Það sem er barni fyrir bestu. Þetta eru einkunnarorðin sem öllum þeim er fjalla um og úrskurða í forsjármálum ber að hafa efst í huga hverju sinni. Ekki bara á þeim stað og stund sem slíkt gerist heldur einnig til framtíðar. Tíðni skilnaða á Íslandi er há og oftar en ekki eru börn sem taka þarf tillit til. Fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins lendir í einhverskonar vandræðum á þeim tímamótum og þarf iðulega að leita til yfirvalda með lausn á sínum vandamálum

Skemmst er frá því að segja að nýverið var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í forsjármáli – framhaldsómur frá því 21. okt. síðastliðinn. Dómur þessi hefur verið í umræðunni síðustu vikurnar og sitt sýnist hverjum. Flestir eru þó á því að þar hafi verið kastað til höndunum, sem oft áður í þessum málaflokki, en reyndur lögmaður í faginu Valborg Snævarr taldi í sjónvarpsviðtali á dögunum að orðalag í úrskurði dómsins um; “að þar sem börnin væru ung að aldri þyrftu þau meira á móður sinni að halda en föður” væri einangrað tilfelli sem tæplega væri hægt að taka mið af og ekki gætti kynjamisréttis fyrir dómstólum yfirhöfuð í forsjármálum.

Þeir feður vita betur sem þangað hafa leitað með sín mál – það er klárt. Valborg virðist hinsvegar hafa gleymt því að í sama dómi, framhaldsdómnum, var ekki um neitt einangrað tilfelli að ræða – tilfellið um hátíðisdagana.

Í dómnum er börnunum 6 og 9 ára úrskurðuð umgengni við föður sinn til átján ára aldurs þeirra, um jól og áramót sem hér segir: Aldrei á Aðfangadegi jóla hjá föður. Jóladagur frá kl. 12 til annars í jólum kl. 15 eða samtals í 27 klst. Einnig skulu börnin vera hjá föður önnur hver áramót frá kl. 12 á hádegi gamlársdags til kl. 16 á nýársdag eða samtals í 28 klst.

Þá segir ennfremur í dómnum: Auk reglulegrar umgengni skal stefndi hafa börnin hjá sér um hver jól og áramót í þrjá daga samfleytt. Hefur hann val um dagana 27. – 29. desember eða 2. – 4. janúar. Skal hann tilkynna val sitt eigi síðar en 15. desember.

Hér sýnist undirrituðum að orðalag sé svipað því að verið væri að velja um dauða hluti fremur en að börn væru í spilinu.

Þess ber að geta að umræddur faðir var heimavinnandi með börnin fyrir skilnað – býr á sama stað og börnin ólust upp á og er fullkomlega jafnhæfur til að fara með forsjá þeirra og sinna sínu hlutverki.

Samkv. heimildum undirritaðs er hér um svokallaða “verklagsreglu” að ræða hjá þeim “sérfræðingum” sem komust að þessari döpru niðurstöðu. Þ.e.a.s. að það sé talið börnunum fyrir bestu að þau dvelji alltaf á sínu lögheimili – heimili móður – á aðfangadag. Það er auðvitað heljarinnar fáviska að haga málum með þessum hætti og gerir það m.a. að verkum að börnin fá aldrei að vera hjá föður og stórfjölskyldu; þ.m.t. ömmu og afa, frænkum og frændum í föðurlegg á aðfangadegi jóla.

Vandfundið er það mannsbarn sem ekki hefur dvalið á jólum hjá einhverjum úr stórfjölskyldu í skemmri eða lengri tíma. Þessi dómur hlýtur svo að þýða það á hinn bóginn að börnin skulu vera kyrfilega niðursett á sínu lögheimili – heimili móður – og er ekki heimilt að dvelja td. hjá móðurömmu og móðurafa á aðfangadagskvöld.

Sé þetta einhver verklagsregla – þá hefur hún aldrei átt rétt á sér frekar en margt annað er tilheyrir þessum málaflokki.

Undirritaður hlýtur að kalla eftir viðbrögðum þeirra sem starfa við að tryggja og halda utan um hagsmuni barna á Íslandi – “það sem er barni fyrir bestu” og ætti Umboðsmaður barna að fara þar fremstur í flokki. Þá er það einnig alvarlegt mál að svona lagað skuli fá að viðgangast hvað eftir annað í okkar samfélagi sem regla en ekki undantekning og kominn tími til að þeir ráðherrar sem fara með forsjár og félagsmál í landinu láti rannsaka hverslags vinnubrögð fá að viðgangast undir formerkjum “sérfræðinga á sviðinu”.

Undirritaður beinir einnig þeirri spurningu til biskups og forsætisráðherra landsins; hvort slík vinnubrögð eigi að vera hluti af þeirri fjölskyldustefnu, sem kynnt var með hátíðlegu yfirbragði um síðustu áramót, sem og hinu göfuga verkefni; “Verndum bernskuna” ? Hvort slík vinnubrögð eigi að fá að viðgangast mikið lengur, þar sem mannréttindi barnanna okkar eru fótum troðin í kerfinu sem og jafn réttur feðra til uppeldis og þátttöku í lífi barna sinna eftir skilnað eða sambúðarslit.

Fyrir vel þenkjandi fólk; feður, mæður, ömmur, afa, frænkur og frændur er útilokað að skilja slík vinnubrögð. Venjulegu fólki er fyrirmunað að skilja hvað vakir fyrir þeim “sérfræðingum” sem komast að slíkum niðurstöðum – annað en það að skaða barn meira heldur en orðið er við skilnað foreldra; og á þeim tímapunkti þegar börn þurfa hvað mest á báðum foreldrum sínum að halda og sem jafnast.

Að lokum vill undirritaður draga stórlega í efa hæfi þeirra “sérfróðu” meðdómenda sem komu að þessu máli og mörgum öðrum; hæfi þeirra og getu til að hafa það að leiðarljósi sem er barni fyrir bestu. Í þessu tilviki voru það Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir sálfræðingar. Aðrir með álíka hraksmánarleg vinnubrögð; skerpið ykkar dómgreind og endurvinnið ykkar verklagsreglur.

Stefán Guðmundsson – stjórnarmaður í Félagi Ábyrgra Feðra.

mbl. 30/11/2005

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0