Almenn samstaða virðist vera meðal stjórnmálaflokka um málefni Foreldrajafnréttis

 

B-listi Framsóknarflokkurinn

Ályktun um málefni barna og unglinga

Framsóknarflokkurinn segir undir yfirskriftinni „Ályktun um málefni barna og unglinga“:

„Breytingar verði gerðar sem fyrst á barnalögum til að fjölga úrræðum dómara í forræðisdeilum, þ.e. að dómarar fái heimild til að dæma sameiginlega forsjá.

Jafnaðar verði aðstæður foreldra þeirra barna sem eiga tvö heimili. Skoðaðir verði kostir og gallar við að heimila börnum að skrá tvöfalt lögheimili í þeim tilfellum sem foreldrar búa á tveimur stöðum.

Meðlagskerfið verði endurskoðað á þann hátt að tekið verði tillit til umgengni þegar meðlag er ákveðið og fólki gefinn kostur á að semja sjálft um meðlag.“

18. janúar 2009

D-listi Sjálfstæðisflokkurinn

Ályktun um fjölskyldumál

Sjálfstæðisflokkurinn segir undir yfirskriftinni „Foreldrajafnrétti“: „Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja foreldrajafnrétti með breytingu á barnalögum“.

„Sjálfstæðisflokkurinn vill að barnalögum verði breytt með þeim hætti að foreldrajafnrétti verði tryggt. Nauðsynlegt er að dómarar fái heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá. Jafnframt þurfa foreldrar að eiga þess kost að geta samið svo að lögheimili barns verði hjá þeim báðum. Sjálfstæðisflokkurinn telur að í lögum ætti sú meginregla að gilda við sameiginlega forsjá að kostnaður vegna umgengni skiptist jafnt á milli foreldra nema þau ákveði annað í samningi eða sýslumaður úrskurði annað. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að sjálfvirk forsjá til sambúðaraðila eða maka falli niður end séu hagsmunir barnsins ávallt í fyrirrúmi. Sjálfstæðisflokkurinn vill að karlmaður sem telur sig föður barns geti höfðað faðernismál þótt barnið sé feðrað. Forsjárlausir foreldrar fái aðgang að skriflegum upplýsingum um barn sitt frá stofnunum og sveitarfélögum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að umgengnisdeilur verði hægt að reka fyrir dómstólum. Hagsmunir barnsins skuli ávallt vera í fyrirrúmi og þess gætt að rödd barnsins hafi vægi í forræðismálum.

Sjálfstæðisflokkurinn telur afar brýnt að hraða endurskoðun barnalaga.

Sjálfstæðisflokkurinn telur tímabært að gerð verði heildarendurskoðun á meðferð umgengnistálmana sem tekur m.a. til neyðarréttar foreldra, sönnunarbyrði, dagsekta, innsetningarákvæða og refsinga.“

Reykjavík 29. mars 2009

F-listi Frjálslyndi flokkurinn

Velferð og mannréttindi

Frjálslyndi flokkurinn segir undir yfirskriftinni „BÖRN OG RÉTTINDI ÞEIRRA“:

„Tryggja verður að börn séu ekki fórnarlömb sálræns og/eða líkamlegs ofbeldis.“

„Mikilvægt er að barnaverndaryfirvöldum séu búin góð starfsskilyrði.“

„Börn eiga skýlausan rétt á umgengni við báða foreldra. Tryggja þarf börnum foreldra sem sagt hafa skilið við hvort annað, sem jafnastan og öruggan aðgang að báðum foreldrum. Meðlög mega ekki koma í veg fyrir að foreldrar hafi efni á því að umgangast börn sín. Setja þarf reglur um að báðir foreldrar taki þátt í ferðakostnaði barna vegna umgengnisréttar foreldra.“

Stykkishólmi, 14. mars 2009

S-listi Samfylkingin

Mannréttindi í verki

Samfylkingin segir undir yfirskriftinni „Mannréttindi í verki“: „Endurskoða fyrirkomulag forsjármála með það fyrir augum að bæta stöðu og auka rétt forsjárlausra foreldra. Eins verði réttur barna til umgengni við báða foreldra aukinn.“

“Samfylkingin vill breyta lögum um réttarstöðu foreldra og barna eftir skilnað og færa lagaumhverfið til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Í því felst meðal annars að veita dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá, enda hafi þá farið fram faglegt mat á foreldrasamvinnu. Samfylkingin vill endurskoða meðlagsgreiðslukerfið með tilliti til raunverulegra samvista foreldra og barna, barnabóta og skattaumhverfis. Í því samhengi er lögð áhersla á að foreldrar beri almennt kostnað vegna umgengni við börn sín sameiginlega, enda sé tillit tekið til raunverulegrar framfærslu barns, s.s. meðlagsgreiðslna og tekna.

Samfylking vill að afnema sjálfvirka forsjá stjúp og sambúðarforeldra. Jafnframt vill hún kanna möguleika þess að sýslumenn fái heimild til að úrskurða um umgengni stjúpbarna við stjúpforeldri eftir skilnað eða sambúðarslit við kynforeldri. Breyta þarf lögum og tryggja körlum rétt til að höfða barnsfaðernismál, þó svo að barn sé feðrað. Samfylkingin vill að fundnar verði leiðir í lögum til að koma í veg fyrir að foreldrar geti beitt umgengnistálmunum og þannig rofið samskipti barna sinna við hitt foreldrið. Einnig þarf að skerpa á reglum sem varða lögheimilisflutning barna sem eru í sameiginlegri forsjá foreldra sinna, þannig að báðir foreldrar komi með virkum hætti að slíkri ákvörðun ef sýnt þykir að hún muni hafa veruleg áhrif á umgengni. Samfylkingin vill að forsjár og forsjárlausir foreldrar hafi sama rétt til aðgangs að upplýsingum um barn sitt.”

Kópavogi 29. mars 2009

V-listi Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar

Vinstri hreyfingin grænt framboð segir undir yfirskriftinni: “Jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar”.

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill auka þátttöku feðra í uppeldi barna sinna. Uppeldi og velferð barna er ábyrgð foreldra og virða þarf rétt barna til að njóta samvista við foreldra sína.“

Reykjavík 22. mars 2009

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0