Hvernig taka fulltrúar sýslumanna ákvarðanir um umgengni? Hér er texti úr greinargerð með barnalögum nr. 76/2003:

Í úrskurði um umgengni er kveðið á um inntak umgengninnar og oft einhver nánari fyrirmæli um framkvæmd hennar. Til margs verður að líta þegar úrskurða þarf um umgengni eftir því sem hverju einstöku barni þykir koma best en ákvörðunin um inntak umgengni markast að sjálfsögðu af þeim kröfum sem uppi eru hafðar í málinu, en misjafnt er hversu ítarleg kröfugerð er. Rétt þykir að reifa hér þau atriði sem helst eiga að koma til skoðunar við ákvörðun um inntak umgengninnar.

 1.   Tengsl barns við umgengnisforeldrið skipta að sjálfsögðu miklu máli og hvernig umgengni barnsins við það hefur verið hagað áður. Ef á að ákvarða umgengni í beinu framhaldi af skilnaði eða sambúðarslitum foreldranna mælir það með ríflegri umgengni, nema sérstakar ástæður mæli því gegn. Sama gildir hafi barn haft náið samband við foreldri samkvæmt samkomulagi, sem af einhverjum ástæðum hefur rofnað.
 2. Aldur barns skiptir verulegu máli við ákvörðun um umgengni. Þannig hefur aldur barns áhrif á lengd umgengni og hvort barn gistir utan heimilis. Mjög ungt barn yrði sjaldan úrskurðað til að dvelja næturlangt hjá foreldri sem það hefur ekki búið hjá og þekkir ekki þarfir barns, gegn mikilli andstöðu þess foreldris sem það býr hjá.
 3. Vilji barnanna sjálfra, sérstaklega ef um stálpuð börn er að ræða, skiptir mjög miklu máli. Það segir sig sjálft að ef 14–18 ára börn eiga í hlut er tilgangslítið að ætla að knýja þau til umgengni gegn vilja þeirra og ákvörðun um umgengni barna á aldrinum 12–14 ára er einnig hæpin gegn eindregnum vilja þeirra. Hér verður þó að reyna að meta hvort andstaða barns við umgengni sé raunverulegur vilji þess, eða hvort afstaðan mótist að einhverju leyti af andstöðu þess foreldris sem það býr hjá að staðaldri. Réttur barns sem náð hefur nægilegum þroska til að tjá sig um mál er tryggður í 4. mgr. 71. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., en horfið hefur verið frá því að binda slíkan rétt við 12 ára aldur barns, sbr. umfjöllun um 43. gr.
 4. Búseta foreldranna er atriði sem skiptir máli við ákvörðun um umgengni. Ljóst er að um allt aðrar umgengnisreglur verður að ræða ef foreldrar búa hvor í sínum landshlutanum en ef foreldrarnir búa í sama bæ eða borg. Hér þarf einnig að líta til atriða eins og samgangna, færðar o.fl.
 5. Sérþarfir barns, t.d. vegna íþróttaiðkana og annarra áhugamála í tómstundum, eru atriði sem oft þarf að hafa í huga við ákvörðun um umgengni, einkum ef um er að ræða stálpuð börn, og ber að taka mið af þeim. Einnig ber að líta til hugsanlegra sérþarfa barns vegna fötlunar eða veikinda.
 6. Fyrirkomulag um umgengni áður en krafa er uppi höfð er eitt þeirra atriða er líta ber til við ákvörðun um umgengni. Hafi ákveðið fyrirkomulag gilt í raun um umgengnina á grundvelli samkomulags foreldranna yrði við úrskurð oft tekið mið af því og því meira þeim mun lengur sem fyrirkomulagið hefur varað. Að sjálfsögðu yrði þó að líta til þeirra raka sem færð væru fram til stuðnings kröfu um breytta umgengni.
 7. Um aðfangadagskvöld hefur mótast sú verklagsregla að ákvarða yfirleitt að barn skuli dveljast hjá því foreldri sem það hefur fasta búsetu hjá á aðfangadagskvöld. Rökin fyrir þeim reglum eru þau að það komi barni að jafnaði best að dvelja þá á heimili sínu, enda hafi barnið yfirleitt tekið mestan þátt í undirbúningi hátíðarhaldanna þar. Gegn þessari reglu gæti t.d. mælt það sjónarmið að systkini sem ekki búa hjá sama foreldri gætu verið saman þessa hátíð, e.t.v. til skiptis hjá foreldrunum. Um það hvar barn skuli dvelja á aðfangadagskvöld er oft deilt harkalega í umgengnismálum.
 8. Þegar úrskurðað er um gagnkvæma umgengni, þ.e. þegar eitt eða fleiri börn búa hjá öðru foreldra og eitt eða fleiri hjá hinu, gilda sérstök sjónarmið. Þá verður að líta til þeirra hagsmuna systkinanna að geta umgengist hvort eða hvert annað og notið eðlilegra samvista og jafnframt hagsmuna hvers einstaks barns og foreldris þess af því að eiga kost á samveru án þeirra truflana er dvöl annarra systkina getur valdið.
 9. Þegar foreldri sem barn býr ekki hjá er erlendur ríkisborgari eða búsett erlendis ber að gæta sérstakrar varkárni og gera þær ráðstafanir sem unnt er til að tryggja að umgengnisforeldrið fari ekki með barnið úr landi með ólögmætum hætti.
 10. Ef fram kemur krafa um að umgengni fari fram annars staðar en á Íslandi og foreldri sem barn býr hjá er því andvígt hefur almennt þótt rétt að hafna slíkri kröfu vegna ríkja utan Norðurlandanna. Huga þarf í það minnsta sérstaklega að því við ákvörðun um umgengni erlendis hvort heimaríki erlends foreldris eða búseturíki foreldris er aðili að Haag- eða Evrópusamningum um afhendingu brottnuminna barna, sbr. lög nr. 160/1995. Því yngra sem barn er þeim mun meiri ástæða er til að sýna varkárni þegar svona hagar til. Þessi sjónarmið eiga þó síður við þegar álitaefnið er venjuleg sumarleyfisferð og umgengnisforeldrið er búsett á Íslandi.
 11. Í flestum tilvikum er umgengnisúrskurði ætlað að standa til frambúðar að óbreyttum aðstæðum. Fyrir kemur þó að rétt sé að kveða upp reynsluúrskurð, sem ætlað er að gilda í afmarkaðan tíma. Þetta á helst við þegar verið er að reyna að koma á umgengni í fyrsta sinn milli foreldris og barns eða þegar umgengni hefur legið niðri í langan tíma.

Að öllu því athuguðu sem að framan greinir og oft fleiru ber að taka ákvörðun um inntak umgengni og framkvæmd hennar og verður að meta aðstæður í hverju máli fyrir sig og úrskurða í samræmi við það sem best hentar hverju barni.

Texti úr frumvarpi til barnalaga nr. 76/2003.

Deildu með öðrum ...Share on Facebook
Facebook
0Share on LinkedIn
Linkedin
Tweet about this on Twitter
Twitter
Pin on Pinterest
Pinterest
0Share on Reddit
Reddit
0