegar yfir helmingur meðlagsgreiðenda er í vanskilum.”

Félagið fagnar þeirri jafnréttisumræðu sem hefur verið í samfélaginu en bendir á að hvergi sé kynjabundinn munur meiri en í forsjármálum. Börn búi í um 90% tilfella hjá móður eftir skilnað, um 97% af meðlagsgreiðendum séu karlmenn.

“Það þarf að hlúa að stöðu feðra og forsjárlausra, og tryggja að réttur barna til beggja foreldra haldist eftir skilnað/sambúðarslit. Foreldrajafnrétti mun leiða til launajafnréttis,” segir í ályktun félagsins.

mbl.is, Sunnudaginn 9. október, 2005 – Innlendar fréttir

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0