Ingibjörg Jónsdóttir er formaður Íslenskrar ættleiðingar. Hún er 46 ára, fædd 26. apríl 1959. Ingibjörg er félagsfræðingur að mennt og starfar hjá félagsþjónustunni í Hafnarfirði. Hún nam fræði sín í Háskóla Íslands og í London School of Economics í Bretlandi. Eiginmaður Ingibjargar er Guðmundur Rúnar Árnason stjórnmálafræðingur. Þau hjón eiga einn son sem er 22 ára og tvær ættleiddar stelpur frá Indlandi.

Félagið Íslensk ættleiðing stendur á sunnudaginn í fyrsta skipti fyrir Fjölskylduhátíð ÍÆ í Ráðhúsinu í Reykjavík. “Markmiðið er að hrista fólkið saman og skemmta sér, en aðallega að undirstrika mikilvægi þess að börnin okkar séu stolt af uppruna sínum og þekki hann. Með því að vera stoltur af því hvaðan maður kemur getur maður skotið rótum annars staðar,” segir Ingibjörg Jónsdóttir, formaður Íslenskrar ættleiðingar.

Íslensk ættleiðing er félag þeirra sem ættleiddir eru erlendis frá og foreldra þeirra.

Húsið verður opnað kl. 13 á sunnudaginn og hátíðin hefst kl. 14. Dagskráin hefst með ávarpi Ingibjargar formanns, síðan flytur ávarp forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, en hann og eiginkona hans, Dorritt Moussaieff, eru heiðursgestir. Mæðgnakórinn syngur, Brynja Valdimarsdóttir Idolstjarna skemmtir, Stefán Haukur Gylfason leikur á klassískan gítar og sparibaukurinn Georg kemur í heimsókn. Veislustjóri er Guðmundur Andri Thorsson.

Hátíðin er ætluð félagsmönnum og fjölskyldum þeirra og eru ömmur og afar einnig boðin velkomin. Eldri ættleiddir einstaklingar í félaginu sem og fjölskyldur þeirra eru sérstaklega hvött til að mæta. “Fólk er oft mjög virkt í félaginu fyrst eftir að það ættleiðir; á meðan börnin eru ung, en þegar þau eldast breytist það. Með þessari hátíð viljum við reyna að draga fólk aftur inn í félagið,” segir formaðurinn í samtali við Morgunblaðið.

Hátíðargestir eru hvattir til að mæta í þjóðlegum klæðnaði, íslenskum búningi eða klæðnaði frá upprunalöndum barnanna.

Auk dagskrárinnar verður kynning frá hverju ættleiðingarlandi fyrir sig og gestum verður boðið að smakka á austurlenskum mat.

Þar sem erfitt verður að rukka aðgangseyri verður aðgangur að hátíðinni ókeypis en óskað er eftir frjálsum framlögum frá gestum til að hafa upp í kostnað og sérstakir söfnunarbaukar verða á staðnum fyrir framlög. Þá verður fjáröflunarnefnd félagsins með bolasölu.

Í tengslum við hátíðina hefur félagið hafið söfnun mynda af öllum börnum, litlum og stórum, sem ættleidd hafa verið til landsins með milligöngu ÍÆ. “Þetta er bara gert til gamans. Félagið hefur haldið utan um allar ættleiðingar frá því það var stofnað og mikið er til af myndum, en börnin eldast og það væri gaman að fá nýjar myndir.”

Ingibjörg segir 35-40 ættleiðingar erlendis frá á hverju ári. “Það gengur aðeins í bylgjum hvaðan mest er ættleitt. Samband komst á við Kína árið 2000 og gengur mjög vel og um þessar mundir erum við einnig í miklum samskiptum við Indland og Kólumbíu.”

mbl.is 21.10.2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0